Graskerssúpa með grilluðu maískorni

Þessi uppskrift kemur nánast beint upp úr Delia Smith grænmetisbókinni minni (Delia's Vegetarian Collection) sem er frábær. Súpan sjálf er prýðisgóð, ódýr en seðjandi og er fullkomið að búa til brauðbollur með til að dýfa í súpuna á köldum degi. Grasker er mjög hollt að sjálfsögðu, fullt af Beta-Carotine sem er andoxunarefni sem á að hjálpa okkur að sporna t.d. gegn krabbameini. Svo getur maður ristað graskersfræin og notað þau í brauð eða ofan á salat, ekki amalegt það, enda eru þau svo holl að maður ætti að borða þau á hverjum einasta degi. Þau innihalda m.a. prótein, kalíum, zinc, járn og hollar fitusýrur. Ef þið fáið stórt grasker getið þið soðið það, maukað og fryst t.d. til að nota afganginn í kryddað graskerskökubrauð. Einnig má í stærri matvöruverslunum stundum kaupa tilbúið, maukað og niðursoðið grasker. Súpan er glúteinlaus og hnetulaus, mjólkurlaus og vegan.

Best er að nota ferska maískólfa en annars er frosið maískorn næstbesti kosturinn.

Athugið að best er að nota matvinnsluvél, blandara eða töfrasprota til að mauka súpuna.


Fjölskylduvæn og frábær súpa

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Graskerssúpa með grilluðu maískorni

Fyrir 3-4 sem aðalréttur

Innihald

  • 700 g butternut grasker
  • 570 g maískorn, frosið, ferskt eða úr dós (ekki sykurbætt)
  • 1 tsk kókosolía
  • 1 laukur, saxaður gróft
  • 275 ml kókosmjólk (eða önnur mjólk)
  • 100-200 ml vatn
  • 1-2 gerlausir grænmetisteningar 
  • Salt (Himalaya eða sjávarsalt) eftir smekk
  • Svartur pipar eftir smekk
  • 1 msk tamarisósa (fyrir maískornin)

Aðferð

  1. Afhýðið lauk og saxið gróft.
  2. Skerið háls graskersins frá botninum með stórum og beitum hnífi. Afhýðið graskerið, fræhreinsið og saxið í um 2,5 sm bita.
  3. Ef þið notið ferska maískólfa þarf að sjóða þá samkvæmt leiðbeiningum. Eftir suðu er best að kæla þá aðeins og skera svo maískornið frá kólfinum með beittum hnífi. 
  4. Hitið kókosolíu í potti og steikið laukinn í um 8 mínútur eða þangað til hann er orðinn mjúkur. Bætið við vatni ef þarf meiri vökva. Bætið saxaða graskerinu út í ásamt helmingnum af maískorninu. Hrærið vel og saltið og piprið. Lækkið hitann og leyfið grænmetinu að svitna aðeins eða í um 10 mínútur.
  5. Bætið kókosmjólkinni út í ásamt grænmetiskraftinum og látið malla í pottinum með lokið ofan á. Fylgist vel með pottinum því það getur auðveldlega soðið upp úr honum. Á meðan þetta er að malla skuluð þið stilla ofninn á 220°C.
  6. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og dreifið afganginum af maískorninu vel á bökunarpappírinn. Dreifið mjög vel og penslið með tamarisósu. Setjið bökunarplötuna í um 3 cm fjarlægð frá mesta hitanum (yfirleitt efst uppi í ofninum). Bakið í um 8 -10 mínútur. Hrærið aðeins í maískorninu eftir um 4 mínútur. Stillið ofnklukku svo þið gleymið ykkur ekki (ég tala af reynslu!). Þegar maískornið er orðið gullbrúnt má taka það úr ofninum. 
  7. Þegar súpan er tilbúin skuluð þið nota töfrasprota eða matvinnsluvél (eða blandara) til að mauka hana. Ég mauka súpuna mjög vel, sérstaklega ef maískornið er gróft/stórt. 
  8. Berið fram í skálum og dreifið grillaða maískorninu út í. Ekki gleyma þeim, því þau eru æði. Yfirleitt er ég búin að borða a.m.k. helminginn af þeim áður en þau komast í súpuna, hmmm...

Gott að hafa í huga

  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósan inniheldur hveiti.
  • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum. Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
  • Nota má hrísmjólk, möndlumjólk, sojamjólk eða haframjólk í staðinn fyrir kókosmjólk. Ef þið eruð ekki vegan eða með mjólkuróþol má nota léttmjólk.