Fyrsti grauturinn
5. febrúar, 2007
Hrísgrauturinn er eitt af því fyrsta sem börn smakka á, á eftir móðurmjólkinni. Hrísgrautur sem ætlaður er ungbörnum fer vel í maga og er mildur á bragðið án þess þó að vera alveg bragðlaus. Mælt er með því að börn fái móðurmjólk eingöngu til 6 mánaða aldurs en ef þið kjósið að venja börn við mat fyrr (eða ef þau þurfa viðbót) má byrja á hrísgraut. Athugið að börnum yngri en 17 vikna má ekki gefa graut því meltingarkerfið er ekki nægilega þroskað.
Ég kaupi lífrænt framleitt hrísmjöl í heilsubúð, sérstaklega ætlað ungbörnum frá 4ra mánaða og þessi uppskrift er því í raun ekki eiginleg uppskrift heldur frekar leiðbeiningar um hvernig best er að gefa fyrsta grautinn. Hér eru nokkur atriði til að hafa í huga:
- Gott er að nota kunnuglegt bragð af móðurmjólk eða þurrmjólk sem ætluð er ungbörnum (ef barnið fær þurrmjólk) í grautin í fyrstu skiptin, börnin kunna yfirleitt vel að meta það.
- Byrjið með hálfa til eina teskeið á dag í nokkra daga og aukið svo smám saman skammtinn. Gott er að ráðfæra sig við hjúkrunarfræðing t.d. í ungbarnavernd um magn fastrar fæðu og mjólkur því mikilvægt er að barnið drekki frekar mjólk en borði graut.
- Notið mjúka skeið sem gefur eftir. Mikilvægt er að særa ekki góm barnsins.
- Athugið að í fyrstu skiptin sem börn smakka graut er allt eins líklegt að þau ýti grautnum öllum út úr sér, gretti sig og jafnvel kúgist og hósti. Það er fullkomlega eðlilegt þar sem vöðvarnir sem börn nota við að kyngja eða sjúga mjólk eru ólíkir. Þau þurfa að þjálfa þann eiginleika að ýta matnum aftur í kok og með æfingu kemur það allt saman.
- Verið þolinmóð, gefið ykkur góðan tíma, hafið umhverfið rólegt og búist ekki við miklu.
- Ef barnið virkar stressað eða ef það opnar ekki munninn, hreyfir höfuðið til og frá eða er pirrað í stólnum, bíðið þá í nokkra daga með að gefa grautinn.
- Gott er að setja barnið í bílstól í fyrstu skiptin sem það borðar því barnið er vel skorðað af og hallar þægilega fyrir foreldrið til að gefa því. Gætið þess að skilja barnið aldrei eftir í stólnum með mat upp í sér.
- Gefið barninu þegar það er hvorki svangt né þreytt. Mér finnst best að gefa grautinn milli mála, um miðjan dag eða eftir góðan morgunlúr. Ekki reyna að gefa barninu rétt áður en það fer í lúr. Það er allt of þreytt til að geta einbeitt sér að því að borða. Það reynir á börnin og gerir þau enn þreyttari.
- Það er ekki óalgengt að einingis nokkrir dropar af graut fari ofan í maga í fyrstu skipti og það er allt í lagi.
- Lítið á fyrstu matargjöfina sem stórt skref fyrir bæði ykkur og barnið (og hafið myndavél eða videovél við hendina!) því framundan eru skemmtilegir tímar!
Mildur og góður fyrsti grautur
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án eggja
- Án hneta
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án mjólkur
- Vegan (fyrir jurtaætur)
Fyrsti grauturinn
Einn skammtur
Innihald
- Nokkrar teskeiðar soðið vatn (og svo kælt)
- Nokkrar teskeiðar móðurmjólk (eða svolítið þurrmjólkurduft fyrir ungbörn)
- 1-2 tsk hrísmjöl yrir ungbörn (úr heilsubúð)
Aðferð
- Sjóðið svolítið vatn og kælið.
- Setjið 1-2 tsk af mjöli í litla, vel hreina skál.
- Bætið vatni og mjólk út í þangað til grauturinn er orðinn vel þunnur, án kekkja. Mér finnst gott að miða við áferð t.d. eins og á jógúrti þ.e. vel fljótandi en án þess að grauturinn sé eins og vatn.
- Hrærið vel.
- Hafið myndavélina tilbúna!!!
Gott að hafa í huga
- Ekki má hita grautinn aftur upp og ekki ætti að frysta grautinn.
- Gætið þess að grauturinn kólni vel áður en þið gefið barninu því munnur ungbarns er viðkvæmari en í fullorðnum.
- Nota má hirsimjöl eða maísmjöl í staðinn fyrir hrísmjöl.
- Með tímanum má svo þykkja grautinn smám saman.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024
Ummæli um uppskriftina
03. sep. 2014
Hæ Sigrún!
Fyrst af öllu. Takk fyrir frabæran vef. Nota uppskriftirnar þínar svaka mikið :)
Dóttir mín er 5 mánaða (22 vikna) og ég er svona að fikra mig áfram í að gefa henni graut. Málið er að ég vil helst ekki gefa henni þurrmjólk og ég nenni ekki að pumpa mig og er ekki einfalt heldur því hún fær rétt svo það nægi. Spurning mín er, er í lagi að gera þessa uppskrift án mjólkur? Þ.e. nota bara vatn í duft, og sirka hvenær má bæta bragði við (t.d. olíu eða ferskju/sveskjumauki)? Ég hef reynt að gúggla þetta en finn ekkert um þetta.
Takk takk!
Embla
03. sep. 2014
Sæl Embla :)
Það er MJÖG mikilvægt að dóttir þín fái mjólk. Sé það ekki brjóstamjólk verður það að vera þurrmjólk nema þú fáir leiðbeiningar um annað hjá lækni. Hún á í raun ekki að þurfa neitt annað þangað til hún er 6-9 mánaða nema hún hafi sérlega mikla matarlyst. Hún má alls ekki fá fasta fæðu í staðinn fyrir mjólkina heldur á fasta fæðan aðeins að vera svona uppbót eða viðbót við mjólkina. Í henni eru lífsnauðsynlegar fitusýrur, prótein, kalk, vítamín, járn o.fl. sem hún verður að fá. Maukið þarftu ekki að blanda í mjólk SVO LENGI SEM hún er að fá hana á öðrum tímum. Ef hún er sátt við maukið í eins og viku er í lagi að mauka t.d. avokadó saman við það, eða banana. Best er að halda sér frá mjög sætum ávöxtum eins og sveskjum (og bönunum) og nota eitthvað aðeins minna sætt eins og gulrætur, kartöflur o.fl. þannig að hún venjist ekki á sæta bragðið. Athugaðu líka að hún fái ekki of miklar trefjar í kroppinn svo fylgstu vel með bleiunni. Ráðfærðu þig endilega við þær hjá ungbarnaverndinni eða þegar þú ferð í ungbarnaskoðun.
Vona að þetta hafi hjálpað :)
Kv,Sigrún
27. maí. 2017
Sæl Sigrún. Nú þekki ég ekkert heilsubúðir, í hvaða heilsubúðir eru til og hvar er hægt að kaupa lífrænt framleitt hrísmjöl? :)
Takk :)
27. maí. 2017
Sæl/sæll
Þú finnur lífrænt framleidda grauta í nánast öllum heilsubúðum, sem í heilsudeildum stærri matvöruverslana. Hipp Organic, Holle o.fl. merki eru fín :) Vona að þetta hjálpi!