Góðar brauðbollur með öllum mat
5. mars, 2003
Þessar brauðbollur er auðvelt að búa til og má setja eitthvað annað en sólþurrkaða tómata og ólífur í þær. Það er t.d. upplagt að setja rifnar gulrætur, grillaða papriku og jafnvel kúrbít út í bollurnar.
Mér finnst bollurnar passa nánast með öllum mat en ef ykkur finnst bragðið af ólífunum of sterkt, getið þið sleppt þeim og notað eitthvað annað í staðinn.

Góðar og hollar speltbollur með öllum mat
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Góðar brauðbollur með öllum mat
Gerir 15-20 bollur
Innihald
- 700 g spelti
- 3 tsk vínsteinslyftiduft
- 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- 500 ml sojamjólk. Gæti þurft meira eða minna
- 1 msk sítrónusafi
- 1 msk kókosolía
- 2 tsk agavesíróp
- 10 sólþurrkaðir tómatar án olíu
- 10 grænar ólífur
Aðferð
- Í stóra skál skuluð þið blanda saman spelti, salti og vínsteinslyftidufti.
- Hrærið agavesírópi og kókosolíu saman og hellið út í speltið.
- Blandið saman 50 ml sojamjólk og sítrónusafanum. Látið standa á borðinu þangað til mjólkin fer að mynda kekki (í um 15 mínútur). Bætið út í speltið.
- Hrærið allt saman og bætið afganginum af sojamjólkinni saman við speltið. Þið gætuð þurft meira eða minna af mjólkinni.
- Saxið ólífur og sólþurrkaða tómata smátt og setjið út í deigið.
- Hrærið deigið varlega saman. Hrærið alls ekki of mikið (veltið því til svona 8-10 sinnum, rétt svo til að blanda öllu saman).
- Gætið þess að deigið verði ekki of blautt. Deigið á að vera þannig að það hægt sé að móta bollur með góðu móti án þess að hægt sé að hnoða það.
- Skiptið deiginu í 12 hluta og mótið bollur. Einnig er gott að nota ískúluskeið.
- Bakið við 225°C í 15-20 mínútur.
Gott að hafa í huga
- Í staðinn fyrir sólþurrkaða tómata og ólífur má nota t.d. rúsínur, furuhnetur (pine nuts), ristuð sesamfræ, sinnepsfræ, graskersfræ og margt fleira.
- Ef þið finnið aðeins sólþurrkaða tómata í olíu má þerra olíuna með eldhúsþurrku en einnig hef ég notað þessa aðferð: Setjið sólþurrkuðu tómatana í sigti og hellið sjóðandi heitu vatni yfir þá (um 500 ml eða svo). Þerrið tómatana með eldhúsþurrku.
- Í staðinn fyrir sojamjólk getið þið einnig notað haframjólk, hrísmjólk, möndlumjólk eða undanrennu.
Ef þið notið súrmjólk, AB mjólk eða jógúrt má sleppa sítrónusafanum. - Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2025