Heilsubrauð Önnu Stínu
1. mars, 2005
Mjög gott og próteinríkt brauð eftir uppskrift Önnu Stínu mágkonu en hún var að fikta sig áfram í eldhúsinu.
Þessi uppskrift er:
- Án eggja
- Án hneta en með fræjum
- Án hneta
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án mjólkur
- Vegan (fyrir jurtaætur)
Heilsubrauð Önnu Stínu
Gerir 8-10 sneiðar
Innihald
- 100 g hreint hafrakex (úr heilsubúð)
- 200 g haframjöl
- 1,5 tsk vínsteinslyftiduft
- 100 g blönduð fræ (t.d. sólblómafræ, hörfræ, sesamfræ o.s.frv.)
- 2 msk undanrennuduft eða skyr
- 250 ml AB mjólk. Gæti þurft meira eða minna
- 130 ml lífrænt framleiddur barnamatur án sykurs; epla-, peru-, eða aprikósumauk
- Ef blandan er of bragðdauf má bæta smávegis af agavesírópi í uppskriftina
Aðferð
- Maukið hafrakexið í matvinnsluvél í um 5-10 sekúndur. Færið svo yfir í stóra skál.
- Bætið fræjunum saman við ásamt vínsteinslyftiduftinu og haframjölinu. Hrærið vel.
- Blandið saman skyri/undanrennudufti, AB mjólk og barnamatnum. Hellið út í stóru skálina.
- Hrærið öllu vel saman. Deigið á að verða eins og þykkur hafragrautur.
- Setjið bökunarpappír ofan í 25 cm ferkantað form. Smyrjið deiginu jafnt ofan í formið.
- Bakið við 180°C í 40-45 mínútur.
Gott að hafa í huga
- Athugið að í upprunalegu uppskriftinni var Cheerios í staðinn fyrir hafrakex. Einnig má nota 100 g af hreinum höfrum ásamt 1 msk af kókosolíu og 1 tsk af agavesírópi.
- Hollt hafrakex fáið þið í flestum heilsubúðum eða í heilsuhillum stærri verslana.
- Í staðinn fyrir barnamat má nota eplamauk (enska: Apple sauce) úr heilsubúð eða heilsudeildum matvöruverslana.
- Í staðinn fyrir AB mjólk getið þið notað haframjólk, sojamjólk, hrísmjólk, möndlumjólk eða undanrennu.
- Ef þið notið ekki jógúrt, AB mjólk eða súrmjólk getið þið blandað mjólkinni sem þið notið saman við 1 msk sítrónusafa og látið standa á borðinu þangað til hún fer að mynda kekki (í um 15 mínútur). Hellið henni svo út í speltið.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2025
Ummæli um uppskriftina
10. mar. 2012
Flott síða hjá þér!