Fiskiréttur frá Goa

Þetta er frekar einfaldur indverskur fiskiréttur. Goa er eitt af „ríkjum” Indlands sem að Portúgalar réðu einu sinni yfir. Það skiptir svo sem engu máli, rétturinn er fínn og hollur. Ekki láta hráefnið hræða ykkur en best er að nálgast það í austurlenskum matvörubúðum. Ef þið finnið ekki curry leaves er best að sleppa þeim (það kemur ekkert annað í staðinn). Ef þið finnið ekki cuminfræ og corianderfræ má nota malaðar útgáfur af fræjunum. Ef þið eruð viðkvæm fyrir chili, skuluð þið bara nota einn í staðinn fyrir þrjá.


Ljúffengur, einfaldur og hollur fiskiréttur frá Indlandi

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta

Fiskiréttur frá Goa

Fyrir 4-5

Innihald

 • 35 g gróft kókosmjöl, þurrristað á pönnu
 • 2 hvítlauksrif, afhýtt og saxað gróft
 • 2 laukar, afhýddir og annar saxaður gróft, hinn smátt
 • 3 litlir chili pipar (rauðir), saxaðir gróft
 • 1 msk ferskt engifer, rífið smátt
 • 2 tsk corianderfræ
 • 2 tsk cumin fræ (ekki kúmen)
 • 0,5 tsk turmeric
 • 1 msk tamarisósa
 • 75 ml kalt vatn
 • 1 msk kókosolía
 • 2 tómatar, saxaðir (eða 200 g úr dós)
 • 8 curry leaves (má sleppa)
 • 175 ml sjóðandi heitt vatn
 • 1 gerlaus grænmetisteningur 
 • 300 ml kókosmjólk
 • 1 kg ýsa, steinbítur, skötuselur, lúða (eða þorskur) skorin í bita

Aðferð

 1. Afhýðið hvítlauksrif og lauk og saxið gróft.
 2. Skerið chili pipar langsum, fræhreinsið og saxið gróft.
 3. Afhýðið engifer og rífið smátt.
 4. Hitið djúpa og stóra pönnu í meðalhita. Setjið kókosmjölið á pönnuna og hitið í 10-20 sekúndur eða þangað til það fer að ilma.
 5. Maukið saman í matvinnsluvél; kókosmjöl, hvítlauk, chili, coriander- og cuminfræ, turmeric, tamarisósu, engifer og gróft saxaða laukinn. Maukið í um 5 sekúndur. Bætið kalda vatninu út í og látið vélina vinna í um 1 mínútu eða þangað til allt er vel blandað saman.
 6. Hitið kókosolíuna (ásamt smá vatni ef þarf) á stórri pönnu. Hitið smátt saxaða laukinn þangað til hann er orðinn örlítið gulleitur (í um 5 mínútur).
 7. Bætið kókosmjölsblöndunni úr matvinnsluvélinni út á pönnuna og hitið í nokkrar mínútur eða þangað til kemur góð lykt. Hrærið reglulega.
 8. Bætið tómötunum, curry leaves, grænmetisteningnum og sjóðandi heita vatninu út á pönnuna.
 9. Látið malla, ekki með lokinu á, í um 10 mínútur eða þangað til sósan fer að þykkna.
 10. Bætið kókosmjólkinni út í.
 11. Roð- og beinhreinsið fiskinn og skerið hann í bita. Setjið fiskinn á pönnuna og látið hann malla við vægan hita í um 10 mínútur eða þangað til fiskurinn er orðinn hvítur og laus í sér.

Gott að hafa í huga

 • Berið fram með byggi, hýðishrísgrjónum, chapati brauði og raita gúrkusósu o.s.frv.
 • Curry leaves fást yfirleitt í verslunum sem selja austurlenskar matvörur
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
 • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
 • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
 • Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósan inniheldur hveiti.

Ummæli um uppskriftina

Gudlaughj
06. júl. 2011

Þessi fiskréttur er meiriháttar - einn sá besti sem ég hef borðað og 10 ára dóttir mín lýsti því yfir að þetta væri nýi uppáhaldsmaturinn hennar :o)
Ég bætti reyndar aðeins af af kryddi, t.d. Garam Masala og extra karrý.
Það þarf síðan að passa að þurrka fiskinn vel áður en honum er bætt út í svo það fari ekki vatn úr honum í sósuna og þynni hana mikið.

sigrun
07. júl. 2011

Gaman að heyra og góð ábending þetta með vökvann!! Mér þykir þó sérstaklega vænt um að dóttur þinni hafi líkað rétturinn því börnin eru jú oftast hörðustu gagnrýnendurnir!!!!

Soffia Magnusdottir Dayal
29. feb. 2012

Sæl Sigrún, datt niður á síðuna þína og finnst hún frábær..er sjálf alveg á kafi í hollri og góðri fæðu og finnst gaman að prófa nýtt..hlakka til að prufa alla girnilegu uppskriftirnar þínar.. :) Vildi bara vinsamlegast benda á að Goa er ekki eyja rétt fyrir utan Indland, Goa er eitt af "ríkjunum" (State) á Indlandi - lítið en fallegt og mjög gaman að heimsækja, með fallegri strandlengju, dásamlegum fiski, og eins og þú bendir réttilega á, var undir Portugölum all lengi..kær kveðja frá Bombay, Soffía :)

sigrun
29. feb. 2012

Sæl Soffía og takk fyrir ábendinguna. Rétt skal vera rétt og ég er búin að leiðrétta textann :

Kv.

Sigrún

gestur
16. okt. 2012

Sæl Sigrún
Takk fyrir þessa síðu nota hana mikið.
Skil samt ekki þegar þú setur í sviga fyrir aftan cumin(ekki kúmen) því það er alveg sama hvað ég leita þá er cumin alltaf kúmen.

sigrun
17. okt. 2012

Sjá upplýsingar t.d. á þessarri síðu: http://www.noatun.is/frodleikur/kryddskapurinn/1076-broddkumen