Fiskisúpa frá Miðjarðarhafinu

Þessi súpa er hrikalega bragðgóð, seðjandi og ótrúlega holl. Frábær vetrarsúpa því maður hitnar alveg í gegn við að borða hana. Súpan hentar vel fyrir þá sem hafa glúteinóþol og mjólkuróþol. Mjög einfaldur réttur, upplagður í miðri viku, sérstaklega ef maður á einhverja fiskiafganga og rækjur í frystinum.


Litrík fiskisúpa frá Miðjarðarhafi

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta

Fiskisúpa frá Miðjarðarhafinu

Fyrir 2-3

Innihald

 • 1 laukur
 • 2 hvítlauksrif
 • 100 g sveppir
 • 1 tsk kókosolía
 • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 1 tsk svartur pipar
 • 0,5 msk karrí
 • 0,5 tsk turmeric
 • 200 g tómatar, saxaðir (ferskir eða úr dós)
 • 1 msk tómatmauk (puree)
 • 300 ml vatn
 • 1 gerlaus grænmetisteningur
 • 5 lárviðarlauf
 • 250 g blandaðir sjávarréttir eða annað fiskmeti
 • 75 g kræklingur (úr dós)
 • 1 stór lófafylli steinselja, söxuð
 • 1 tsk fiskisósa (Nam Plah)

 

Aðferð

 1. Afhýðið lauk og hvítlauk og saxið smátt.
 2. Skerið sveppina í þunnar sneiðar.
 3. Hitið kókosolíu í potti og steikið lauk, hvítlauk og sveppi í nokkrar mínútur. Bætið við vatni ef þarf meiri vökva.
 4. Kryddið með salti, pipar, karríi, og turmeric
 5. Setjið tómata, tómatmauk, fiskisósu, vatn, grænmetistening og lárviðarlauf út í pottinn.
 6. Látið suðuna koma upp í og látið malla í nokkrar mínútur.
 7. Setjið frosnu sjávarréttina útí (eða fiskinn í litlum bitum) og sjóðið í 3-4 mínútur. Bætið kræklingnum út í (ásamt helmingnum af vökvanum úr dósinni) og hita að suðu.
 8. Saxið steinselju yfir súpuna (og setjið um 1 msk í hvern disk áður en súpan er borin fram).
 9.  

Gott að hafa í huga

 • Það er meiriháttar að hafa nýbakað snittubrauð með súpunni.
 • Í staðinn fyrir blandaða sjávarrétti má nota 100 g beinlausan og roðflettan fisk og 150 g hörpuskel og rækjur.

Ummæli um uppskriftina

Steinunn
08. maí. 2011

Hvað áttu við með 250 g blandaðir sjávarréttir?

sigrun
09. maí. 2011

hmmm akkúrat það þ.e. 250 grömm af blönduðum sjávarréttum. Það þýðir að þú notar þá sjávarrétti sem þú vilt nota og 250 grömm af þeim. Það getur verið fiskur, rækjur, skelfiskur o.s.frv., o.s.frv.