Ódýrt en hollt

Ódýrt og hollt eru tvö orð sem ekki endilega fara saman. Sérstaklega ekki á Íslandi þar sem fokdýrt er að versla hollustuvörur. Í mjög mörgum tilvikum er ódýr matur óhollur og þá helst hvers kyns skyndibiti og þessar tilbúnu núðlur og núðlusúpur, pottréttir o.fl. sem hægt er að kaupa í dósum og pökkum. Ég man sjálf þegar ég var skíííítblönk í námi og hafði ekki efni á neinu nema pasta. Ekki skemmtilegir tímar en vandinn fólst aðallega í því að ég kunni ekki að gera pasta gott með lítilli fyrirhöfn. Það er líka vel hægt að gera hollan pasta- eða grjónarétt, nú eða pottrétt og láta hann duga í nokkra daga. Lykillinn að því að lifa ódýrt, matarlega séð liggur nefnilega í þessu þrennu: magni, frysti og nestisboxum! Það er að segja að geta eldað matinn í miklu magni, að geta fryst afganga og að taka með sér nesti í nestisboxum. Ég fleygi aldrei, aldrei mat heldur geri ég alltaf eitthvað úr afgöngum eins og t.d. pottrétt úr baunabuffum (sem ég átti til frosin í frystinum), ef ég á pasta- eða hrísgrjónaafgang nota ég hann í súpu og svo er ódýrt og hagkvæmt að baka brauð og borða með t.d. súpu.

Hér eru nokkrar ráðleggingar varðandi það hvernig lifa má nokkuð ódýrt og hollt:

 • Ekki kaupa skyndibitamat, gerið frekar t.d. hollar pizzur heima og frystið til að hita upp seinna. Miklu hollara og ódýrara.
 • Kaupið inn eins mikið magn af mat og ísskápurinn ykkar og frystir leyfir og gerið úr hráefninu eins mikið magn af mat í einu og þið getið.
 • Frystið það sem verður afgangs. Matur geymist yfirleitt í nokkra mánuði í ágætum frysti.
 • Gott er að frysta í litlum pokum og nestisboxum.
 • Kaupið helling af nestisboxum í ýmsum stærðum. Nestisbox fást í öllum búsáhaldabúðum og víðar.
 • Nýtið ykkur tilboð og afsláttardaga í verslunum.
 • Skipuleggið aðeins fram í tímann það sem á að vera í matinn og kaupið inn samkvæmt því, þannig þurfið þið ekki að fleygja neinu.
 • Hafið í huga að súpa er yfirleitt ódýrasti kvöldmaturinn en um leið nokkuð seðjandi ef hún er matarmikil (t.d. með baunum, pasta, hrísgrjónum, fiskiafgöngum).
 • Hendið aldrei afgangi af fiski, frystið hann og notið í súpur.
 • Hendið ekki pasta- eða grjónaafgöngum heldur notið til að gera súpur matarmeiri.
 • Úr afgöngum af hafragraut og grjónagraut má búa til dýrindis klatta.
 • Smyrjið nesti að kvöldi ef þið hafið tíma (ef þið hafið tíma til að horfa á sjónvarp er nægur tími til að smyrja nesti!). Nánari ráðleggingar um nesti. Samlokan/maturinn sem þið kaupið í hádeginu telur drjúgt þegar til lengri tíma er litið.
 • Ef þið eigið grænmeti í ísskápnum sem farið er að slappast er gott að búa til súpu t.d. ef þið eigið eitthvað af eftirtöldu má gera úr því fína súpu; sellerí, kartöflur, blómkál, spergilkál, gulrætur, lauk, rauðlauk, sætar kartöflur, rófur o.fl. og 1-2 grænmetisteninga.
 • Ef þið eigið ávexti sem eru orðnir slappir má skera þá niður og nota í alls kyns drykki (smoothie).
 • Nota má slappa ávexti eins og t.d. banana, epli, perur o.fl. í muffinsa. Þá má frysta og borða seinna. Það er nefnilega sniðugt að frysta 2 og 2 saman í pokum og taka með sér í skólann eða vinnuna!
 • Kartöflur hafa reynst þjóðinni drjúgar í gegnum aldirnar og þær má nota í svo ótal margt eins og bakaðar kartöflur, hollar franskar, út í súpur, pottrétti og margt fleira. Þær eru yfirleitt mjög ódýrar.
 • Til að drýgja speltið má nota byggmjöl. Ég nota 25 gr af byggmjöli á móti 100 gr af spelti (þ.e. 25%).
 • Ef súkkulaðið sem þið eruð að bræða mistekst (t.d. ef vatn fer út í það eða það ofhitnar), getið þið látið það kólna, saxað í bita og notað í súkkulaðibitasmákökur eða í annað þar sem súkkulaðið þarf ekki að njóta sín sérstaklega eitt og sér.
 • Ef þið eruð að nota aðeins lítinn hluta af heilli dós af kókosmjólk, má frysta afganginn í ísmolabox, eða í annað ílát. Gott er að skrifa hversu mikið er af kókosmjólkinni (t.d. 100 ml). Molana má svo nota til að þykkja súpur, í brauðbakstur, drykki, ís og margt fleira. Sömu aðferð getið þið notað með sultur og barnamat.
 • Í staðinn fyrir speltbrauðrasp í t.d. hnetuborgara má nota malað/mulið spelthrökkbrauð..
 • Til að búa til ódýrt hnetusmjör má kaupa salthnetur, skola af þeim saltið, baka og mauka svo með ólífuolíu og smá slettu af agavesírópi.
 • Hnetumauk (cashewmauk, heslihnetumauk, möndlumauk o.fl.) er auðvelt að búa til með því að mauka hnetur og svolitla kókosolíu/hnetuolíu í matvinnsluvél.
 • Einnig má búa til sitt eigið tahini með því að mauka sesamfræ með salti og ólífuolíu.
 • Borðið hjá mömmu/pabba/vinum öðru hvoru (ef allt annað þrýtur he he).