Frosin jesúterta

He he, fyndið nafn í ljósi þess að ég er minnst trúaða manneskja sem fyrir finnst. Ég fann þessa uppskrift á heimasíðu sem var með trúarlegum uppskriftum og í rauninni voru uppskriftirnar að þeim mat sem jesú átti&;að hafa borðað. Hann á greinilega að hafa verið með hráfæði á hreinu. Sko, ég dreg trúverðugleika uppskriftanna dálítið í efa þar sem ég er nokkuð viss um að jesú hafi ekki átt frystikistu. En ok, fyrst hann á að hafa getað breytt vatni í vín, þá gæti hann hafa&;fryst vatn? Bara pæling sko.

En hvað um það, þetta er afar hitaeiningarík kaka (ekki tómar hitaeiningar samt, heldur fullar af vítamínum, próteinum, kalíum og kalki ásamt fleiru góðu fyrir okkur). Hún er rosalega massíf en einnig er hún meinholl því að það eru bananar, döðlur, gráfíkjur og möndlur í henni. Ég bætti kókos við en það má sleppa honum. Athugið að það tekur alveg tvo sólahringa að gera uppskriftina þar sem döðlurnar og gráfíkjurnar þurfa að liggja í bleyti í heilan sólarhring og svo þarf að frysta kökuna í annan. Athugið að nota þarf 20 sm form með háum börmum (10-12 sm). Þessi kaka er upplögð í saumaklúbbinn á heitum sumardegi, eftir létta máltið (því kakan er svo saðsöm)! Það sem er líka sniðugt við hana er að maður getur búið hana til með margra vikna fyrirvara því hún geymist vel í frysti. Uppskriftin er sáraeinföld þó hún virki flókin, þarf bara smá lagni við að koma öllu fyrir.

Athugið að þið þurfið matvinnsluvél til að útbúa þessa uppskrift. Hafið einnig í huga að þið þurfið að gefa ykkur tveggja daga fyrirvara á kökunni því fyrst þarf að leggja hráefni í bleyti og svo þarf jú að frysta kökuna. Ekki þarf ísvél fyrir þessa uppskrift.


Frosin jesúterta, full af vítamínum en alger orkubomba

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Vegan
 • Hráfæði

Frosin jesúterta

Gerir eina massífa köku

Innihald

 • 450 g döðlur, leggið í bleyti í sólarhring í 200 ml af vatni
 • 450 g gráfíkjur, leggið í bleyti í sólarhring í 200 ml af vatni
 • 350 g möndlumjöl (malaðar möndlur)
 • 5-6 mjög vel þroskaðir bananar (mega vera orðnir svartir)
 • 30 g kókosmjöl (má sleppa)
 • Nokkrar matskeiðar appelsínusafi

Aðferð

 1. Saxið döðlurnar gróft og leggið í bleyti í sólarhring í 200 ml af vatni.
 2. Snúið litla stubbinn af gráfíkjunum, saxið þær gróft og leggið í bleyti í sólarhring í 200 ml af vatni.
 3. Malið möndlurnar fínt í matvinnsluvél (þangað til þær verða að dufti en án þess að þær verði olíukenndar eða maukaðar). Geymið í sér skál.
 4. Hellið döðlunum ásamt vatninu í matvinnsluvél og blandið vel saman. Geymið í sér skál.
 5. Hellið gráfíkjunum ásamt vatninu í matvinnsluvél og blandið vel saman. Geymið í sér skál
 6. Maukið bananana í matvinnsluvél þangað til þeir verða að mauki. Geymið í sér skál.
 7. Klæðið formið að innan með plastfilmu með plastfilmu.
 8. Setjið svolítið möndlumjöl sem fyrsta lag. Pressið létt ofan á svo að botninn verði þéttur. Dreypið nokkrum dropum af appelsínusafa yfir og þrýstið vel á botninn svo hann límist vel saman. Setjið í frysti í um 30 mínútur.
 9. Næsta lag á að vera gráfíkjumauk. Setjið um 2-3 kúfaðar matskeiðar og dreifið úr þeim varlega svo að möndlumjölið farið ekki út um allt. Hér þarf smá lagni til að allt blandist ekki saman.
 10. Setjið aftur möndlumjöl og gerið eins og í fyrsta skrefinu.
 11. Næsta lag á að vera döðlumauk. Setjið svona um 2-3 kúfaðar matskeiðar og dreifið úr þeim varlega svo að möndlumjöl farið ekki út um allt. Hér þarf smá lagni líka.
 12. Næsta lag á að vera bananamauk, setja má frekar mikið af því.
 13. Bætið kókosmjölinu við hér ef þess er óskað.
 14. Næst á að koma möndlumjöl.
 15. Þetta skal gera koll af kolli þangað til hráefnið er búið. Endið á fíkjumauki eða döðlumauki.
 16. Frystið í minnst sólarhring.
 17. Áður en á að bera kökuna fram skal láta hana standa á borði í um 30 mínútur en einnig má setja formið í volgt vatnsbað (klæðið formið þá í plastpoka) til að losa um kökuna.
 18. Setjið kökuna á disk og skreytið með t.d. möndlum, kókos, möndluflögum eða bananasneiðum.

Gott að hafa í huga

 • Þar sem þessi kaka er massíf má alveg helminga uppskriftina og gera hana þar með minni (þynnri).
 • Í staðinn fyrir möndlur má nota heslihnetur.
 • Gætið þess að bera ekki kökuna fram eftir þunga máltíð því það á enginn eftir að geta borðað mikið af henni, hún er svo svakalega saðsöm.
 • Kakan geymist í frysti í margar vikur (pakkið inn í plast).
 • Möndlumjöl fæst í heilsubúðum en einnig má mala möndlurnar sjálfur (grófari áferð).
 • Nota má vel þroskað mango eða vel þroskaða peru í staðinn fyrir banana.

Ummæli um uppskriftina

Soley E
06. maí. 2013

Þessi er svakalega góð og frábær til að eiga í frystinum.
Ég kreisti blóðappelsínu í staðin fyrir appelsínusafann og það kom mjög vel út.

sigrun
07. maí. 2013

Gaman að heyra Sóley :) Líst vel á blóðappelsínuna :)