Hnetusmjörskaka
Fyrir einhverjum árum síðan sá ég uppskrift á netinu á einum af þessum fjölmörgum síðum sem maður rekur augun í á vafri sínu um frumskóga alnetsins. Og eins og svo oft var ég á einhverjum hlaupum og gleymdi að merkja uppskriftina hjá mér. Og ég mundi eftir uppskriftinni um það bil 4 árum síðar...en ég mundi ekki uppskriftina sjálfa þ.e. innihald. Svo nú var úr vöndu að ráða. Ég get ómögulega munað hvaðan þessi fína uppskrift var eða hvort hún er rétt svona, mig grunar ekki. En það stoppar mig sjaldnast og ég lagðist í tilraunir og fikraði mig áfram með áferð og bragð, á kostnað buddunnar auðvitað en það gildir svo sem einu. Niðurstaðan er þessi, alveg hreint stórgóð hnetusmjörskaka sem er allt í senn, bragðgóð, próteinrík, stútfull af hollri fitu og ekki hlaðin sykri. Kannski dreymdi mig upphaflegu uppskriftina, en ef ekki, og þið finnið þá upprunalegu, endilega látið mig vita! Mig er reyndar búið að dreyma svipaða köku og þessa síðan ég smakkaði fyrst hnetusmjörskökuna á InSpiral, vegan og raw kaffihúsinu á Camden í London...og svei mér þá ef ég er ekki bara búin að ná henni, svona að megninu til allavega.
Athugið að þið þurfið mjög góðan blandara/matvinnsluvél og 18 cm smelluform. Próteinduftið sem ég nota er lífrænt og óbragðbætt og ætti að fást í flestum heilsudeildum matvöruverslana eða í heilsubúðum. Jarðhneturnar sem ég kaupi eru einnig lífrænt ræktaðar.
Kakan er vegan, mjólkurlaus, eggjalaus og glútenlaus. Þó hún sé óbökuð er hún ekki hrákaka því jarðhneturnar eru ristaðar.
Hnetusmjörskaka óbökuð, upplögð í saumaklúbbinn og dásamlega góð
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Vegan
Hnetusmjörskaka
Innihald
Grunnur
- 120 g möndlur
- 80 g mjúkar döðlur
- 50 g dökkt súkkulaði með hrásykri
Fylling
- 400 ml möndlumjólk eða önnur mjólk
- 75 ml hreint hlynsíróp
- 55 g saltaðar jarðhnetur
- 170 g hreint hnetusmjör
- 1 tsk vanilludropar
- 20 dropar hrein stevia
- 45 g próteinduft (e. pea protein powder)
- 95 g kakósmjör
Ofan á til skreytingar
- 50 g dökkt súkkulaði með hrásykri
- 1 lófafylli saltaðar jarðhnetur
Aðferð
- Botninn: Steinhreinsið döðlurnar og setjið í matvinnsluvélina ásamt möndlunum. Látið vélina vinna þangað til fínmalað og bætið þá súkkulaðinu út í, í bitum. Látið vélina vinna aðeins áfram, þangað til súkkulaðið er mjög smátt saxað og vel blandað saman við hitt hráefnið. Klæðið botninn á 18 cm smelluformi með bökunarpappír, smellið aftur í formið og þrýstið svo blöndunni ofan á botninn. Setjið í kæliskáp á meðan þið útbúið fyllinguna.
- Fyllingin: Setjið allt nema kakósmjörið í kröftugan blandara eða matvinnsluvél (ég nota Vitamix blandara) og blandið mjög vel og lengi, mikilvægt er að ekki séu gróf korn í fyllingunni. Bræðið því næst kakósmjörið yfir vægum hita og hellið svo út í blandarann á meðan hann vinnur, í rólegri bunu. Takið smelluformið úr kæliskápnum og hellið fyllingunni út í. Lemjið forminu lárétt nokkrum sinnum niður í borðið til að losa loftbólurnar úr. Setjið í frystinn í um klukkustund.
- Þegar kakan er orðin mjög stíf viðkomu skuluð þið taka hana úr frystinum og leyfa henni að þiðna í um 15 mínútur á borðinu (eða geyma hana í ísskápnum þangað til á að bera hana fram).
- Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði: Hitið vatn í potti (bara botnfylli) á vægum hita. Setjið skál ofan í sem situr á brúnum pottsins og brjótið súkkulaðið ofan í. Fylgist með því og hrærið öðru hvoru þangað til nánast bráðnað, takið þá af hitanum. Gætið þess að súkkulaðið ofhitni ekki og að ekki fari vatnsdropi ofan í súkkulaðiskálina. Hellið súkkulaðinu yfir kökuna. Saxið jarðhnetur og dreifið yfir ef þið viljið.
- Kakan á að vera ísköld (en ekki frosin) þegar þið berið hana fram.
Gott að hafa í huga
- Kakan geymist vel í kæliskáp í nokkra daga.
- Nota má hvaða mjólk sem er í kökuna (svo lengi sem þið eruð ekki með ofnæmi fyrir einhverju hráefni, eða vegan).