Guacamole

Guacamole er í rauninni bara avocadomauk. Það hentar ótrúlega vel með alls konar krydduðum mat eða með burrito. Það hentar líka sem ídýfa með t.d. sýrðum rjóma og salsasósu. Það eru til margs konar útgáfur af guacamole, til dæmis vilja sumir ekki setja hvítlauk út í en mér finnst það rosa gott. Það er því um að gera að gera tilraunir og finna út bestu samsetninguna. Þessi útgáfa er hefðbundin og samsett úr nokkrum guacamole uppskriftum sem ég fann hér og þar. Guacamole er ekki fitusnautt en hins vegar er fitan holl úr avocadoinu og það er hellings C vítamín í chilipipar! Heimatilbúið guacamole er milljón sinnum betra en keypt og án rotvarnarefna, majoness og aukaefna sem allt of oft er sett út í. Gætið þess að nota vel þroskað avacado, lítið þroskað avacado ætti aldrei að nota í guacamole!


Allt er vænt sem vel er grænt - Hollt guacamole

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan
  • Hráfæði

Guacamole

Fyrir 3-4 sem meðlæti

Innihald

  • 1 lítill hvítlauksgeiri, saxaður eða maukaður
  • 1 rauður chilipipar, fræhreinsaður og saxaður fínt
  • 1 vorlaukur (þessir löngu og mjóu laukar), allt nema blöðin notuð, sneiddur í þunnar sneiðar.
  • 0,25 tsk cumin (ekki kúmen). Má sleppa
  • Safi úr 1 límónu
  • 1 meðalstórt, vel þroskað avocado, afhýtt og steinn fjarlægður
  • 0,25 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)

Aðferð

  1. Afhýðið hvítlauk og maukið eða saxið smátt.
  2. Skerið piparinn eftir endilöngu og fræhreinsið hann (gott að vera í hönskum). Saxið mjög smátt.
  3. Sneiðið vorlaukinn í þunnar sneiðar.
  4. Blandið saman hvítlauk, chilli, vorlauk, cumin og salti ásamt límónusafanum í stóra skál.
  5. Afhýðið avocadoið, fjarlægið steininn og maukið með gaffli. Sumum finnst gott að hafa smávegis af grófum bitum.
  6. Setjið plast yfir skálina og setjið hana inn í ísskáp ef á að geyma guacamoleið eitthvað.

Gott að hafa í huga

  • Guacamole passar vel með salsa.
  • Guacamole ætti ekki að geyma lengi í ísskáp þar sem það verður fljótt brúnt og ávallt skal geyma það undir plastfilmu eða í lokuðu íláti.
  • Fyrir mildari útgáfu má nota fjórðung úr rauðri papriku í stað chili pipars.
  • Fyrir sterkari útgáfu má nota slettu af tabasco sósu (eða sterkri piparsósu).