Um mat fyrir útivist

Við höfum farið í ófáar göngurnar í gegnum tíðina og alltaf lagt mikið upp úr því að undirbúa hollar og staðgóðar máltíðir. Að byrja góðan dag með orkuríkum, heimatilbúnum morgunmat er alveg meiriháttar byrjun og að enda daginn í fallegri laut við lítinn læk með heitan kvöldmat í skál er hápunktur hvers dags. Ok kannski svolítil bjartsýni þ.e. stundum þurfum við að halda í tjaldið til að það fjúki ekki í burtu á meðan við hendum ofan í okkur brauðsneiðum í flýti o.s.frv. en fyrri sýnin er það sem situr fastar í okkur. Sem betur fer því annars færum við líklega aldrei á fjöll. Gott er að hafa í huga að eftirfarandi upptalning á við léttar göngur (t.d. Fimmvörðuháls eða Laugaveginn) en er ekki miðuð við t.d. fólk í ísklifri, Pólfara, Everestfara o.s.frv. he he. Er hrædd um að þeir yrðu ansi svangir við að borða matinn minn. Hér eru nokkur atriði sem ég hef yfirleitt í huga við mat í léttum göngum:

Undirbúningur:

  • Skipuleggið allar máltíðir (morgun, hádegi, kvöld) með góðum fyrirvara og kaupið inn samkvæmt því.
  • Kaupið gott hráefni og ekki spara við ykkur, þið eigið það besta skilið eftir erfiði dagsins.
  • Takið alltaf eina aukamáltíð til vara ef eitthvað skyldi út af bregða.
  • Takið með ykkur undanrennuduft, þannig þurfið þið bara að hella köldu vatni út í fyrir t.d. muesli eða hafragraut og þið sparið aukaílát sem annars hefði farið undir mjólk.
  • Forðist tilbúinn útilegumat. Hann er yfirleitt hlaðinn hertri fitu og oft með bragðefnum, of miklu salti og jafnvel sykri. Útbúið frekar ykkar eigin núðlurétti og pottrétti.
  • Umpakkið innihaldi í létt ílát (ekki járndósir eða glerkrukkur), í göngum skiptir þyngd (eða minni þyngd öllu heldur) miklu máli.
  • Reiknið út hversu mikinn mat þið þurfið áður en lagt er af stað. Takið frekar of mikið en of lítið. Það er ekki gaman að vera svangur og langt frá næstu verslun. Mjög misjafnt er hversu mikið fólk þarf og fer það allt eftir þyngd einstaklings, hversu erfið gangan er, hvort kalt er í veðri og hversu langt á að fara.
  • Maturinn ætti að vera orkuríkur en þó ekki hlaðinn sykri eða hertri fitu. Flókin kolvetni, prótein og holl fita eru góð blanda.
  • Ekki taka með mat sem ykkur þykir ekki góður heima hjá ykkur. Ef þið borðið ekki hafragraut öllu jöfnu, skuluð þið ekki elda hann í útilegunni þó hann sé hollur (nema þið séuð ákveðin í að borða hann).
  • Grænmetisbuff t.d. kjúklingabaunabuff er gott að taka með sér því þau má borða köld, brjóta í súpur og pottrétti og jafnvel grilla.
  • Ef þið eigið þurrkofn er mjög sniðugt að þurrka í honum t.d. ávexti, sósur, sólþurrkaða tómata o.fl.
  • Takið með ykkur krydd (salt, pipar, basil, steinselju, sojasósu/tamarisósu) í litlum staukum, þau gera oft gæfumuninn á áfangastað.
  • Þurrkaðir, villtir sveppir eru létt en bragðmikil viðbót í t.d. pottrétti og súpur.
  • Kús kús og smágert pasta (t.d. litlar slaufur) er gott að nota sem uppfyllingu í pottrétti og jafnvel súpur. Núðlur eru líka sniðug viðbót og gera má stórgóðar núðlusúpur á fjöllum.
  • Pítubrauð (gróf) þola mikið slark og þau má rista yfir opnum eldi í smástund, fylla með grænmeti eða dýfa í súpur. Einnig eru chapati brauð sniðug í svona ferðir. Vefjur eru einnig upplagðar og má útbúa hollar og góðar vefjur til að taka með sér fyrir fyrsta daginn. Þær eru einnig góðar með hnetusmjöri.
  • Hnetusmjör er gott að taka með og passar ofan á nánast allt brauð og kex. Setjið í lítil ílát og þá er hægt að smyrja t.d. ofan á brauð á fljótlegan hátt. Hnetusmjör geymist lengi og skemmist ekki þó það sé ekki geymt í kæli.
  • Blandið ykkar eigin hnetu/rúsínublöndu. Setjið t.d. hnetur, rúsínur, döðlur, aprikósur og jafnvel saxað, gott súkkulaði í poka.
  • Hafið svolitla fjölbreytni í matnum. Til dæmis er gott að hafa núðlur einn daginn en kús kús hinn daginn og svo jafnvel hrísgrjón þriðja daginn.
  • Fyrir kjötæturnar er gott að vera búin að sjóða kjöt, rífa í strimla og setja út í pottrétti eða súpur.
  • Alltaf er gaman að taka með sér eins mikið af fersku hráefni og hægt er en það vill oft verða ansi sjúskað eftir nokkra daga. Gulrætur og lauk má nota til að bragðbæta pottrétti og súpu en hvoru tveggja geymist vel á ferðalagi. Mýkri ávextir og grænmeti t.d. avocado, vínber, tómatar o.fl. verða að mauki í bakpokunum og ætti ekki að fara með nema í vel lokuðu íláti.
  • Takið með ykkur nægilega mikið af orkubitum, helst heimatilbúnum en annars er hægt að fá fína orkubita í heilsubúðum.
  • Takið hollt kex til að borða með kaffinu, það er eitthvað svo gott að halda um heitan bollann með köldum fingrum og dýfa kexi ofan í. Hollt kex fæst í heilsubúðum (t.d. með rúsinum í). Einnig má útbúa hafrakex.
  • Ef ykkur finnst kaffi nauðsynlegt takið þá með ykkur kaffi til að hita. Það eina sem þið þurfið er trekt (helst ekki þannig að þurfi filter ofan í), malað kaffi, bolli og heitt vatn.
  • Á áningarstað er ekki amalegt að draga upp heimatilbúna orkumuffinsa, kryddbrauð, bananabrauð eða konfekt með kaffinu…víst er að þið munuð slá í gegn á meðal þreyttra ferðalanga, þó að þið séuð bara ein á ferð!

" title="Aftur upp" class="a">
Á leiðinni:

  • Borðið vel að morgni ef þið eruð að fara í göngu, morgunmaturinn er mikilvægasta máltíð dagsins. Muesli er afbragðsgott bensín fyrir daginn. Ef þið viljið frekar hafragraut þá er hann bæði heitur og orkuríkur morgunverður og líka frábær byrjun á góðum degi. Munið bara eftir undanrennudufti (eða mjólk) salti og kanil til að bragðbæta hann (ef þið notið mjólk, salt og kanil að staðaldri).
  • Ef þið hafið ekki tíma til að útbúa morgunmat er gott að búa til helling af orkubitum eins og t.d. Flap Jack í staðinn. Þá má maula á leiðinni.
  • Sumir smyrja samlokur áður en haldið er af stað og geyma í nestisboxum en aðrir smyrja samlokur fyrir næsta dag, í áningarstað. Hvort sem þið gerið skiptir ekki máli en þó er ágætt að hafa í huga að samlokur sem hafa verið í bakpoka í marga daga geta verið ansi velktar.
  • Takið alltaf allt rusl með ykkur og skiljið ekkert eftir í náttúrunni. Gangið alltaf vel um og skiljið áningarstað við ykkur í sama ástandi (eða betra) og þið komuð að honum.