Hawaii ananasmuffins

Þessi uppskrift er upprunalega úr bók sem ég pantaði af Amazon og heitir The Joy of Muffins. Nigella Lawson (sjónvarpskokkur) mælti með henni og ég sé ekki eftir að hafa keypt hana. Hún var mjög ódýr (engar myndir reyndar, bara einföld gormabók) en stútfull af fínum uppskriftum. Ég er aðeins búin að breyta uppskriftinni og gera hana hollari, nota spelt í stað hveitis, vínsteinslyftiduft í stað venjulegs, rapadura hrásykur í stað hvíta sykursins, kókosolíu og barnamat í stað smjörs o.fl. Call me crazy en ég sver það að ég heyri sjávarnið og finn sólina á vanganum þegar ég borða þessa muffinsa.


Suðrænn muffins með ananas og kókos

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur
 • Án hneta

Hawaii ananasmuffins

Gerir 10-12 muffins

Innihald

 • 160 g ferskur, vel þroskaður ananas, saxaður smátt
 • 350 g spelti
 • 1 msk hveitikím (enska: Wheat germ), má sleppa
 • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 2 tsk vínsteinslyftiduft
 • 30 g kókosmjöl
 • 1 egg 
 • 1 eggjahvíta
 • 2 mtsk kókosolía
 • 170 ml hreinn ananassafi eða appelsínusafi
 • 1 msk hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) eða agavesíróp
 • 125 ml lífrænt framleiddur barnamatur án sykurs; epla-, peru-, eða aprikósumauk
 • 100 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
 • 1 msk rapadura sykur (ofan á)
 • 2 msk kókosmjöl (ofan á)
 • 1 msk rifinn börkur af appelsínu (má sleppa)

Aðferð

 1. Afhýðið ananasinn, kjarnhreinsið og skerið í litla bita (svona eins og helming af litlum sykurmola). Þið þurfið 160 g af ananas.
 2. Í stóra skál skuluð þið blanda saman spelti, lyftidufti og salti. Bætið hveitikími og kókosmjöli saman við og hrærið vel.
 3. Í aðra skál skuluð þið blanda saman barnamat, hlynsírópi, eggi, eggjahvítu, rapadura hrásykri, ananassafa og kókosolíu. Hellið út í stóru skálina.
 4. Hrærið öllu varlega saman, bara í nokkrar sekúndur (bara nokkrar hreyfingar með stórri sleif).
 5. Bætið ananasbitunum saman við, varlega og hrærið með sleif eins lítið og hægt er.
 6. Rífið appelsínubörkinn ef þið ætlið að nota hann. Rífið aðeins appelsínugula hlutann, ekki þann hvíta fyrir innan.
 7. Takið til silicon muffinsform. Setjið nokkra dropa af kókosolíu í eldhúsþurrku og strjúkið holurnar að innan.
 8. Fyllið hverja holu nánast upp að rönd með deigi. Gott er að nota ískúluskeið.
 9. Hrærið saman rapadura hráyskur, kókos og appelsínubörk og dreifið yfir muffinsana.
 10. Bakið við 180°C í um 25-30 mínútur.

Gott að hafa í huga

 • Kókosmjölið var ekki í upphaflegu uppskriftinni og það má alveg sleppa því en það gefur gott bragð og passar vel við ananasinn.
 • Ein leið til að athuga hvort ananas er þroskaður eða ekki er að lyfta honum upp. Hann á að virka þungur miðað við stærð. Hann á líka að gefa aðeins eftir þegar maður ýtir í börkinn og botninn á honum á að lykta aðeins af ananas (þungur, sætur ilmur). Að lokum er hægt að kippa einu blaði úr blaðakrónunni efst. Ef blaðið losnar auðveldlega frá, er ananasinn þroskaður)
 • Nota má ananasbita í dós en þeir verða þá að vera í eigin safa, ekki sírópi. Skerið í litla bita.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Ég nota Hipp Organic, Organix eða Holle barnamat. Þessi merki eiga það sameiginlegt að vera lífrænt framleidd og eru ekki með viðbættum sykri.
 • Í staðinn fyrir barnamat má nota eplamauk (enska: Apple sauce) úr heilsubúð eða heilsudeildum matvöruverslana.
 • Ef afgangur er af barnamatnum má frysta hann í ísmolabox og nota í drykk síðar (smoothie).
 • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
 • Ef maður notar ekki olíu eða smjör í deigið þá getur maður hvorki notað venjuleg muffins pappírsform, né muffinsbökunarplötu úr járni. Það fást sem sé ekki muffins pappírsform sem maður getur bakað í án þess að þurfa að nota smjör eða olíu í deigið. Það sem þið getið gert er að sníða hringi úr bökunarpappír. Strikið með penna utan um undirskál og klippið út. Setjið svo í hverja muffinsholu. Það er hægt að nota muffinspappírinn í allt að sex skipti. Ef þið notið silicon muffinsform þurfið þið ekki bökunarpappír.