Gott að hafa í huga varðandi bakstur, hráefni og fleira

Hér hef ég tekið saman upplýsingar sem gott er að hafa í huga þegar þið útbúið uppskriftir af vefnum mínum. Ég tók einnig saman lista af þeim hlutum sem gott er að eiga í eldhúsinu.

Almennt

  • Lesið fyrst uppskriftina alla og einnig ábendingarnar fyrir neðan uppskriftina.
  • Hafið allt hráefnið tilbúið áður en þið byrjið.

Hráefni

  • Allar uppskriftir miða við meðalstærð af eggjum, ávöxtum og grænmeti nema annað sé tekið fram.
  • Ég nota sætta sojamjólk (með eplasafa) en ef þið notið ósætta sojamjólk (eða aðra mjólk) er gott að bæta eins og 0,5-1 tsk af agavesírópi við uppskriftina (ef ykkur finnst bragðið mega vera sætara).
  • Ef ekki er tekið fram að um ferskt krydd/kryddjurt er að ræða, notast ég við þurrkað (t.d. malaðan og þurrkaðan chili pipar í staðinn fyrir ferskan chili pipar).
  • Ef ekki er tekið fram að um ferskar döðlur sé að ræða, nota ég þurrkaðar. Sama á við um aprikósur.
  • Ég nota kókosolíuna fljótandi í uppskriftum nema annað sé tekið fram. Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu. Á salöt og í það sem ekki er hitað er gott að nota ólífuolíu, hnetuolíur, avocado olíu o.fl.
  • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
  • Ég nota dökkt súkkulaði (upp fyrir 70% kakóinnihald) í flestar uppskriftir nema annað sé tekið fram.
  • Athugið að dökkt súkkulaði getur innihaldið mjólk, lesið ávallt innihaldslýsingu ef þið eruð með óþol/ofnæmi.
  • Ég nota barnamat í kökubakstur o.fl. frá Hipp Organic, Organix, Holle og Babynat. Í staðinn fyrir barnamat má nota eplamauk (enska: Apple sauce) úr heilsubúð eða heilsudeildum matvöruverslana.
  • Í staðinn fyrir nýmjólk, léttmjólk, fjörmjólk eða undanrennu getið þið notað haframjólk, sojamjólk, hrísmjólk eða möndlumjólk.
  • Ef þið notið ekki jógúrt, AB mjólk eða súrmjólk getið þið blandað mjólkinni sem þið notið saman við 1 mtsk sítrónusafa og látið standa á borðinu þangað til hún fer að mynda kekki (í um 15 mínútur).
  • Ef þið finnið aðeins saltaðar pistachiohnetur er gott að skola þær upp úr köldu vatni í nokkrar mínútur og þerra svo með þurrku.
  • Ef þið finnið aðeins sólþurrkaða tómata í olíu má annað hvort þerra olíuna með eldhúsþurrku en einnig hef ég notað þessa aðferð: Setjið sólþurrkuðu tómatana í sigti og hellið sjóðandi heitu vatni yfir þá (um 500 ml eða svo). Látið renna vel af og þerrið með þurrku.
  • Í mörgum uppskriftum má nota vel þroskaða peru eða vel þroskað mango í staðinn fyrir banana.

Tól og tæki í eldhúsið

  • Allar uppskriftir miðast við baksturofn með blæstri. Ef þið notið ekki slíkan ofn skuluð þið baka við um 10-20°C hærri hita.
  • Ég nota Kitchenaid hrærivél, blandara og matvinnsluvél og Philips töfrasprota. Það er þó ekki nauðsynlegt að eiga dýr tæki en vönduð tæki endast auðvitað betur. Það er nauðsynlegt fyrir mig að eiga góð tæki þar sem ég geri gríðarlegt magn af mat. Ég var lengi að safna mér fyrir tækjunum en þau voru þess virði. Þið komist samt vel af með ódýrari tæki og má fá fínar matvinnsluvélar og blandara fyrir ágætt verð í heimilistækjabúðum. Það er gott að hafa í huga að ég gerði um 400 uppskriftir á vefnum mínum áður en ég eignaðist Kitchenaid. Þar áður var ég að nota matvinnsluvél sem kostaði 2000 krónur og hoppaði um allt borð ef ég malaði t.d. hnetur! Athugið að áferðin á því sem þið útbúið gæti verið grófari en uppskriftin segir til um en þá má aðallega kenna um bitlausu blaði. Athugið hvort að þið getið látið skerpa blaðið og þá vinnur vélin betur. Gætið þess einnig að ofhlaða ekki vélina. Ég á einnig ísvél og safapressu en maður kemst þó töluvert langt án þeirra. T.d. getur maður keypt alls kyns tilbúna safa í heilsubúðum og blandað saman og maður getur hrært í ísnum til að brjóta upp ískristallana í staðinn fyrir að eiga ísvél.
  • Eitt sem ég myndi aldrei vilja vera án er eldhúsvog. Ég nota grömm því það er nákvæmasta mælieiningin. Ég myndi ekki reyna að útbúa uppskriftirnar mínar án þess að nota vog. Það má kaupa hræódýra vog í næstu heimilistækja- eða raftækjaverslun.
  • Ég er hrifin af Global hnífum og einnig á ég frábæra japanska hnífa sem ég keypti þar í landi. Góður hnífur er svo mikilvægur í eldhúsið.

Þau tæki og tól sem mér finnst nauðsynlegt að eiga í eldhúsinu:

  • Eldhúsvog
  • Góðir hnífar (litlir og stórir en a.m.k. einn af hvoru)
  • Blandari (helst með glerkönnu)
  • Matvinnsluvél (þeim mun öflugri þeim mun betra en maður kemst af með nokkuð ódýra vél)
  • Töfrasproti
  • Handhrærivél (ekki nauðsynlegt að eiga stóra borðhrærivél að mínu mati)
  • Nokkrar sleikjur með silicon haus (eða mjúkum gúmmíhaus)
  • Silicon muffinsform
  • Brauðform (ekki endilega silicon)
  • Nokkur kökuform úr ryðfríu járni&; (ferkantað, kringlótt kökuform stórt, miðlungs og lítið)
  • Nokkrir pottar (stór, miðlungs og lítill)
  • Nokkrar pönnur (stór og miðlungs)
  • Stórar og litlar skálar
  • Skerbretti (ég nota alltaf eitt lítið fyrir lauk/hvítlauk, eitt fyrir fisk, eitt fyrir kjúkling og svo eitt fyrir hnetur, grænmeti o.fl.). Það má líka nota bara eitt skerbretti og þvo á milli en ég myndi þá skera laukinn á diski svo hann smiti ekki út í annað sem þið eruð að matreiða. Ég þoli ekki laukbragð af mat sem á ekki að innihalda lauk.
  • Mælikanna
  • Stórt fíngata sigti
  • Dósaopnari
  • Grænmetisflysjari
  • Kökukefli (ég nota líka oft stóra glerflösku)
  • Ískúluskeið (lítil eða miðlungsstór), nota hana svo, svo mikið en er ekki algjörlega nauðsynleg
  • Aðra hluti (t.d. hvítlaukspressu, eplakjarnahreinsi, avocadohníf, melónuskeið o.fl.) er gott/gaman að eiga en ekki nauðsynlegt til að útbúa hollan og góðan mat!