Grillað mangó

Þessi réttur er með einföldustu eftirréttum sem til eru en engu að síður er hann góður og hollur. Mangó er mikið notað í Afríku og ekki síst í Kenya þar sem maður getur plokkað það beint af trjánum (eins og víðar auðvitað). Ég borða alltaf mikið af mangoi þegar ég er stökk í álfunni enda fær maður afar gott mango þar. Ég hef einnig fengið grillaðan mango og þaðan fékk ég hugmyndina að því að prófa sjálf heima. Bragðgóður, einfaldur og hollur eftirréttur, alveg eins og ég vil hafa hann! Kanilbörkinn á myndinni keypti ég í kryddskóginum á Zanzibar.

Aðferðarlýsingin virkar mjög flókin en ég er frekar ítarleg þar sem sumir hafa aldrei prófað að „skera broddgölt” úr mangoi áður! Þetta verður næsta partítrikkið ykkar!


Grillað mango, gult eins og sólin

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Grillað mangó

Fyrir 2

Innihald

  • 1 vel þroskað, stórt mango
  • 1 tsk agavesíróp eða hreint hlynsíróp
  • 0,5 tsk kanill

Aðferð

  1. Að skera mango: Mangosteinn er flatur og mjór og því þarf að skera meðfram honum til að eftirrétturinn verði sem fallegastir. Skoðið mangoið aðeins og finnið út hvor hliðin er flatari. Þegar þið hafið áttað ykkur á því skuluð þið stilla mangoinu upp á rönd (svo steinninn sé þvert á borðið, ekki flatur). Takið beittan og langan hníf og skera aðra „kinnina” af. Farið eins nálægt steininum og hægt er. Ágætt er að hafa í huga að steinninn er svona 1-2 sm á breidd þar sem hann er breiðastur.
  2. Endurtakið hinu megin og skerið hina „kinnina af”.
  3. Nú ættuð þið að vera með 2 „kinnar” og miðjuna úr mangoinu sem inniheldur steininn. Þið getið skorið utan af steininum og borðað kjötið því það er ekki notað í eftirréttinn.
  4. Það er pínulítið vandaverk svona í fyrsta skipti að skera mangoið rétt en æfingin skapar meistarann.
  5. Haldið á annarri „kinninni” þannig að kúpta hliðin snúi í lófann og mangokjötið upp.
  6. Takið lítinn (og frekar beittan) hníf og skerið teningsmynstur í kjötið. Skerið þannig að þið snertið hýðið en farið ekki í gegnum það. Ímyndið ykkur að þið séuð að skera taflborð út í mangóið. Hver kubbur ætti að vera svona 1 sm x 1 sm. Ekki hafa áhyggjur af því þó þetta verði ekki fullkomið í fyrsta skipti.
  7. Það sem þið eigið núna að gera, er að gera mangóið „úthverft” þ.e. snúa því út þannig að mangoið verði í flottum boga.Grípið börkinn og þrýstið fingrunum á hýðið þannig að kjötið standi út. Mangoið mun nú líta út eins og appelsínugulur broddgöltur með grófa brodda (svona hér um bil).
  8. Endurtakið með hina hliðina og munið að skera ekki í gegnum hýðið!
  9. Penslið agavesírópinu jafnt yfir mangóið.
  10. Dreifið kanil jafnt yfir.
  11. Bakið við 200°C í 15-20 mínútur (í efstu rim) eða þangað til mangóið er orðið nokkuð dökkt efst.
  12. Berið fram á diskum og berið fram með beittum hnífum (til að hægt sé að skera mangokjötið af).

Gott að hafa í huga

  • Grillað mangó er frábært með vanilluís eða svolítilli slettu af cashewhneturjóma. Einnig má nota venjulegan, þeyttan rjóma fyrir þá sem það vilja!