Grjónagrautur

Heitið á uppskriftinni ætti eiginlega að vera „Grjónagrauturinn hans Jóhannesar..en mín uppskrift er samt betri”. Málið er að Jóhannes kunni að elda grjónagraut þegar við byrjuðum að búa (en ég ekki, því ég kunni ekki einu sinni að sjóða pasta) og grjónagrautur var eitt af því sem ég bað hann stundum um að elda.

Við skiptumst algjörlega í tvennt með blessaða grjónagrautinn. Grjónagrautur er eins og trúarbrögð. Ég vil ALLS ekki hafa rúsínur í hafragraut, finnst það ekkert gott en Jóhannes var alinn upp við það og stendur gallharður á sínu. Ég vil hafa mjólkina vel fljótandi yfir og ég vil að mjólkin sé sjóðandi heit. Hann vill hafa grautinn hnausþykkan og svo setur hann kalda mjólk út á. Það er gjörsamlega allt rangt við hans útgáfu af grjónagraut. Þetta er eiginlega það eina sem við rífumst um..nokkurn tímann. Við rífumst aldrei en við getum röflað um grjónagraut út í eitt. Jóhannes er með uppskriftina sína alltaf á hreinu því hann eldaði svo oft grjónagraut heima hjá sér og ég verð að viðurkenna að það er fátt betra en heitur grjónagrautur á köldum vetrardegi (mín útgáfa auðvitað), það er BARA best. Það endar alltaf á því að við þurfum að sjóða grautinn í 2 pottum en þetta hefst allt að lokum og við brosum bæði út að eyrum með skál af rjúkandi grjónagraut í tveimur útgáfum. Ég nota hýðishrísgrjón (löng eða stutt) í grjónagraut (annars eru yfirleitt notuð hvít í grjónagraut).

Auðvelt er að gera grjónagrautinn þannig að hann henti fólki með mjólkuróþol sem og jurtaætum (enska: vegan) því það má nota hrísmjólk, möndlumjólk, haframjólk eða sojamjólk í staðinn fyrir nýmjólkina.

Þessi aðferð við grjónasuðuna er sú allra, allra besta OG sparar rafmagn og tíma því ekki þarf að standa yfir pottinum!


Ekkert ráð er betra við kulda en heitur grjónagrautur!

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur
  • Vegan (fyrir jurtaætur)

Grjónagrautur

Fyrir 2

Innihald

  • 200 g (1 bolli) hýðishrísgrjón (löng eða stutt)
  • 250 ml (1 bolli) vatn
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 1-1,5 lítri nýmjólk (hægt er að nota léttmjólk en nýmjólk er yfirleitt notuð)
  • 2 lúkur rúsínur (ég nota þær aldrei eins og áður hefur komið fram. Amen)
  • 1 tsk Rapadura sykur (eða annar hrásykur)
  • 1 tsk kanill

Aðferð

  1. Setjið grjón, vatn og salt í pott (eða undirbúið samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum). Hafið lokið á pottinum.
  2. Látið grjónin sjóða þangað til allt vatn er gufað upp (í um 30-40 mínútur).
  3. Hellið a.m..k. helmingnum af mjólkinni út í (svo fljóti vel yfir). Hrærið í grjónumum. Látið malla með lokinu á í um 20 mínútur. Slökkvið undir pottinum og setjið handklæði yfir hann svo rakinn komist ekki út. Látið pottinn standa á heitri hellunni í 1-2 klukkustundir. Hrærið aftur. Hér eru rúsínurnar settar út í (fyrir þá sem eru kreisí og nota rúsínur í grjónagraut).
  4. Eftir 1-2 klukkustundir skuluð þið hella meiri mjólk út á grautinn svo fljóti vel yfir og endurtaka skref 3.
  5. Mér finnst best að hafa vel fljótandi af heitri mjólk yfir grautinn en iþað er smekksatriði (eða eiginlega það eina rétta). Ég helli sem sagt um 100 ml af mjólk yfir grautinn rétt áður en hann er borinn fram og læt nánast sjóða en Jóhannes vill hann hnausþykkann og hann setur kalda mjólk út á (ég veit....kreisí).
  6. Blandið hrásykrinum og kanilnum saman og setjið út á ef þið viljið.

Gott að hafa í huga

  • Nota má sojamjólk, hrísmjólk, möndlumjólk eða haframjólk í staðinn fyrir nýmjólk eða léttmjólk.
  • Nota má bygg í staðinn fyrir hýðishrísgrjón en þau ná ekki að verða eins mauksoðin og grjónin. Athugið að bygg er ekki glúteinlaust.
  • Nota má annan hrásykur í staðinn fyrir Rapadura hrásykurinn.
  • Rapadura hrásykur fæst í heilsubúðum.

Ummæli um uppskriftina

Eyrún
04. sep. 2013

Ég verð að viðurkenna að ég er alveg hjartanlega sammála honum Jóhannesi þínum nú eða jafn kreisi, eftir því hvernig á það er litið ;)

sigrun
04. sep. 2013

Kreisí fólk!!!

Jóhanna Lind
02. mar. 2014

Þetta eru tveir réttir fyrir mér, annars vegar rúsínugrautur eða grjónagrautur sem Jóhannes er hrifnari af og gjarnan borinn fram með miklum kanelsykri og rjómablandi og hins vegar grjónavellingur sem var gjarnan borinn fram með köldu slátri :)

Jóhanna Lind
02. mar. 2014

Þetta eru tveir réttir fyrir mér, annars vegar rúsínugrautur eða grjónagrautur sem Jóhannes er hrifnari af og gjarnan borinn fram með miklum kanelsykri og rjómablandi og hins vegar grjónavellingur sem var gjarnan borinn fram með köldu slátri :)

sigrun
03. mar. 2014

Grjónavellingurinn eins og þú kallar hann var kallaður grjónagrautur á mínu heimili en hjá Jóhannesi var rúsínugrauturinn kallaður grjónagrautur. Grjónavellingur var svo annað fyrirbæri :)