Fyrir smáfólkið
Það er ekkert vit í því að vera með uppskriftavef með uppskriftum að hollum mat ef ekkert er í boði fyrir minnsta fólkið! Eða það finnst mér að minnsta kosti því við erum jú fyrirmyndirnar og setjum grunninn að lífinu með öllu okkar atferli um leið og börnin koma í heiminn. Það á líka við um mat. Þó að börnin fái móðurmjólkina (í flestum tilvikum) nánast eingöngu fyrstu 6 mánuði ævinnar þá eru börnin eins og svampar varðandi umhverfi sitt og eru snemma byrjuð að meðtaka lykt, hljóð og áferð. Þó að ungbörn viti ekki hvað indverskur matur eða soðin ýsa er, finna þau samt lyktina af fiskinum, grænmetinu, kryddunum o.s.frv. Eftir 6 mánaða aldurinn (sum reyndar aðeins fyrr) eru mörg börn farin að smakka grauta, flest byrja á hrísgraut eða maísgraut og svo fara þau að fá eplagraut eða perugraut og jafnvel eitthvað meira. Um 9 mánaða mega þau fá svolítið grófari fæðu (með litlum bitum í mauki) en upp úr 12 mánaða eru flest börn komin með nokkrar tennur og þá er um að gera að leyfa þeim að bíta sig t.d. í gegnum litla kjötbita, fiskbita og grænmetisbita. Þetta eru spennandi tímar, því get ég lofað ykkur. Það er líka talað um að eftir því sem börn fá fjölbreyttari fæðu á fyrsta ári, því minna matvönd verða þau síðar meir.
Mér finnst frábært (og sjálfsagt) að foreldrar búi til mat fyrir börnin sín því þannig er þeim gefinn góður grunnur fyrir lífið. Þannig er líka betra að fylgjast með alls kyns fæðuofnæmi því foreldrarnir vita jú nákvæmlega hvað er verið að gefa börnunum og vita allt um innihaldið. Það er afskaplega gefandi að upplifa ungbörn samþykkja mat sem maður býr til sjálfur. Það er fátt skemmtilegra heldur en þegar börn byrja að umla „mmmmmmm”. Það er einfaldara en maður heldur að útbúa mat fyrir ungbörn því þrátt fyrir að maður hafi engan tíma aflögu eftir að nýr einstaklingur er kominn á heimilið þá er yfirleitt hægt að taka frá nokkrar klukkustundur kannski yfir helgi eða þegar einhver getur setið hjá barninu. Þá er um að gera að nýta tímann og útbúa helling af mat í einu og frysta til síðari tíma. Börnin hafa afskaplega litla þolinmæði þegar kemur að því að bíða eftir mat og þess vegna er ég yfirleitt búin að útbúa mat í frystinn með góðum fyrirvara og hef matinn tilbúinn í ísskápnum fyrir næsta dag og á þá aðeins eftir að hita hann upp.
Ráðleggingar að þessum flokki fékk ég frá vinkonum mínum Elvu Brá og nöfnu minni Sigrúnu Ásu en þær útbjuggu einnig sjálfar til mat fyrir sín börn. Ég hef svo að sjálfsögðu gert ótal tilraunir á eigin Afkvæmi! Alma María Rögnvaldsdóttir hjúkrunarfræðingur var einnig svo ljúf að lesa yfir textann með tilliti til næringar o.fl. Ef þið hafið einhverjar spurningar varðandi fæðu, fæðuofnæmi eða óþol eða ef barnið tekur illa við mat o.s.frv. er best að tala við hjúkrunarkonu eða lækni í ungbarnaverndinni.
Með tíð og tíma mun ég svo bæta inn fleiri uppskriftum og ef þið eigið einhverjar góðar og hollar uppáhaldsuppskriftir fyrir krílin væri gaman að fá þær frá ykkur. Hafið í huga að þessar uppskriftir eru tillögur bæði hvað varðar aldur, fæðusamsetningu og skammtastærð. Öll börn eru mismunandi, sum þurfa meira, önnur minna og börn eru misjafnlega fljót að samþykkja fasta fæðu. Þau eru einnig misjafnlega fljót að samþykkja nýtt bragð. Það er um að gera að gera tilraunir og prófa sig áfram. Best er að kynna einungis eina fæðutegund í einu í nokkra daga áður en fæðutegundum er blandað saman. Til dæmis væri gott að gefa perugraut í 3 daga, svo bananagraut eða eplagraut í 3 daga og ef ekkert ofnæmi er til staðar má blanda fæðutegundunum saman.
Sveskju- og perumauk
Fyrsta maukið sem börnin fá, ætti helst ekki að vera sveskjumauk þar sem það getur verið of gróft í magann og getur verið hæg&e
Sveskjumauk
Þetta mauk er afar hollt og gott. Lítil börn eru yfirleitt mjög hrifin af sveskjum en þess þarf að gæta að þau séu vel maukuð.
Sætar kartöflur og spergilkál
Sætar kartöflur eru yfirleitt mjög vinsælar hjá yngstu sælkerunum. Þær eru auðmeltar, góðar og sætar og innihalda fullt af vítamínum.
Sætar kartöflur, spergilkál, spínat og avacado
Til að koma spínati ofan í litlu krílin getur stundum þurft að dulbúa það enda er það svolítið rammt og bragðsterkt svona eitt og sér.
Tvenns konar mauk: Spergilkál og sæt kartafla með hrísmjöli
Þegar búið er til mikið magn af maukuðu grænmeti í einu er um að gera að prófa sig áfram með hráefni og hlutföll.