Detox uppskriftir
Detox þýðir eiginlega afeitrun. Ég myndi samt frekar kalla detox hreingerningu en svo að því sé haldið til haga, þá hreinsar matur ekki nokkurn skapaðan hlut. En okkur líður kannski betur á því að létta mataræðið svolítið í janúar eins og gengur og gerist hjá mörgum og fyrir ykkur sem eruð í því, set ég þessar uppskriftir inn.
Ég er ekki strangtrúuð í svona detox-rmálum og er hrifnari af því að líkaminn aðlagist hollu mataræði dags daglega án aukaefna, bragðefna, litarefna o.s.frv. Ég borða svo til sama matinn allan ársins hring. Mér finnst þó samt gott öðru hverju að skera nokkuð á mjólkur- og kornvörur, hnetur og sojavörur í nokkra daga og auka þeim mun meira ávexti, grænmeti, tærar súpur og heimatilbúið te og ferska ávaxta- og grænmetissafa. Ekki misskilja mig samt...það er ekki hægt að tappa af aukaefnum í líkamanum með því að svolgra engiferte!!! Málið er aðeins flóknara en svo og það er auðvitað alltaf best að huga að góðri og fjölbreyttri næringu.
Flestum líður yfirleitt vel eftir að hafa einfaldað og létt mataræðið svolítið og fólki finnst það vera einhvern veginn léttara á sér eftir á. Öllu má þó ofgera og ekki er mælt með söfum eingöngu, fyrir þá sem eru heilsuveilir fyrir, og ekki heldur fyrir börn eða ófrískar konur. Ekki er heldur mælt með því að drekka safa eingöngu í langan tíma í senn þar sem líkaminn fer í föstuástand þ.e. hann fer að búa sig undir hungursneyð og það fer aldrei vel með líkamann að rugla hann svoleiðis. Það er einnig ákaflega mikilvægt að ráðfæra sig við lækni eða næringarfræðing ef á að fara breyta mataræðinu eitthvað að ráði.
Athugið að uppskriftirnar eru misvel til þess fallnar að vítamínvæða okkur, en margir byrja nýja árið á því að gera svolitla tiltekt hjá sér, bæði andlega og líkamlega og það er ekki verra að byrja á einföldu og léttu mataræði.
Ég vona að þessar hugmyndir nýtist ykkur. Uppskriftaflokkurinn verður opinn fram í febrúarmánuð.

Gulrótar-, ananas og rúsínusalat frá Kenya
Þetta salat hef ég fengið oft og mörgum sinnum í Kenya. Ég hef líka fengið salatið í Tanzaníu enda kannski ekki skrýtið þar sem ananas vex á báðum stöðum og er mikið notaður í matargerð.

Hálsbólgudrykkur
Ég krækti mér í svæsna hálsbólgu um daginn (sem er óvenjulegt því ég verð aldrei lasin) og vantaði eitthvað til að mýkja hálsinn sem var eins og sandpappír af grófleika 12.

Heit bláberja- og vanillusósa
Dásemdarsósa sem er (ég get svo svarið það) góð út á allt, hvort sem það er ís, í drykki (smoothie), yfir kökur, í jógúrt eða bara ein og sér upp úr pottinum.

Hörfræskex
Hörfræ eru alveg sérstaklega holl. Þau eru trefjarík og losa um í pípulögninni okkar þannig að ekkert ætti að stíflast! Hörfræ eru einnig mikilvæg í baráttunni við að sporna gegn krabbameini t.d.

Hreinsandi peru-, gulrótar- og engifersafi
Þennan hreinsandi (detox) drykk er gott að gera í safapressu en fyrir þá sem eiga ekki slíka græju er alveg hægt að mauka perurnar í blandara en þá er drykkurinn aðeins þykkari.

Hreinsandi sítrusdrykkur
Þessi drykkur minnti mig alveg svakalega á Afríku þegar ég var að smakka hann til og sérstaklega á Kenya en þar eru appelsínur eilítið súrari en þessar sem við eigum að venjast á Íslandi.

Járnríkur aprikósudrykkur
Þurrkaðar aprikósur innihalda helling af járni og appelsínusafinn hjálpar til við upptöku járnsins í líkamanum.

Járnríkur og hreinsandi vítamíndrykkur
Ég er sko ekkert að ýkja með því að nefna þennan drykk vítamíndrykk því hann er stútfullur af hollustu.

Járnríkur sellerí-, rauðrófu- og gulrótarsafi
Þessi kemur beint af beljunni svo að segja eða réttara sagt úr bókinni Innocent smoothie recipe book: 57 1/2 recipes from our kitchen to yours og er ein af mínum uppáhalds.

Jarðarberja- og vatnsmelónudrykkur
Þessi drykkur er í miklu uppáhaldi og það er sérstaklega áferðin sem mér finnst svo frábær því hún er loftkennd og freyðandi.

Jarðarberjahristingur
Vissuð þið að til eru 600 afbrigði af jarðarberjum? Þetta var fróðleikskorn dagsins í boði CafeSigrun!

Jólaglögg (óáfengt)
Ég smakkaði í fyrsta skipti jólaglögg (óáfengt að sjálfsögðu) í jólaboði hjá yfirmanni mínum í verslun sem ég vann í með skóla í mörg ár. Ég gleymi því ekki hvað mér fannst jólaglöggið gott.

Kachumbari (tómat- og rauðlaukssalat)
Uppskriftin kemur frá Lucy Mwangi mágkonu minni sem er frá Kenya.

Kiwi- og límónusafi
Þegar Jóhannes smakkaði þennan drykk sagði hann: „Þennan drykk væri ég til í að kaupa oft”.

Kjúklingabaunaspírur
Kjúklingabaunaspírur eru æðislega góðar og komu mér reglulega á óvart. Það er auðveldast að spíra þær af þeim baunum sem ég hef prófað og þær geymast ágætlega í kæli.

Klettasalat með rauðrófum og parmesan
Ég fékk svipað salat á krá einni í London sem er þekkt fyrir góðan mat enda er eigandi staðarins enginn annar en Gordon Ramsay.

Kókos- og hvítlauksmauk (coconut and garlic chutney) frá Tanzaníu
Eða eiginlega ekki frá Tanzaníu heldur frá Indlandi því kókosmauk er mikið notað þar. Ég smakkaði þetta meðlæti hins vegar á indverskum veitingastað í Moshi, Tanzaníu.

Kókosbananar með afrískum áhrifum
Afbragðsgott sem meðlæti með krydduðum mat t.d. indverskum og thailenskum en einnig hentar hann vel með bragðmiklum afrískum mat.

Krækiberja- og engiferdrykkur
Þessi drykkur er ferskur og frísklegur og upplagður á haustin þegar maður á krækiber.

Kúrbítshummus
Þessi uppskrift er úr Rawvolution bókinni minni sem er hráfæðisbók. Hummusinn er léttari en hefðbundinn hummus enda er notaður kúrbítur (zucchini, courgette) í stað kjúklingabauna.

Límónu- og macadamiakökur
Macadamiahnetur minna mig alltaf á Afríku og þá sérstaklega Kenya því í hvert skipti sem ég fer þangað kaupi ég hrúgu af macadamiahnetum enda eru þær ódýrar þar.

Mango- og engiferssúpa frá Masai Mara
Þessa súpu fékk ég hjá stúlku sem heitir Margaret Ngugi en hún er kokkur á Mara Simba Lodge í Masai Mara í Kenya en þar dvaldi ég í nokkra daga í febrúar 2007.

Melónu-, peru- og ananasdrykkur
Þessi drykkur (smoothie) er einstaklega nærandi og hreinsandi því bæði melónur og perur eru trefjaríkar. Góður drykkur fyrir sál og líkama!

Möndlu- og agúrkusalat
Þetta salat er alveg hreint dæmalaust hollt og hreinsandi. Það er beinlínis barmafullt af vítamínum, próteinum, kalki, trefjum, steinefnum, andoxunarefnum og ég veit ekki hvað.

Mung baunaspírur
Þessar hefðbundnu baunaspírur sem maður kaupir t.d. í austurlenskan mat eru yfrleitt mung baunir. Það er auðvelt að láta þær spíra og þær eru afar bragðgóðar.