Gulrótar- og kókossúpa frá Zanzibar
Ég hef lengi leitað að uppskrift að gulrótar- og kókossúpu og er hér búin að búa til eina sem er blanda úr nokkrum uppskriftum. Það skemmtilega við súpuna er að hún minnir mig mjög mikið á frábæra súpu sem ég fékk á veitingastaðnum Archipelago á Zanzibar í september 2007. Súpuna borðaði ég við sólsetur uppi á svölum veitingastaðarins og ég horfði út á Indlandshaf. Á svoleiðis stundum verður lífið ekki mikið betra. Ég elska gulrótarsúpur og þessi uppskrift er svo ég segi bara sjálf frá, sérlega góð, mér fannst ég alveg finna lyktina af sjónum og heyra í sjómönnunum gera að aflanum fyrir kvöldið en aflinn er seldur á Forodhani matarmarkaðnum þar sem aldeilis er líf og fjör á kvöldin við gasluktir og kryddlykt. Fyrir gulrótarsúpur finnst mér aðalmálið vera að það sé gott jafnvægi á milli lauks, hvítlauks og gulróta því súpan má ekki vera of sæt. Þessi súpa er stútfull af A, C og K vítamínum sem og trefjum og er frábær með haustinu þegar gulræturnar eru nýjar enda mikilvægt að nota bestu fáanlegu gulræturnar í súpuna. Þessi súpa hentar þeim sem eru með mjólkuróþol, glúteinóþol og þeim sem eru vegan. Hún er einnig ódýr, einföld og þægileg.
Athugið að best er að nota matvinnsluvél, blandara eða töfrasprota til að mauka súpuna.
Ein af uppáhaldssúpunum mínum þó ég segi sjálf frá
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Gulrótar- og kókossúpa frá Zanzibar
Innihald
- 1 stór laukur
- Smá bútur ferskt engifer (álíka og vínber að stærð)
- 4 hvítlauksgeirar
- 300 g gulrætur
- 150 g sætar kartöflur
- 2 msk kókosolía
- 1 tsk karrí
- 2 gerlausir grænmetisteningar
- 750 ml vatn
- 150 ml kókosmjólk
- 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt) ef þarf
- Hvítur pipar, ef þarf
- Smá klípa saffran (má sleppa en gefur fallegan lit)
Aðferð
- Afhýðið lauk, gulrætur, sæta kartöflu, engifer og hvítlauk og saxið gróft.
- Hitið kókosolíuna í potti og steikið laukinn þangað til hann fer að linast. Ef vantar meiri vökva, notið þá vatn.
- Bætið hvítlauknum og engiferinu út í og steikið áfram.
- Bætið karríinu út í og hrærið vel.
- Bætið helmingnum af vatninu út í og svo gulrótunum og sætu kartöflunum. Hitið þangað til grænmetið fer að mýkjast.
- Bætið afgangnum af vatninu ásamt grænmetisteningunum út í og hrærið vel.
- Látið malla í 15 mínútur eða þangað til grænmetið er orðið mjúkt.
- Bætið kókosmjólkinni út í.
- Bætið saffrani út í ásamt salti og pipar eins og þarf.
- Maukið súpuna með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Kælið súpuna aðeins fyrst ef þið setjið hana í matvinnsluvél og blandið í smá skömmtum.
Gott að hafa í huga
- Berið fram með snittubrauði eða kókosbrauðbollum.
- Ef þið viljið þynnri súpu bætið þá aðeins meira af vatni út í. Einnig getið þið haft súpuna grófari með því að blanda hana ekki lengi í matvinnsluvél. Mér finnst best að hafa hana silkimjúka án nokurra bita.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
- Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
- Ef afgangur er af kókosmjólkinni má frysta hana í ísmolabox og nota síðar, t.d. í svona súpur eða smoothie.
Ummæli um uppskriftina
07. des. 2010
Kæra Sigrún.
Er splúnkunýr aðdáandi þinn fædd 43 og búin að vera 90% grænæta í 50 ár. Ég kann lítið á tölfu og var eitthvað að fikta, datt niður á þig í gær og er búin að gera uppáhalds súpuna þína frá Zanzibar,ummmmmmmmm svaka góð, þúsund þakkir fyrir að vera svona dugleg fyrir okkur og ég hlakka til að prufa fleyra.
Gleðilega hátið
kveðja frá Florida
Hekla
08. des. 2010
Æðislega gaman að heyra Hekla. Vonandi líkar þér hinar uppskriftirnar líka :)
07. maí. 2011
Gerði gulrótarsúpuna í kvöld og get svo sannarlega mælt með henni. Hún verður löguð aftur hér!
08. maí. 2011
Gaman að heyra Dagrún. Svo er upplagt að gera mikið magn í einu til að frysta :)
22. nóv. 2011
Ji minn eini, þessi súpa er algjör snilld! Klárlega besta gulrótarsúpa sem ég hef smakkað og verður fastur liður á mínum matseðli. Þúsund þakkir fyrir þessa uppskrift.
22. nóv. 2011
Það gleður mig að heyra að þér líkaði súpan :) Njóttu vel :)
25. ágú. 2012
Sæl, ég er ný inni á síðunni og finnst hún algjör snilld. Hlakka til að prófa þessa súpu.
25. ágú. 2012
Velkomin í hópinn Arnbjörg og njóttu vel :)
02. sep. 2012
Sæl Sigrún. Langar að spyrja þar sem ég má ekki borða neinn lauk nema graslauk og blaðlauk hvað væri best fyrir mig að nota í staðin í rétti þar sem laukur á að vera sem er í flesta rétti.?
02. sep. 2012
Þú ættir, svona yfirleitt, að geta notað blaðlauk í staðinn fyrir lauk í flestar uppskriftir....En fer auðvitað eftir uppskriftinni....
16. okt. 2012
Yndisleg súpa. Mjög bragðgóð, mér líður alltaf vel eftir að hafa borðað þessa súpu :)
16. okt. 2012
Æði, takk kærlega fyrir að deila með okkur :)
05. nóv. 2012
Þessi súpa er hreint út sagt ÆÐISLEG! Eldaði hana síðasta mánudag og hún verður aftur elduð í kvöld og ábyggilega hvern einasta mánudag næstu vikurnar! :)
05. nóv. 2012
Gaman að heyra Ebba og njótið vel :)
19. feb. 2013
Sæl Sigrún
Veistu hvert næringagildið er í þessari súpu?
19. feb. 2013
Sæl, nei ég veit það því miður ekki. Hér er hitaeiningareiknivél sem þú getur vonandi notað: http://www.calorieking.com/
Kv.
Sigrún
21. ágú. 2016
Þetta er dásamleg súpa Sigrún mín, við brosum í hring hérna eftir matinn, settum reyndar örfáa kjúlingabita útí, en held að það hafi engu breytt með bragðið. Takk enn og aftur fyrir frábæran vef :)
21. ágú. 2016
Gaman að heyra Halldóra mín. Bið að heilsa fjölskyldunni :)