Gulrótarkökur

Þessar gulrótarkökur eru fínar með kaffinu en einnig eru þær upplagðar sem jólasmákökur. Hafið í huga að svona kökur geymast aldrei mjög lengi og eru því bestar glænýjar úr ofninum og svo má frysta afganginn af kökunum og hita upp seinna.

Athugið að þið þurfið matvinnsluvél eða blandara til að mala haframjölið.

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án hneta

Gulrótarkökur

Gerir 25 stykki

Innihald

  • 150 g haframjöl
  • 160 g gulrætur
  • 70 g rúsínur
  • 4 msk spelti
  • 0,5 tsk vínsteinslyftiduft
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 0,5 tsk múskat (e. nutmeg)
  • 0,5 tsk kanill
  • 5 msk kókosolía
  • 5 msk hreint hlynsíróp
  • 5 msk rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
  • 1 egg

Aðferð

  1. Setjið haframjölið í matvinnsluvél eða blandara og malið í um 5 sekúndur.
  2. Flysjið gulræturnar og rífið þær frekar fínt á rifjárni.
  3. Saxið rúsínurnar gróft.
  4. Sigtið saman í stóra skál: spelti, lyftiduft, salt, negul, kanil og múskat. Bætið haframjöli og rúsínum saman við og hrærið vel.
  5. Í annarri skál skuluð þið blanda saman kókosolíu, eggi, rapadura hrásykri og hlynsírópi. Hrærið varlega og blandið út í stóru skálina. Blandið öllu vel saman en án þess að hræra of mikið.
  6. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og látið matskeið af deigi á bökunarplötuna. Hafið svolítið bil á milli smákakanna.
  7. Bakið við 160°C í 20-25 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Gott er að bæta 50 grömmum af söxuðum hnetum saman við deigið, t.d. cashew-, hesli- eða Brasilíuhnetum.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Athugið að smákökurnar eru bestar nýbakaðar. Frystið þær smákökur sem þið borðið ekki samdægurs og hitið svo upp síðar. Þær verða eins og nýbakaðar.
  • Nota má smátt saxaðar döðlur í staðinn fyrir rúsínur.