Heslihnetu- og grænmetisborgarar með papriku- og coriandermauki

Þetta er uppskrift, tekin nánast beint frá Deliu Smith. Hún var „prófuð” á Jóhannesi og mömmu hans þegar við bjuggum í Harrow (Bretlandi). Þau lifðu bæði af og kvörtuðu ekki svo mikið svo ég ákvað að setja uppskriftina inn. Uppskriftin virkar flókin og erfið en er það ekki í raun. Það er bara smá dútl við uppskriftina svo það hentar vel að búa hana til t.d. á laugardagskvöldi eða að búa til maukið með smá fyrirvara, það verður líka betra þannig.

Ég gerði örfáar breytingar og nota ég t.d. spelt hrökkbrauð (gerlaust) í staðinn fyrir venjulegt brauð. Einnig nota ég örlítið agavesíróp í coriandermaukið því oft eru tómatar (sérstaklega á Íslandi) ekki nægilega vel þroskaðir og einnig flýtti ég fyrir mér með því að blanda raspinu (spelt hrökkbrauðið) saman við blönduna í staðinn fyrir að velta borgurunum upp úr því. Einnig notaði ég sojajógúrt en nota má hreina jógúrt eða AB mjólk.

Athugið að ef þið viljið flýta fyrir ykkur er best er að kaupa ristaðar og hakkaðar heslihnetur. Athugið einnig að til að útbúa þessa uppskrift þarf matvinnsluvél.


Heslihnetu- og grænmetisborgarar, í miklu uppáhaldi hjá mér

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án glúteins

Heslihnetu- og grænmetisborgarar með papriku- og coriandermauki

Fyrir 3-4

Innihald

Fyrir borgarana:

  • 75 g heslihnetur
  • 2 meðalstórar gulrætur, afhýddar og rifnar
  • 2 sellerístönglar, saxaðir smátt (má nota gula papriku í staðinn)
  • 1 meðalstór laukur, afhýddur saxaður
  • 1 spelt hrökkbrauðssneið (eða spelt brauðsneið)
  • 1 msk fersk steinselja, söxuð smátt
  • Nokkrar klípur af cayenne pipar
  • Smá klípa af múskati (enska: nutmeg)
  • 1 stórt egg
  • 1 msk tómatmauk (puree)
  • 1 msk hrein sojajógúrt (eða venjuleg jógúrt/AB mjólk)
  • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • Svartur pipar eftir smekk

Utan um borgarana:

  • 1 stórt egg, slegið til með gaffli
  • 75 g brauðmylsna (úr spelt hrökkbrauði eða brauði)
  • Til að flýta fyrir má blanda þessu tvennu saman og hræra saman við borgarana

Fyrir coriander- og paprikumaukið

  • 1 rauð paprika
  • 1 grænn chili pipar
  • Hálfur rauðlaukur
  • 2 msk ferskt coriander, saxað smátt
  • 2 msk límónusafi
  • 1 stór tómatur, afhýddur og saxaður
  • 0,5 tsk agavesíróp

Aðferð

  1. Fyrst skal útbúa borgarana:
  2. Hitið ofninn í 200°C.
  3. Byrjið á því að dreifa heslihnetunum á litla bökunarplötu og grillið þær í ofninum í 5-6 mínútur, ekki lengur.
  4. Takið hneturnar úr ofninum og kælið. Nuddið hýðið af með fingrunum.
  5. Setjið hneturnar í blandara þegar þær eru orðnar kaldar og malið í fínt duft. Setjið spelt hrökkbrauðið út í og látið vélina vinna í um 5-7 sekúndur eða þangað til brauðsneiðin er orðin fínmöluð. Setjið í stóra skál.
  6. Setjið 75 g af spelthrökkbrauði út í matvinnsluvélina og malið í um 5 sekúndur. Setjið til hliðar (notað utan um borgarana).
  7. Skrælið gulræturnar og rífið þær.
  8. Saxið selleríið og steinseljuna smátt.
  9. Afhýðið laukinn og saxið smátt.
  10. Setjið rifna og saxaða grænmetið, steinseljuna, cayenne piparinn og múskatið í stóru skálina og hrærið vel.
  11. Í annari lítilli skál skuluð þið blanda saman egginu, tómatmaukinu og jógúrtinni. Hrærið vel og setjið svo út í stóru skálina. Kryddið með salti og pipar og hrærið vel í öllu.
  12. Kælið blönduna í um klukkustund áður en þið mótið borgarana.
  13. Mótið 8 borgara í höndunum.
  14. Útbúið það sem á að fara utan um borgarana næst:
  15. Setjið 75 g af spelt hrökkbrauði (það sem þið voruð búin að mala) og setjið í skál.
  16. Hrærið egg, salti og pipar í aðra skál.
  17. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu.
  18. Dýfið hverjum borgara í egg fyrst, svo í brauðmylsnu og setjið á bökunarplötuna.
  19. Bakið við 200°C í 20 mínútur, snúið þá borgurunum og bakið í aðrar 20 mínútur (mega gjarnan vera aðeins lengur í ofninum ef maður vill harða skorpu).
  20. Á meðan, skuluð þið setja undirbúa coriander- og paprikumaukið:
  21. Afhýðið tómatinn. Til að afhýða tómat er best að setja hann í sjóðandi heitt vatn í 5 mínútur, setja hann svo í plastpoka, loka fyrir í 5 mínútur og taka svo hýðið af. Saxið tómatinn smátt.
  22. Saxið corianderlaufin smátt.
  23. Skerið papriku og chili piparinn langsum, fræhreinsið og saxið gróft.
  24. Afhýðið rauðlaukinn og saxið smátt.
  25. Setjið tómat, coriander, papriku, chili pipar, rauðlauk og límónusafa í matvinnsluvél. Blandið í nokkrar sekúndur þannig að allt verði fínt saxað en ekki þannig að það verði að algeru mauki. Kælið. Ef mikil bleyta er í maukinu má sigta það aðeins. Bætið agavesírópinu við og berið fram.

Gott að hafa í huga

  • Berið fram með salati og jafnvel byggi eða hýðishrísgrjónum.
  • Það er mjög gott að búa til maukið deginum áður. Það sparar tíma og maukið verður ekki síðra þannig.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
  • Upplagt er að frysta borgarana og taka með sér í nesti síðar eða hita upp. Einnig er gott að taka þá með sér í útileguna (til að hita upp).