Hafragrautur
Hafragraut er nú óþarft að kynna. Hann er einfaldur, saðsamur, fullur af hollri og góðri orku og er eitt besta bensín sem maður getur fengið fyrir daginn. Maður getur bætt út á grautinn brytjuðum, þurrkuðum eða ferskum ávöxtum, kanil, hlynsírópi og svo mætti endalaust telja. Besti hafragrautur sem ég hef smakkað var í hálöndum Skotlands sumarið 2006. Mitt í fjalllendinu (tók 8 tíma með lest þangað frá London) var vin í eyðimörk, smá lestarstopp í Corrour (þar sem Trainspotting myndin var tekin). Ég var svöng, mér var ískalt og ég var þreytt eftir langa ferð og rétt áður en við lögðum stað í gönguna fékk ég mér fulla skál af hafragraut við opinn arineld. Grauturinn var æði, enda eru Skotar þekktir fyrir hafragrautana sína. Það besta var, að hann var búinn til í pottinum hjá Beth sem sá um staðinn og hann var búinn til með umhyggju og aðeins besta fáanlega hráefni. Hafragrauturinn dugði mér vel upp í fjallshlíðina enda er hann eins og áður sagði, frábært bensín.
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Hafragrautur
Innihald
- 100 g haframjöl
- 600 ml sojamjólk eða undanrenna
- 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- 1 tsk kanill (má sleppa)
- 1 msk hlynsíróp (enska: maple syrup) eða 1 msk agavesíróp (má sleppa)
Aðferð
- Setjið haframjölið, sojamjólkina og saltið í lítinn pott. Hleypið suðunni upp og látið grautinn sjóða í um 7 mínútur. Standið við pottinn og hrærið í honum svo ekki sjóði upp úr.
- Hrærið kanil og hlynsírópi út í (má sleppa).
- Bætið kaldri sojamjólk eða undanrennu út á eða borðið grautinn bara eins og hann er, soðinn.
- Bætið því út í sem ykkur dettur í hug, t.d. söxuðum döðlum eða fíkjum, söxuðum hnetum, rúsínum, aprikósum, ferskum ávöxtum eins og niðurskornum eplum, perum, bönunum o.s.frv.
Gott að hafa í huga
- Nota má hrísmjólk, möndlumjólk, sojamjólk eða haframjólk í staðinn fyrir léttmjólk.
- Ef afgangur er af hafragrautnum má nota hann í brauð, lummur eða rúsínuklatta (minnkið spelti og vökva sem grautnum nemur).
- Hafragraut er auðvelt að útbúa í útilegum og er þá gott að pakka í töskuna mjólkurdufti, salti, kanil og haframjöli í poka og bæta svo vatni út í.
Ummæli um uppskriftina
11. feb. 2012
Sæl Sigrún.
Ég hef aldrei bragðað hafragraut, sem er soðinn með mjólk, ég nota alltaf vatn. Er það ekki bara bæði hollara og betra? Ég hef aldrei séð ástæðu til að bæta mjólk í grautinn fyrir eða á meðan á suðu stendur. Meðlætið getur svo verið alls slags, að mínum dómi, mjólk er góð, vatn líka, nú stundum þarf maður ekkert. Hafragrauturinn er líka alltaf góður með slátri, svo eru ávextir líka ágætir, mér finnast perur passa best.
11. feb. 2012
Hann var soðinn með mjólk á mínu heimili en auðvitað á maður að útbúa hann eins og manni þykir best. Perur og hafragrautur eru góð blanda sem og aðrir ávextir. Þetta er allt smekksatriði :) Þú færð aukið prótein með því að nota sojamjólk/undanrennu sem og kalk en að öðru leyti er hollara að nota vatn. Veit ekki með betra, mér finnst hann allavega bestur með sojamjólk.