Hjónabandssæla

Þegar ég var yngri hélt ég að hjónabandssæla héti hjónabands-æla (og hélt alltaf að verið væri að gera grín að hjónabandi með því að gera svona ljóta köku því ekki eru hjónabandssælur nú sérstaklega fallegar).

Það var ekki fyrr en löngu seinna að ég skildi að mig hafði vantað eitt s inn í nafnið og kakan hljómaði eftir það aðeins girnilegri fyrir vikið! Þetta er sem sé hollari útgáfa af hjónabandssælu og víst er að þessi kaka er engin æla heldur sæla út í gegn og það með stóru S-i! Ég nota kókosolíu og auðvitað heimatilbúna rabarbara-og döðlusultu. Í botninn set ég svolítið af hnetum svo allt í allt er þessi hjónabandssæla sprengfull af C vítamíni, trefjum, próteinum, flóknum kolvetnum, hollri fitu o.fl. Hún hentar einnig þeim sem hafa mjólkuróþol og þeim sem eru vegan því engar mjólkurafurðir eru í henni. Veit reyndar ekki hvort að þetta sé uppskriftin af sérstakri sælu í hjónabandinu en í staðinn er þetta uppskrift af góðri og hollri köku og betri heilsa hlýtur að leiða til einhvers góðs! Í staðinn fyrir að nota heimatilbúna rabarbarasultu getið þið soðið 170 g rabarbara, 20 ml appelsínusafa og 50 g döðlur og maukað saman.

Athugið að þið þurfið 21 sm smelluform fyrir þessa köku. Athugið einnig að til að flýta fyrir ykkur er best að kaupa heslihnetur sem búið er að rista og afhýða og einnig er gott að vera búin að útbúa rabarbarasultuna með góðum fyrirvara.

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan

Hjónabandssæla

Gerir 1 köku

Innihald

  • 200 g rabarbarasulta
  • 100 g heslihnetur, þurrristaðar, afhýddar og malaðar
  • 50 g cashewhnetur eða möndlur, þurrristaðar og malaðar
  • 50 g spelti
  • 170 g haframjöl
  • 60 ml hreint hlynsíróp
  • 4 msk kókosolía (mjúk en ekki fljótandi)
  • 4-5 msk vatn
  • 1 tsk matarsódi
  • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)

Aðferð

  1. Ef þið eigið ekki tilbúna rabarbarasultu, útbúið hana þá samkvæmt uppskrift.
  2. Ef þið notið heilar heslihnetur með hýði, þurristið þá hneturnar á heitri pönnu. Til að þurrrista á pönnu er best að hita hana á fullum hita og rista hneturnar í nokkrar mínútur eða þangað til hýðið fer að losna. Kælið og nuddið hýðinu af. 
  3. Þurrristið cashewhneturnar í nokkrar mínútur.
  4. Setjið hesli-, og cashewhneturnar í matvinnsluvél og malið í 15-20 sekúndur eða þangað til þær eru orðnar nokkuð fínmalaðar.
  5. Bætið haframjöli, spelti, matarsóda og salti saman við og malið í 10 sekúndur. Setjið allt úr matvinnsluvélinni í stóra skál.
  6. Bætið hlynsírópi, vatni og kókosolíu út í skálina. Best er að hafa kókosolíuna mjúka en ekki fljótandi. Hrærið öllu vel saman þangað til hægt er að klípa deigið saman. Ef það er of þurrt, má bæta nokkrum matskeiðum af vatni til viðbótar út í.
  7. Klæðið 21 sm smelluform með bökunarpappír og þrýstið tveimur þriðju hlutum af deiginu mjög vel ofan í botninn.
  8. Smyrjið rabarbarasultunni ofan á botninn.
  9. Dreifið afganginum af deiginu í litlum klumpum ofan á sultuna. Þrýstið létt ofan á.
  10. Bakið við 180°C í 20 mínútur.
  11. Takið kökuna úr ofninum og látið hana kólna áður en hún er skorin. Athugið að mulningurinn ofan á er svolítið laus svo þið þurfið að vera með beittan hníf til að skera í gegnum (svo allt fari nú ekki út um allt).

Gott að hafa í huga

  • Hægt er að nota aðrar sultur en rabarbarasultur, ég hef t.d. notað hindberjasultu, sveskjusultu og döðlusultu.
  • Athugið að kakan mýkist upp á öðrum degi og ef þið viljið hafa hana stökka er gott að henda henni inn í heitan bakaraofn og hita hana í eins og 10-15 mínútur við 180°C. Við það verður hún alveg eins og nýbökuð. Mér finnst hún líka alveg prýðileg í mýkri kantinum en það er smekksatriði auðvitað.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún mýkist upp.

Ummæli um uppskriftina

Hrönnsa
02. des. 2010

Þessi er í svooo miklu uppáhaldi, ég geri hana glútenlausa með heimagerðri sultu..yum!

sigrun
15. jan. 2011

Æðislegt að heyra Hrönnsa, líst vel á heimagerðu sultuna :)

Margrét Rós
15. jan. 2011

Þessi kaka er líka í algjöru uppáhaldi hjá mér. Mér finnst hrikalega gott að nota næstum alla sultuuppskriftina... mmmm...

Í dag prófaði ég að nota bara þær hnetur sem ég átti inni í skáp og það var líka rosa gott (möndlur, peakan og vahneturl).

Takk aftur fyrir þennan frábæra vef Sigrún!

sigrun
15. jan. 2011

Gaman að heyra Margrét Rós :) Sniðugt hjá þér að nota þær hnetur sem þú áttir, um að gera að drýgja það sem til er í skápunum&;:)

Valgerður
05. júl. 2011

Þessi er rosalega góð. Ég átti reyndar ekki hnetur þannig að ég notaði kókosmjöl í staðinn og hún varð æði. Svo er hún svo ofur auðveld og fljót gerð. Takk fyrir mig.

sigrun
05. júl. 2011

Hljómar vel Valgerður :) Takk fyrir að deila!

Hildur
29. júl. 2012

Sæl Sigrún og takk fyrir frábæran vef.

Ég var að ljúka við að gera rabarbarasultuna og ætla klárlega að prófa þessa sælu við tækifæri. Ein spurning samt - kannski kjánaleg en ég læt hana samt vað - er nauðsynlegt að baka þessa í smelluformi eða er hægt að nota eldfast mót?

Kveðja,
Hildur

sigrun
29. júl. 2012

Engin spurning er kjánaleg :)

Þú getur alveg bakað þessa í eldföstu móti en þarft þá að bera hana fram í því þar sem þú getur ekki losað kökuna úr mótinu með auðveldum hætti án þess að hún skemmist. Sumum finnst betra að hafa hana „lausa" á borði t.d. á kökudisk en ef það er ekki planið, þá geturðu alveg notað eldfast mót í staðinn....bara eins og maður gerir með hefðbundnar „bökur". Vona að þetta hafi hjálpað :)

Kristjana kristjánsdóttir
19. júl. 2014

ég ættla að baka þessa köku takk fyrir uppsk