Hálfmánar

Ég held að þessi uppskrift sé upprunalega af Grænum Kosti því ég sá svipaða uppskrift í bókinni hennar Sollu. Uppskriftin er allavega góð eins og allt frá henni. Prófið ykkur áfram með fyllingu en gætið þess að hún sé ekki of blaut því þá lekur fyllingin út um allt í bakstrinum.

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Hálfmánar

Gerir um 25 stykki

Innihald

Deig:

  • 440 g spelti
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft
  • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 0,5 tsk kanill (má sleppa)
  • 90 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
  • 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
  • 4 msk kókosolía
  • 100-150 ml sojamjólk 

Fylling:

  • 100 g döðlur, saxaðar gróft
  • 1 msk vanilluduft (úr heilsubúð)
  • 1 þroskaður banani

Aðferð

Aðferð - Fylling:

  1. Saxið döðlurnar gróft og setjið þær í vatn. Látið döðlurnar liggja í bleyti í um 30 mínútur.
  2. Hellið vatninu vel af döðlunum og setjið þær í matvinnsluvél ásamt banana og vanilludropum. Maukið vel

Aðferð - Deig:

  1. Sigtið saman í stóra skál: spelti, lyftiduft, salt og kanil. Hrærið vel saman.
  2. Í aðra skál skuluð þið hræra saman kókosolíu, vanilludropum, rapadura hrásykri og 100 ml af sojamjólk). Hellið út í stóru skálina.
  3. Hrærið vel í öllu og þannig að hægt sé að hnoða deigið. Bætið vökva við eftir þörfum.
  4. Fletjið smá klump af deiginu í einu með kökukefli. Gott er að setja spelti (eða bökunarpappír) á borðið.
  5. Skerið út hringi um 5 sm í þvermál. Notið kökuskurðarmót eða glas með skörpum brúnum til að þrýsta niður í deigið.
  6. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og raðið hringjunum á plötuna. Setjið 1 tsk af fyllingu á neðri helming hvers hrings og leggið hinn helminginn jafnt yfir. Lokið með gaffli (gott að bleyta gaffalinn á milli).
  7. Bakað við 180-200 °C í 10-12 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Það má einnig nota sultur án viðbætts sykurs í fyllingu, t.d. rabarbarasultu eða hindberjasultu. Gætið þess samt að þær séu ekki of þunnar því þá leka þær út um allt.
  • Þessi uppskrift hentar líka prýðilega í skonsur. Mótið deigið í þríhyrninga, og hafið um 1 sm þykkar. Sleppið sultunni. Bakið við örlítið lengri tíma og hærri hita og berið fram heitar með sykurlausri bláberjasultu eða annari sultu sem ykkur finnst góð (t.d. frá St. Dalfour, Himneskri hollustu og Whole Earth. Flestar sultur úr heilsubúðum eru góðar.
  • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Kökurnar geymast í nokkra daga í lokuðu íláti en verða svo mjúkar. Best er að frysta þá hálfmána sem ekki eru borðaðir samdægurs og hita svo upp síðar í bakaraofninum.