Grænmetisbaka

Þetta er fínindis baka, hægt að nota alls kyns grænmeti í hana og er því ódýr og sniðug. Svo er líka þægilegt að búa til böku og hita afganginn upp bara næsta dag. Einnig má frysta bökuna í sneiðum og grípa með sér í vinnuna því hún er góð bæði köld og heit.

Athugið að gefa þarf deigbotninum um 30-40 mínútur í ísskáp áður en það er flatt út.

Þessi uppskrift er:

 • Án hneta

Grænmetisbaka

Gerir eina böku

Innihald

Botn

 • 40 g haframjöl
 • 100 g spelti
 • 2 msk kókosolía
 • 100 g hreint skyr
 • 2 msk kalt vatn

Fylling

 • 2 gulrætur, sneiddar í þunnar sneiðar
 • Hálfur kúrbítur (zucchini/courgette), skorinn í grófa bita
 • 7 sveppir, sneiddir
 • Hálft eggaldin (eggplant/aubergine), skorið í smáar sneiðar
 • Hálfur blaðlaukur, sneiddur í þunnar sneiðar
 • 1 tsk kókosolía
 • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • Smá klípa svartur pipar

Sósa

 • 2 egg
 • 2,5 msk léttmjólk
 • 100 g magur ostur, rifinn 50 g í sósuna og 50 g yfir bökuna

Aðferð

 1. Blandið saman í skál; haframjöli og hveiti, kókosolíu og skyri. Hrærið vel og hnoðið aðeins. Geymið deigið í ísskáp í að minnsta kosti 30-40 mínútur.
 2. Skrælið gulrót og sneiðið frekar þunnt.
 3. Sneiðið sveppi, blaðlauk (græna hlutann), eggaldin og kúrbít frekar þunnt.
 4. Hitið 1 tsk kókosolíu á pönnu og steikið grænmetið. Bætið vatni á pönnuna ef þarf meiri vökva. Kryddið með salti og pipar.
 5. Takið deigið úr ísskápnum og fletjið það út svo að það passi í frekar stórt eldfast mót. Passið að deigið sé frekar þykkt upp á kantana svo að það haldið örugglega fyllingunni vel.
 6. Raðið grænmetinu ofan í.
 7. Rífið ostinn.
 8. Þeytið lauslega saman eggjum og mjólk og blandið helmingnum (50 gr) af ostinum út í skálina.
 9. Hellið sósunni yfir bökuna og dreifið afganginum af ostinum yfir.
 10. Dreifið afganginum af ostinum yfir bökuna og setjið hana inn í ofn.
 11. Bakið við 200°C í um 30 mínútur.
 12. Leyfið bökunni að kólna í um 10 mínútur áður en þið skerið hana.

Gott að hafa í huga

 • Berið fram með byggi eða hýðishrísgrjónum og fersku salati.
 • Gott er að hafa sósu með t.d. úr AB mjólk. Einfalt er að búa hana til: Blandið saman 200 ml AB mjólk, pipar, söxuðu hvítlauksrifi eða hvítlaukssalti, papriku og steinselju.
 • Einnig má skipta einhverju af ofantöldu grænmeti út og nota t.d. rauða eða appelsínugula papriku, tómata, blómkál, lauk og spergilkál o.fl í staðinn.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
 • Nota má hrísmjólk, möndlumjólk, sojamjólk eða haframjólk í staðinn fyrir léttmjólk.
 • Nota má sojaost í staðinn fyrir venjulegan ost.

Ummæli um uppskriftina

mariathora
25. ágú. 2011

Frábærlega góð uppskrift! Skyrið gerir deigið svo meðfærilegt og þægilegt. Var raunar með 140 g af heilhveiti í stað haframjöls og spelts og bætti svo hvítlauki við grænmetið. Takk fyrir mig!

sigrun
26. ágú. 2011

Sniðugt að bæta hvítlauk við...gefur örugglega góðan keim í grænmetið. :)