Grænmetis Pilau
28. febrúar, 2003
Klassískur indverskur réttur, mjög bragðgóður og mildur og upplagður sem fjölskyldumáltíð. Ég smakkaði svona Pilau fyrst á uppáhalds indverska veitingastaðnum okkar í London. Hann heitir Jaflong og er í South-Harrow þar sem við bjuggum í 3 ár (meirihluti Indverjar sem búa þar sem útskýrir góða matinn). Þessi réttur er nú ekki eins góður og á Jaflong, en er smá tilraun í áttina kannski og aðeins hollari!
![](http://www.cafesigrun.com/sites/cafesigrun.com/files/imagecache/uppskrift/graenmetis_pilaeu_1.jpg)
Reglulega ljúfur og bragðgóður indverskur hrísgrjónaréttur
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Vegan
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án hneta
Grænmetis Pilau
Fyrir 2-3
Innihald
- 225 g hýðishrísgrjón
- 1 laukur
- 1 msk kókosolía
- 25 g cashewhnetur
- 2 msk cumin fræ (EKKI kúmen)
- 0,25 tsk malað cumin (ekki kúmen)
- 2 lárviðarlauf
- 4 heilar kardimommur
- 4 negulnaglar (e. cloves)
- 50 g frosnar, grænar baunir (látið þær þiðna)
- 50 g maískorn, frosið eða úr dós (án viðbætts sykurs)
- 475 ml vatn
- 0,5 tsk salt (Himalaya- eða sjávarsalt)
Aðferð
- Skolið grjónin vel þangað til vatnið af þeim er orðið tært. Leggið grjónin í bleyti í 30 mínútur.
- Afhýðið laukinn og saxið fremur smátt. Setjið til hliðar
- Hitið stóra pönnu (án olíu) og þurrristið cashewhneturnar í 5-7 mínútur eða þangað til þær eru farnar að taka lit. Setjið til hliðar.
- Hitið 1 matskeið af kókosolíunni á pönnunni og steikið cumin fræin í um 3 mínútur eða þangað til þau fara að ilma.
- Bætið malaða cumininu, lárviðarlaufunum, kardimommunum og negulnöglunum út á pönnuna og steikið í 2 mínútur.
- Bætið lauknum við og steikið í 5 mínútur þangað til hann er orðinn mjúkur.
- Látið vatnið renna af grjónunum og setjið á pönnuna ásamt afganginum af kókosolíunni, grænu baununum, maískorninu og cashewhnetunum, Steikið í 4-5 mínútur.
- Bætið 250 ml af vatni út á pönnuna ásamt salti. Látið suðuna koma upp, setjið lok á pönnuna og látið krauma í 25 mínútur við lágan hita þangað til mesti vökvinn er farinn.
- Slökkvið á hitanum, látið pönnuna standa í 10 mínútur með lokinu á áður en rétturinn er borinn fram.
Gott að hafa í huga
- Berið fram með mangomauki (mango chutney), jógúrtsósu og jafnvel chapati brauði.
- Þessi réttur er mjög góður kaldur líka þannig að það er upplagt að setja afganginn í nestisboxið.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Ef þið eruð ekki vegan eða grænmetisætur, er gott að setja svolítið af elduðu kjúklinga- eða lambakjöti út í réttinn.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2025