Gulrótar- og bananaskonsur

Þar sem ég er akkúrat nýkomin frá Skotlandi þá get ég ekki annað en sett inn uppskrift að skonsum. Skotar eru svoddan skonsuþjóð en þessar eru auðvitað miklu hollari en skoskar skonsur, enda eru Skotar með það mataræði sem talið er hvað allra, allra óhollast hér á Bretlandseyjum. Þessi uppskrift kemur reyndar frá Ástralíu (úr Australian Women’s Weekly seríunni) og ég er búin að breyta henni lítillega (taka út smjör, púðursykur og hvítt hveiti&;en bæta&;við döðlum, hlynsírópi, spelti og kókosolíu). Skonsur eru lang bestar nýbakaðar en það má vel frysta þær og hita svo upp í ofninum síðar. Þær verða eins og nýbakaðar. Fyrir þá sem hafa mjólkuróþol má auðveldlega nota sojajógúrt og sítrónusafa í stað súrmjólkur. Fyrir þá sem hafa hnetuofnæmi má að sjálfsögðu sleppa hnetunum.

Þessi uppskrift er:

  • Án eggja

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án hneta
  • Án mjólkur
  • Vegan (fyrir jurtaætur)

Gulrótar- og bananaskonsur

Gerir um 10 skonsur

Innihald

  • 120 g gulrætur, skrældar og rifnar á rifjárni
  • 25 g pecanhnetur, saxaðar smátt
  • 10 döðlur, saxaðar smátt
  • 40 g rúsínur, saxaðar smátt
  • 380 g spelti
  • 2 msk vínsteinslyftiduft
  • 0,5 tsk cardimommur (eða kanill)
  • 1 msk kókosolía
  • 125 ml stappaðir bananar
  • 3 msk hreint hlynsíróp (eða agavesíróp)
  • 190 ml súrmjólk eða AB mjólk

Aðferð

  1. Skrælið gulræturnar og rífið á rifjárni.
  2. Saxið pecanhnetur, döðlur og rúsínur fremar smátt og .
  3. Sigtið saman í stóra skál: Spelti, cardimommum og lyftidufti. Hrærið aðeins. Blandið rifnu gulrótunum, hnetum, döðlum og rúsínum saman við og hrærið vel.
  4. Afhýðið bananana og stappið þá vel. Setjið í miðlungsstóra skál og bætið hlynsírópi, súrmjólk og kókosolíu saman við. Hellið varlega út í stóru skálina.
  5. Blandið öllu vel saman og hnoðið í smá stund þangað til deigið er orðið þétt og mjúkt. Notið spelti ef þarf, til að deigið klessist ekki við borðið.
  6. Stráið spelti á borð og hnoðið þangað til að deigið er orðið útflatt og um 2 sm á hæð (þ.e. á þykkt).
  7. Notið glas um 3-4 sm í þvermál og með skörpum brúnum, til að skera út skonsur í deigið.
  8. Þegar þið eruð búin að búa til eins margar skonsur og þið getið í fyrsta kasti, þá skuluð þið hnoða deigið saman aftur og endurtaka leikinn þangað til allt deigið er búið. Gætið þess að deigið sé alltaf eins á þykkt.
  9. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og raðið skonsunum á plötuna.
  10. Dreifið svolitlu spelti yfir skonsurnar (má sleppa).
  11. Bakið við 200°C í um 15-20 mínútur á um 200°C.

Gott að hafa í huga

  • Skonsurnar eru góðar með osti en sumir borða þær með sultu, aðrir með smjöri en mér finnst þær bestar eintómar með góðu tei!
  • Elva Brá vinkona mín notaði kanil í stað kardimommu og skonsurnar kom vel út að hennar sögn!
  • Ef þið hafið mjólkuróþol getið þið hrært saman sojajógúrti og sítrónusafa (1 mtsk) í staðinn fyrir súrmjólk.
  • Nota má valhnetur í staðinn fyrir pecanhnetur.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.

Ummæli um uppskriftina

gestur
15. ágú. 2012


Þetta eru uppáhalds skonsurnar mínar :) á þær alltaf í frystinum. Ég prufaði að minnka speltið og bæta möndlumjöli í uppskriftina og það kom mjög vel út.

sigrun
15. ágú. 2012

Gaman að heyra! Líst vel á möndlumjölsviðbótina :)

siggah57@gmail.com
22. sep. 2017

Bjó til þessar skonsur í gær og þær eru æði! Held að það sé mikið atriði að sigta speltið og lyftiduftið.

sigrun
22. sep. 2017

Frábært að heyra og jú það er alveg rétt, mikilvægt að sigta :) Takk fyrir kommentið :)