Hjónabandssælan hennar mömmu
Mamma mín heitin var afbragðs hjónabandssælubakari. Hún bakaði gjarnan á haustin og gaf til vina og ættingja sem fóru lukkulegir heim með hjónabandssælu undir arminn. Einn nágranni okkar var gullsmiður og hann útbjó verðlaunapening handa mömmu sem hann letraði á: „Fyrsta sæti í hjónabandssælubakstri". Verðlaunapeningurinn hékk uppi og hróður mömmu barst enn víðar. Sælan er mjög tengd minningum um mömmu og svo mikið í reynd að í erfidrykkju mömmu þegar hún lést árið 2016, útbjó Smári bróðir minn hjónabandssælu eftir uppskrift hennar. Það er kannski ekki hefðbundið að bjóða upp á þessa tegund köku í erfidrykkjum en það átti einkar vel við í þessu tilviki. Uppskriftin mín er örlítið breytt því ég nota ekki smjör og notaði erythritol á móti hrásykri. Einnig nota ég jarðarberjasultu á móti rabarbaranum. Engu að síður er grunnurinn kominn frá mömmu sem hún notaði alla tíð.
Athugið að í upprunalegu uppskriftinni eru egg en sælan er nánast alveg eins þó maður sleppi því og noti möluð chiafræ í staðinn.
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
- Án hneta
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án eggja
- Vegan (fyrir jurtaætur)
Hjónabandssælan hennar mömmu
Innihald
- 150 g kókosolía (lin, ekki fljótandi)
- 75 g hrásykur
- 50 g erythritol (eða hrásykur)
- 5 g steviadropar, án bragðefna
- 1 egg (eða 60-70 ml vatn + 1 tsk möluð chiafræ)
- 170 g haframjöl
- 170 g gróft spelti
- 1 tsk bökunarsódi
- 0,5 tsk salt (Himalaya- eða sjávarsalt)
- 200 g rabarbarasulta
- 50 g jarðarberjasulta, án sykurs
Aðferð
- Athugið að kókosolían þarf að vera mjúk en má hvorki vera of hörð eða fljótandi. Þeytið saman í hrærivél: kókosolíu, hrásykri, erythritol og steviadropum ásamt eggi. Geymið í skálinni.
- Hrærið saman í skál: spelti, haframjöl, matarsóda og salt og setjið út í skálina. Látið vélina vinna þangað til allt blandast vel saman.
- Skiptið deiginu í tvo hluta og þrýstið öðrum hlutanum mjög vel ofan í form sem er 18 x 18 sm. Ekki þarf að setja bökunarpappír í formið.
- Hrærið sultunum saman og smyrjið ofan á deigið.
- Klípið afganginum af deiginu saman og dreifið yfir sultuna þannig að sjáist vart í hana.
- Bakið við 170-180°C í 25-30 mínútur eða þangað til hjónabandssælan er gullbrún og sultan farin að dökkna.
- Skerið kökuna í bita ofan í forminu þegar hún hefur kólnað.
Gott að hafa í huga
- Ef ekki á að borða hjónabandssæluna strax, er gott að frysta hana í bitum og hita upp varlega síðar, eða borða þegar hún hefur þiðnað.
- Ef þið eruð vegan eða með eggjaóþol má í staðinn nota 1 tsk af chiafræjum eða möluðum hörfræjum sem hafa legið í bleyti í 50 ml af vatni í 10-15 mínútur. Hellið fræjunum og vatninu út í eins og ef um egg væri að ræða.
- Nota má smjör í staðinn fyrir kókosolíu (ath uppskriftin er þá ekki mjólkurlaus).
- Nota má frosinn rabarbara í sultuna en hann þarf að sjóða vel.
- Ef þið hafið ofnæmi fyrir jarðarberjum má nota rabarbarasultu í alla uppskriftina (eða skipta út jarðarberjum fyrir bláber).