Graskers- og kókossúpa frá Zanzibar
Þessi súpa kemur úr bók sem heitir Zanzibar Kitchen. Það er fátt sem lýsir matnum á Zansibar jafnvel og þessi súpa. Kókosmjólkin er gríðarlega mikið notuð sem og öll kryddin sem fara í súpuna, þau eru mjög einkennandi fyrir Zanzibar. Það er ólýsanlegt að ganga um í kryddskógunum á Zanzibar í þessum mikla hita sem þar er og finna ilminn af öllu kryddinu í kringum mann. Það er allt annar heimur og eitthvað sem ég mæli með fyrir allt mataráhugafólk. Maður hefur ekki upplifað kryddin sem maður notar í matargerð fyrr en maður hefur farið í kryddleiðangur skóginum! Í uppskriftina áttu að fara 125ml af rjóma en mér finnst það óþarfi því kókosmjólkin er svo seðjandi. Súpan er fín fyrir alla fjölskylduna því þrátt fyrir að í henni sé tabasco, þá er hún ótrúlega mild. Súpan er upplögð í október/nóvember þegar graskerin eru komin á kreik. Gott er að kaupa grasker og sjóða það til að geyma til seinni tíma. Einnig má frysta súpuna sjálfa. Athugið að súpan er glúteinlaus og auðvelt er að gera hana mjólkurlausa og þannig að hún henti jurtaætum (enska: vegan).
Athugið að best er að nota matvinnsluvél, blandara eða töfrasprota til að mauka súpuna.
Skálina á myndinni keypti ég á antíkmarkaði einum á Zanzibar
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án eggja
- Án hneta
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án mjólkur
- Vegan (fyrir jurtaætur)
Graskers- og kókossúpa frá Zanzibar
Innihald
- 200 g soðið grasker (um 400 g fyrir snyrtingu)
- 50 g laukur, saxaður gróft
- 2 tsk kókosolía. Bætið við vatni ef þarf meiri vökva
- 650 ml vatn
- 2 gerlausir grænmetisteningar
- 375 ml léttmjólk
- Smá klípa negull (enska: cloves)
- 1 tsk ferskt engifer, rifið
- 1 tsk sítrónusafi
- 0,5 tsk kanill
- Smá sletta af tabasco sósu (eða sterkri piparsósu)
- 250 ml kókosmjólk
- 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- Smá klípa saffran þræðir (má sleppa en gefur súpunni fallegan lit)
Aðferð
- Afhýðið graskerið, fræhreinsið það og skerið svo í búta. Sjóðið graskerið í um 15 mínútur. Þið þurfið um 200 g af tilbúnu, soðnu graskeri.
- Afhýðið laukinn og engiferið og saxið gróft.
- Hitið kókosolíuna í stórum potti og steikið laukinn og engiferið þangað til laukurinn verður mjúkur.
- Bætið graskerinu við ásamt mjólkinni, vatninu, grænmetisteningunum, negul, kanil tabasco sósunni, saltinu og sítrónusafanum. Látið malla í 15 mínútur.
- Bætið kókosmjólkinni við og hitið í eina mínútu án þess að sjóði.
- Kælið súpuna aðeins og setjið svo í smáskömmtum í matvinnsluvél. Einnig má nota töfrasprota. Blandið vel.
- Athugið að sumir vilja grófari áferð og skal þá blanda súpuna minna.
- Bætið saffrani út í og hitið súpuna að suðu (í nokkrar mínútur).
Gott að hafa í huga
- Berið súpuna fram sjóðandi heita með snittubrauði.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
- Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
- Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
- Nota má hrísmjólk, möndlumjólk, sojamjólk eða haframjólk í staðinn fyrir léttmjólk.
- Ef afgangur er af kókosmjólkinni má frysta hana í ísmolabox og nota síðar, t.d. í svona súpur.
Ummæli um uppskriftina
17. nóv. 2011
Þessi súpa er æðislega góð, ég vildi hafa hana aðeins matarmeiri og bætti við grilluðum kjúklingastrimlun, rétt áður en ég bar hana framm klippti ég niður ferskt kóríander og ristaði kókosflögur og seti í hverja skál......nammi namm algjört æði og kærar þakkir fyrir þennan yndisleg uppskriftarvef
17. nóv. 2011
Já brilliant að gera hana matarmeiri og frábært að setja kókosflögur út í.
11. jan. 2012
Vinkona mín bauð upp á þessa súpu í saumó fyrir nokkrum vikum og nú hef ég gert hana nokkrum sinnum. Frysti hana t.d. einu sinni og tók með mér í bústað. Það eru allir mjög ánægðir sem smakka þetta hjá mér. Ég nota butternut squash og meira af því heldur en er í uppskriftinni. Svo hef ég líka prófað að setja meira af kanil og negul til að fá meira bragð. Ég er samt enn frekar lengi að búa hana til (verka graskerið) og því er eflaust sniðugt að sjóða og frysta graskersbita til að eiga seinna eins og Sigrún bendir á í formálanum :)
11. jan. 2012
Sniðug að frysta og taka með í bústað og líst vel á að setja meira kanil og negul (mjög misjafnt hvað þessar kryddtegundir eru sterkar eftir því frá hvaða vörumerki maður kaupir svo um að gera að stilla af eftir smekk). Það er líka hægt, til að spara tíma, að kaupa tilbúið, niðursoðið grasker...svona ef maður er að flýta sér mikið. Það er frá Libby's og er 100% hreint (en ekki organic reyndar).
09. apr. 2012
Ætla að prófa þessa. Sé á ummælum að einhverjir eru að vandræðast með graskerið. Langar að benda ykkur á að auðvelt er að verka butternut grasker. Einfaldlega kljúfa það í tvennt langsum. Setja á fullan hita í örbylgju (sárin vísa upp) í ca. 20 mín eða þar til kjötið er orðið eftirgefanlegt/mjúkt, þá skafa kjötið upp úr, verður vart einfaldara.
12. des. 2012
Fannst hún helst til of væmin, vantaði eitthvað "edge" í hana. Það var kannski mér að kenna- setti svolítið meira af kókosmjólkinni en var í uppskriftinni.... Ég velti því samt fyrir mér hvort ekki mætti setja í hana beikon eða eitthvað álíka?
12. des. 2012
Nú veit ég ekki alveg hvort þú ert að gantast því þessi síða er ekki beint síðan sem mælir með beikoni (hef ekki borðað slíkt í yfir 15 ár). Ég hefði frekar lagt til minna af kókosmjólk (hún gerir súpuna sætari og væmnari að sjálfsögðu) en þú getur sett eitthvað salt eða sterkt út í til að skerpa á súpunni. Salt, pipar, chilli, halapeno, tabasco er allt eitthvað sem ég myndi mæla með smá klípu/slettu af.
12. des. 2012
Jú þess vegna sagði ég nú "eða eitthvað álíka"- ég er nefnilega að sjálf að reyna að færa mig yfir í grænmetisfæði en manni dettur bara fyrst í hug það sem maður þekkir. Er ekki oft talað um söl sem beikon grænmetisætunnar? -En líklega hef ég sett of mikið af kókosmjólkinn og kryddað of lítið;) Annars er þetta alveg frábær vefur hjá þér.
12. des. 2012
Já ég skil. Söl held ég að myndi ekki ganga en ég myndi líklega prófa minni kókosmjólk + chilli og jafnvel pínu meira salt og pipar?