Grillsósa Abdalla Hamisi
Þegar við fórum í eina af ferðunum okkar til Afríku (Kenya) vorið 2006 þá gistum við á stað, sunnarlega á Diani ströndinni í Mombasa. Þetta var himneskur staður, örfá hús, mjög mikið lokuð af og ströndin sem liggur að húsunum er einkaströnd, sem sagt afar fáir túristar. Maður læsir ekki einu sinni á nóttinni! Maður ræður því hvað er í matinn og kokkurinn á staðnum, hann Abdalla Hamisi Pore (sem lítur pínu út eins og Chef í South Park er snillingur. Allan daginn stóð hann sveittur við að undirbúa mat fyrir fólkið með bros á vör, auðvitað allan frá grunni. Hann gaf mér uppskrift að grillsósunni sem hann bar fram fyrir okkur með risastóra Kingfish fiskinum sem við höfðum veitt fyrr um daginn í Indlandshafi. Það var svo heitt þann daginn að ég var hálf hissa á því að fiskurinn hefði ekki hreinlega soðið í sjónum. Það var smá mál að fá uppskriftina, Abdalla þurfti að hugsa sig lengi um og það tók hann óratíma að skrifa uppskriftina og útskýra hana. Það var samt alveg þess virði.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Grillsósa Abdalla Hamisi
Innihald
- 1 laukur, smátt saxaður
- 1 rauð paprika, smátt söxuð
- 3 tómatar, vel þroskaðir, smátt saxaðir
- 1 grænn chili pipar, smátt saxaður
- 3-4 hvítlauksrif, söxuð smátt
- 2-3 sm bútur ferskt engifer, afhýtt og saxað smátt. (Í uppskriftinni sem hann skrifaði stóð jinjer (ekki ginger) sem mér finnst hrikalega sætt).
- 3 msk hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) (í upprunalegu uppskriftinni var púðursykur)
- 1 tsk duft af sætri, reyktri papriku (enska: smoked paprika (sweet))
- 2 msk tómatmauk (enska: tomat puree)
- 2 msk mangomauk (enska: mango chutney), heimatilbúið eða úr heilsubúð
- 3 msk edik
- 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- 1 tsk karrí
- 1 gerlaus grænmetisteningur
- 250-500 ml vatn
Aðferð
- Afhýðið lauk og hvítlauk og saxið smátt.
- Skerið papriku og chili pipar langsum, fræhreinsið og saxið smátt.
- Saxið tómatana smátt.
- Saxið lauk, papriku, tómata, hvítlauksrif, chili og engifer og setjið í djúpa pönnu eða pott.
- Látið malla í um 20 mínútur.
- Bætið sætri papriku, tómatmauki, mangomauki, ediki, karríi, grænmetisteningi, vatni og hlynsírópi út á pönnuna. Látið malla í um 10 mínútur eða þangað til allt er farið að ilma.
- Kælið áður en þið berið sósuna fram.
Gott að hafa í huga
- Fyrir utan að vera frábær grillsósa (t.d. hægt að marinera grænmeti áður en maður grillar það ásamt því að bera sósuna fram með grilluðum mat) þá er voða gott að baka fisk með þessari sósu t.d. með því að pakka honum inn í álpappír, með sósunni.
- Frysta má sósuna í sótthreinsuðum krukkum (setjið á viðeigandi stillingu í uppþvottavélinni eða sjóðið lok og krukkur í 10 mínútur).
- Reykt paprika fæst í búðum sem selja mat frá Miðjarðarhafinu eða búðum sem selja sælkeravörur.
- Mangomauk (mango chutney) er yfirleitt hlaðið sykri og aukaefnum en þið getið fengið hollari mango chutney í heilsubúðum eða útbúið ykkar eigið.