Fyrsta kexið

Þetta kex er mátulega hart (en ekki of), gott á milli fingranna (ekki of gróft) og er hvorki of sætt né of sterkt á neinn hátt. Þetta kex er upplagt að eiga fyrir börnin á milli mála. Alltaf skal fylgjast með börnum borða kex þar sem þau geta átt það til að stinga því heilu upp í sig í einu og þannig getur það staðið í þeim. Ég setti kexkökurnar inn fyrir bæði 6-9 mánaða og 9-12 mánaða en börn eru mismunandi og sum eru mjög sátt við að naga kex í kringum 7 mánaða þegar tennurnar eru að láta á sér kræla. Ég gaf minni dóttur ekkert kex fyrr en hún var orðin 7 mánaða og það er ólíklegt að börnin þurfi á því að halda fyrr. Kexið er líka góð æfing í að halda á hlutum á milli fingranna. Þið getið útbúið deigið þykkara og mótað það eins og þið viljið, gott er samt að hafa brúnirnar ekki of skarpar. Gætið þess að gefa barninu nóg að drekka með kexinu.

Flest börn þola spelti vel en ef grunur er um glúteinofnæmi skal að sjálfsögðu ekki gefa kexið. Sama á við um kanil og vanillu, ef börnin eru mjög viðkvæm eða mikið ofnæmi er í fjölskyldunni er best að sleppa því (sérstaklega kanil).


Fyrsta kexið fyrir litla fingur og munna

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Fyrsta kexið

Gerir um 10-12 kexkökur

Innihald

  • 90 g spelti (fínmalað)
  • 0,5 tsk bökunarsódi
  • 1 tsk kanill (má sleppa)
  • Vanillukorn á hnífsoddi (um fimmtungur úr vanillustöng), (má sleppa)
  • 1,5 msk agavesíróp
  • 3 msk kókosolía
  • 3-4 msk eplasafi

Aðferð

  1. Hrærið saman í miðlungsstóra skál spelti, bökunarsóda og kanil. Hrærið vel. Ef þið notið vanillu, skerið hana þá langsum og skafið svolítið af vanillukornunum út í.
  2. Í annarri skál skuluð þið hræra saman kókosolíu, eplasafa og agavesíróp. Hellið út í miðlungsstóru skálina. Hnoðið lauslega saman. Áferðin á að vera þannig að þið getið haldið á deiginu án þess að það klístrist við hendurnar og það á ekkert af deiginu að vera eftir í skálinni. Deigið á alls ekki að vera blautt en á að vera auðvelt að móta það. Ef deigið er of þurrt má setja 1-2 tsk af eplasafa út í til viðbótar.
  3. Setjið deigið í skál og geymið í ísskápnum í um 30 mínútur.
  4. Takið deigið úr kælinum, fletjið það út í um 1mm þykkt deig og skerið út úr því t.d. 3sm hringi (í þvermál) eða mjúkar stjörnur.
  5. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og raðið kexinu á pappírinn.
  6. Bakið við 180°C í um 10-12 mínútur.
  7. Kexið er mjúkt þegar það kemur úr ofninum en harðnar svo aðeins.

Gott að hafa í huga

  • Fyrir eldri börn er gaman er að setja nokkra dropa af bláberjasafa eða rauðrófusafa út í deigið til að gera það litríkara.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Frysta má kexið og hita það upp gætilega í ofni.

Ummæli um uppskriftina

Fjóla
13. apr. 2011

Skellti í svona kex áðan fyrir einn tæpl. 7 mánaða sem er mjög pirraður í gómnum! Vakti mikla lukku :-)

sigrun
11. okt. 2012

Æðislegt Fjóla :)

Eyrún
11. okt. 2012

Sæl Sigrún, ættlaði að prófa þessa uppskrift fyrir eina 10 mán. Skiptir miklu máli hvort að speltið sé gróf eða fínmalað?

sigrun
11. okt. 2012

Það skiptir máli upp á að barnið fái ekki of miklar trefjar (sem hefur áhrif á næringarefnin þ.e. þau fá ekki nóg af þeim ef trefjamagnið er of mikið). Að öðru leyti skiptir það ekki máli nema þú gætir þurft meira/minna vökvamagn en gefið er upp.

Kv.

Sigrún

Diljá
08. maí. 2013

er ég alveg glær en hvað er bökunarsódi hehe :)?

sigrun
08. maí. 2013

Bökunarsódi (matarsódi) er náttúrulegt lyftiefni sem er oft notað í það sem á að vera stökkt (t.d. kex) og er svipað lyftidufti sem er notað í það sem á að vera mjúkt (t.d. muffins).

Diljá
09. maí. 2013

takk ég hugsaði akkúrat hvort þetta væri matarsódi vildi bara spurja til að vera alveg viss :D

gestur
18. sep. 2017

Væri í lagi að nota Eplamauk í staðinn fyrir agavesýróp og epla safa?

sigrun
18. sep. 2017

Jú það væri í lagi, en kexið verður þá meira eins og brauð þ.e. mjúkt. Ef þú vilt fá það stökkara eins og kex gætirðu þurft að baka lengur og við lægri hita :) Vona að þetta hjálpi!