Grillað laxaroð

Sumir kannski vita að hægt er að borða laxaroð en aðrir hugsa eflaust með sér að ég sé orðin galin. Ég ætla bara að segja ykkur að eftir að þið smakkið get ég næstum því lofað ykkur að þið eigið eftir að hugsa grátandi til baka í ÖLL þau skipti sem þið hafið fleygt laxaroði og að þið munið aldrei, aldrei aftur fleygja því. Grillað laxaroð er bæði svakalega hollt og gott og frábært sem meðlæti t.d. ofan á salöt, sem snakk og auðvitað inn í sushirúllur (en þar nota ég það mest). Ég hef oft, oft, oft beðið um að fá laxaroð með í poka þegar ég kaupi lax og yfirleitt horfir afgreiðslufólk á mig eins og ég sé snar-galin (sem ég er jú pínulítið). Hins vegar hafa þau í Fylgifiskum verið mjög skilningsrík og eru farin að lauma auka laxaroði ofan í pokann þegar ég versla við þau, við mikla gleði mína. Ég á sushibók (ein af nokkrum) og í henni er uppskrift að steiktu laxaroði en það er óðs manns æði að steikja roðið enda er næg fita í því og það verður stökkt og ljúffent eins og snakk með því að grilla það. Ég lærði þessa aðferð af Elínu mágkonu minni sem lærði aðferðina af kanadískum sushisnillingi.

Prófið að bera grillað laxaroð fram sem snakk í næsta matarboði og verið undir það búin að hakan á gestum detti niður þegar þeir smakka þessa dásemd. Ég hef prófað silungaroð líka en finnst laxinn margfalt betri. Aðferðin virkar flókin því lýsingin er löng en það er bara vegna þess að ég hef hana ítarlegra en kannski þarf. Mér finnst algjörlega frábært að geta nýtt afurðina svona vel og þurfa ekki að fleygja neinu. Þetta væri góð viðskiptahugmynd fyrir einhvern áhugasaman! Þetta er uppskrift sem ég ætlaði að taka með mér í gröfina (eða birta eftir mína daga) en af því að ég ætla að verða svo langlíf (því ég borða svo hollt) þá fannst mér ómögulegt að bíða í næstum heila öld með að birta uppskriftina. Hún er sem sagt birt undir miklum þrýstingi þeirra sem hafa fengið að smakka grillað laxaroð hjá mér í gegnum tíðina.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta en með fræjum
  • Án hneta

Grillað laxaroð

Fyrir 3-4 sem snakk

Innihald

  • Roð af um 800 g laxi (getið yfirleitt látið roðfletta fyrir ykkur í búðinni)
  • 2 msk tamarisósa (eða sojasósa en athugið að hún er ekki án glúteins)
  • 2 msk fiskisósa (Nam Plah)
  • 1 msk sesamolía
  • 1 msk sesamfræ (má sleppa)

Aðferð

  1. Ef þið látið ekki roðfletta fyrir ykkur skuluð þið roðfletta laxinn (haldið í sporðinn með hreistrið niðri og setjið beittan hníf undir kjötið, skerið að roðinu og togið í roðið í leiðinni og þannig losið þið kjötið frá). Leggið roðið (hreistrið niður) á stórt bretti.
  2. Skafið allt kjöt innan úr með matskeið. Skiljið aðeins eftir af því sem er næst roðinu (ljósfjólublátt að lit) en fjarlægið allt bleika kjötið sem varð eftir við roðflettinguna).
  3. Þið þurfið líklega tvö eldföst mót ef laxinn er heill því roðið má ekki krumpast. Notið eldföst mót sem eru ekki spari því þau verða svolítið ljót.
  4. Hellið nokkrum dropum af sesamolíu í botninn á eldföstu mótunum og dreifið úr með fingrunum (gott að nota plasthanska).
  5. Skerið roðin í tvennt og leggið bútana (hreistrið niður) í eldföstu mótin þannig að þau séu ekkert krumpuð.
  6. Hellið tæpri hálfri matskeið af sesamolíu yfir báða bútana ásamt fiskisósu og tamarisósu. Dreifið úr þessu öllu með fingrunum og nuddið létt inn í roðið.
  7. Dreifið sesamfræjunum yfir ef þau eru notuð.
  8. Hitið ofninn í 180°C og setjið eldföstu mótin ofarlega inn í ofninn (leggið álpappír laust ofan á þau). 
  9. Grillið roðið í um 50-60 mínútur en kíkið á roðið eftir fyrstu 40 mínúturnar og fylgist með því á 5 mínútna fresti eftir það. Stundum þarf meiri tíma og stundum minni.
  10. Roðið á ekki að vera mjög blautt að ofan og á að virka eins og það sé orðið brúnt og stíft án þess að það sé brunnið. Mikilvægt er að brenna ekki roðið.
  11. Þegar roðið er tilbúið á að vera hægt að taka það upp úr eldfasta mótinu og halda því lóðréttu án þess að það sígi niður. Ástæðan fyrir því að það á að vera svona stíft er að þið komið til með að brjóta roðið í bita. Áferðin á að vera eins og t.d. á þunnu kexi eða kartöfluflögum.
  12. Slökkvið á ofninum og látið roðið kólna alveg.
  13. Brjótið roðið í bita og berið fram í litlum skálum (maður borðar ekki mikið í einu) eða dreifið yfir salat, út á núðlurétti o.s.frv.
  14. Grillað roð geymist í ísskáp í nokkra daga í lokuðu íláti.
  15. Ef roðið er enn mjúkt eftir að hafa kólnað skuluð þið grilla það í nokkrar mínútur í viðbót. 

Gott að hafa í huga

  • Nota má sojasósu í stað tamarisósu. Athugið að sojasósa inniheldur hveiti.
  • Reynið að finna lífrænt framleidda fiskisósu, þær fást stundum í heilsubúðum. 
  • Frysta má roðið ógrillað ( þ.e. beint af laxinum) og grilla það svo síðar.
  • Ef þið mögulega getið, notið þá villtan lax. Eldislax er hvorki góður fyrir okkur né umhverfið.