Grjónaklattar

Þessir klattar eru komnir frá konu að nafni Sigga Rúna en var send mér af Lísu sem á uppskriftina að Frönsku súkkulaðikökunni hér á vefnum. Ég fékk að birta uppskriftina enda alveg stórgóð og auðveld og mjög ódýr...sannkallaðir Kreppuklattar!!

Þetta er einstaklega góð aðferð við að drýgja grautarafganga t.d. af hafragraut eða grjónagraut. Klattarnir eru frábærir í nestisboxið og þá má frysta. Ef nota á uppskriftina sem brauð setur maður aðeins 1 tsk af agavesírópi og sleppir vanilludropum en annars fylgir maður uppskriftinni hér fyrir neðan. Þessi uppskrift virðist laða að sér bæði tví- og ferfætlinga því einu sinni þegar Lísa var að baka klattana kom þar aðvífandi hundahópur (tík með hvolpa) og hreinlega lagðist á gluggana. Uppskriftin laðar einnig gjarnan að sér tvífætlinga í formi svangra gesta sem og eiginmanna hef ég tekið eftir. Við Lísa breyttum aðeins uppskriftinni (tókum út smjör, notum 1 eggjahvítu en ekki rauðuna) og ég nota sojamjólk í stað undanrennu. Hugmyndina á þó Sigga Rúna og ég þakka henni fyrir að fá að birta uppskriftina og Lísu fyrir að senda mér uppskriftina. Tillögurnar hér að neðan eru okkar Lísu en ég efast ekki um að Sigga Rúna hafi hugsað um svipaðar samsetningar.


Saðsamir, ódýrir og auðveldir grjónaklattar

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án hneta

Grjónaklattar

Gerir 6-8 klatta

Innihald

  • 150 g soðin hýðishrísgrjón eða bygg (nota má afgang af grjónagraut eða hafragraut)
  • 50 ml sojamjólk eða önnur mjólk, minnkið magnið ef þið notið tilbúinn hafragraut eða grjónagraut
  • 150 g spelti
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 2 msk kókosolía
  • 2 msk agavesíróp
  • 1 eggjahvíta
  • 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð
  • 100-150 ml sojamjólk (gætuð þurft meira eða minna)

Aðferð

  1. Setjið soðnu hrísgrjónin og 50 ml af sojamjólk í matvinnsluvél og blandið vel. Setjið til hliðar.
  2. Setjið spelti og salt í skál.
  3. Blandið saman eggjahvítu, vanilludropum, agavesírópi og kókosolíu í litla skál. Hrærið vel og hellið út í grautinn.
  4. Hellið grautnum út í speltið og hrærið saman.
  5. Blandið afganginum af mjólkinni saman við, smátt og smátt þannig að deigið líkist að lokum þyku vöffludeigi.
  6. Deigið ætti að vera það fljótandi að það leki hratt af sleif.
  7. Hitið pönnu á meðalhita.
  8. Hellið tæplega hálfri ausu (4-5 matskeiðum) af deigi á pönnuna. Hitið í nokkrar mínútur.
  9. Snúið við með flötum, breiðum spaða og hitið í nokkrar mínútur til viðbótar.
  10. Einnig má hita klattana á samlokugrilli með flötu (ekki riffluðu) járni.

Gott að hafa í huga

  • Til að nota klattana sem brauð má sleppa agavesírópinu (eða nota 1 tsk eingöngu). Klattarnir henta vel með osti, sultu, hnetusmjöri o.fl.
  • Til að gera klattana meira kryddaða má sleppa agavesírópinu og setja ferskar eða þurrkaðar kryddjurtir út í deigið.
  • Einnig er gott að setja t.d. 100 g af t.d. smátt söxuðum rauðlauk, papriku, sveppum o.fl.
  • Gott er að setja 1 tsk af kanil í deigið ef nota á klattana undir sætt meðlæti.
  • Til að gera klattana alveg svakalega djúsí er gott að setja 50 grömm af söxuðum döðlum út í deigið. Einnig má nota rúsínur.
  • Gott er að setja 50 g af söxuðum möndlum eða heslihnetum í deigið (og ekki verra að hafa saxaðar döðlur líka).
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Í staðinn fyrir sojamjólk getið þið einnig notað haframjólk, hrísmjólk, möndlumjólk eða undanrennu.

Ummæli um uppskriftina

Snædís
25. jún. 2012

Takk fyrir þessa frábæru síðu en vildi benda á að spelt er ekki glutenfrítt
http://www.google.is/search?q=spelt+gluten&ie=utf-8&oe=utf-8&aq=t&rls=or...

sigrun
25. jún. 2012

Nei nei ég veit að spelt er ekki glúteinfrítt (er alveg 100% meðvituð um það) og þú sérð það hægra megin í listanum yfir óþol/ofnæmi :)&; Hins vegar virðist vera villa í kerfinu þannig að hún birtir uppskriftina ef þú stillir 'glúteinlaust' og leitar eftir ákveðinni uppskrift sem er ekki glúteinlaus, það er leitarniðurstaðan en ekki stilling sem ræður. Ég ætla að breyta því þannig að þó þú leitir eftir 'Grjónaklöttum' og 'glúteinlaust' að síðan gefi ekki neina niðurstöðu.