Fiskibollur

Þessar gömlu góðu, íslensku fiskibollur svíkja engan og líklega eru flest íslensk heimili með einhvers konar fiskibollur á boðstólum. Hins vegar svíkja gömlu, góðu fiskibollurnar sem steiktar eru í smjöri, heilsuna. Ég hef aldrei á ævinni steikt mat sem maður getur auðveldlega bakað og smjör hef ég aldrei á ævinni keypt né notað. Það verður kannski ekki sama áferð á bökuðum fiskibollum, en steiktur, brasaður matur er fyrir mér ekki mannamatur. Um það eru svo sem skiptar skoðanir he he. Þessi máltíð er ódýr (ef maður kaupir frosinn fisk) og er holl, próteinrík og létt/fitulítil. Það er upplagt að gera svolítið magn í einu, baka og svo frysta nokkrar bollur saman til að borða síðar.

Athugið að þið þurfið matvinnsluvél til að útbúa þessa uppskrift.


Gömlu, góðu íslensku fiskibollurnar, nema hollar

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur

Fiskibollur

Gerir 12-15 bollur

Innihald

  • Fjórðungur laukur, afhýddur og saxaður gróft
  • Fjórðungur blaðlaukur, saxaður gróft (má nota lauk í staðinn)
  • 1 hvítlauksrif, afhýtt og saxað gróft
  • 450 g hvítur fiskur t.d. ýsa (ef frosinn, afþíðið þá)
  • 0,5 tsk ferskt engifer, saxað smátt (má sleppa)
  • 1 egg
  • 50 ml léttmjólk
  • 1 tsk kókosolía
  • 3 msk kartöflumjöl (eða spelti ef þið þolið glútein)
  • 1 tsk pipar
  • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt

Aðferð

  • Ef fiskurinn er frosinn þarf að afþýða hann og láta vatnið renna af.
  • Afhýðið lauk, hvítlauk og engifer og saxið gróft.
  • Saxið blaðlaukinn gróft.
  • Roðflettið og beinhreinsið fiskinn og skerið gróft.
  • Setjið laukinn, hvítlaukinn, engiferið og blaðlaukinn í matvinnsluvélina og blandið í 10 sekúndur.
  • Setjið fiskinn og eggið út í og maukið ágætlega (þannig að hann losni vel í sundur).
  • Bætið kartöflumjölinu, saltinu og piparnum saman við og blandið í nokkrar sekúndur eða þannig að úr verði eins konar deig.
  • Bætið mjólkinni saman við eins og þurfa þykir, deigið ætti ekki að vera of blautt.
  • Bætið kókosolíunni út í.
  • Setjið allt í stóra skál og hrærið vel.
  • Mótið bollur með matskeið (gott að vera í plasthönskum og dýfa skeiðinni í vatn inn á milli).
  • Setjið bökunarpappír á bökunarplötu.
  • Raðið bollunum á plötuna.
  • Bakað í ofni við 180° C í um 15-20 mínútur.
  • Snúið við og bakið í 10-15 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Berið fram með góðu salati, byggi eða hýðishrísgrjónum og tamarisósu.
  • Bollurnar má geyma í kæli og hita daginn eftir og upplagt er að taka þær með í nestið.
  • Nota má steinbít, þorsk eða lúðu í staðinn fyrir ýsu.
  • Nota má hrísmjólk, möndlumjólk, sojamjólk eða haframjólk í staðinn fyrir léttmjólk.

Ummæli um uppskriftina

gestur
03. jan. 2011

Hversu mikilvægur er hvítlaukurinn í þessari uppskrift? Má sleppa honum eða er skynsamlegt að bæta öðru kryddi við í staðinn?

sigrun
03. jan. 2011

Hann er alls ekki mikilvægur og það gerir ekkert til að sleppa honum :) Hann er bara 'auka' krydd...

Kv.

Sigrún

Halla Sigurlín Gunnlaugsdóttir
05. jan. 2011

Sæl og blessuð
Ég skoða mikið síðuna þín og er mikill aðdáandi. Mér finnst þetta frábært allt saman. Samt langar mig að spurja þig um smá atriði. Hvað kallarðu bökunarsóda? Er það venjulegt natrón eða notarðu vínsteinslyftiduft (sem er hveitilaust)?
Annað, þú talar um í einni uppskriftinni hér (fiskibollur, léttmeti fyrir buddu og maga) að þær séu glúteinlausar en er ekki alvitað að spelt inniheldur glutein þó það sé æskilegra og betra en hveiti. Mér finnst stundum koma upp mótsagnir í umræðu um mat og langar þá að fræðast meira.
Takk fyrir allar frábæru uppskriftirnar og gleðilegt ár með fleiri góðum uppskriftum.

sigrun
06. jan. 2011

Sæl Halla

Bökunarsódi er bara 'baking soda' og er eitt af innihaldsefnunum í vínsteinslyftidufti en kemur ekki í staðinn. Það er náttúrulegt efni og ekkert hættulegt. Bökunarsódi er það sama og natron (þ.e. svo lengi sem natronið er hreint). Ég nota vínsteinslyftiduft í allt sem krefst lyftidufts en eins og t.d. í sumar smákökur þá þarf að nota bökunarsóda (en ekki vínsteinslyftiduft). Hvoru tveggja er hveitilaust.

Fiskibollurnar eru glúteinlausar ef þú notar kartöflumjöl (og það er talið fyrst upp í innihaldslýsingunni). Spelti inniheldur glútein (en öðruvísi glúteinsamsetningu en t.d. hveiti) og fyrir þá sem þola glútein þá má nota spelti í staðinn og þess vegna tel ég það upp þar sem ekki kannski allir eiga kartöflumjöl við hendina. Sumir sem þola ekki glútein þola samt spelti en ég merki þær uppskriftir að sjálfsögðu ekki sem glúteinlausar. Stundum set ég spelti með í innihaldslýsingu og tek þá fram að það sé fyrir þá sem þola glúteinið.

Kv.

Sigrún

gestur
27. júl. 2011

Sæl Sigrún

Ég er með þessar í ofninum núna :)
En mig langar til að spyrja þig, hefur verið að frysta bollurnar?
Ef svo er hvernig er þá best að hita þær upp aftur?

sigrun
27. júl. 2011

Já já ég er frysti-óð...frysti allt sem ég kem höndum yfir :)

Það er best að láta bollurnar þiðna og hita þær svo upp aftur....180°C og 15 mínútur ættu að duga en bakaðu aðeins lengur ef þú telur þurfa. Taktu eina og skerðu hana í tvennt...ef hún er ekki sjóðandi heit, hitaðu þá í 5-10 mín í viðbót.

Kv.

Sigrún

Margrét Árnadóttir
19. mar. 2012

Hæhæ Sigrún :)

Var að spá í að gera þessa uppskrift en langar rosalega að hafa líka einhverjar ferskar kryddjurtir með í farsinu, hefurðu prufað einhverjar og þá hverjar?

Unnur Ósk
08. apr. 2012

Sæl

Mig langar að vita hvort það er einhver séns á að skipta egginu út fyrir eitthvað annað í þessari uppskrift (fiskibollur)

Kv. Unnur

sigrun
09. apr. 2012

Sæl Unnur

Þú getur notað eggjalíki (held það heiti það, egg-replacer) sem fæst í heilsubúðum en að öðru leyti er ekki hægt að nota neitt sem 'límir' innihaldið svona vel saman.....

Fjóla Margrét
08. okt. 2012

Sæl Sigrún

Gerði þessar í kvöld og þær slógu í gegn hjá allri fjölskyldunni :-) takk fyrir að deila þessum frábæru uppskriftum með okkur :-)

sigrun
09. okt. 2012

Gaman að heyra Fjóla Margrét og takk fyrir að deila með okkur :)

gestur
20. jan. 2014

Sæl Sigrún
Er með þessar bollur í ofninum en prófaði þær í fyrsta sinn í síðustu viku. Þær eru barasta frábærar!
Þessi vefur þinn er orðinn ómissandi við skipulagningu matseðlana á heimilinu. Kærar þakkir fyrir óeigingjarnt starf því þetta er jú mikil vinna!

sigrun
20. jan. 2014

KÆRAR þakkir fyrir falleg orð, þau glöddu mig mikið :)

Asta Hafthorsdottir
24. jan. 2014

ÞArf fiskurinn að vera frosinn ?

sigrun
24. jan. 2014

Góð spurning en nei frosinn fiskur er bara ódýrastur :) Ég er búin að breyta orðalaginu núna þannig að þetta sé ekki villandi og að fólk haldi að það verði að nota frosinn fisk.

ellen antons
16. apr. 2015

sæl Sigrún
er glútenlaust hveiti nothæft, hvaða munur er á því og "venjulegu"?
Takk fyrir fínar uppskriftir

sigrun
16. apr. 2015

Já það er vel nothæft. Það gefur bindingu og dregur aðeins úr raka fisksins svo hráefnið haldist betur saman :) Hveiti gefur meiri teygjanleika svona almennt en glútenlaust gengur líka. Gæti gefið aðeins öðruvísi bragð en hveiti, fer eftir tegundinni sem þú notar. Vona að þetta hjálpi.

Kveðja Sigrún

 

 

ellen antons
16. apr. 2015

takk Sigrún

meiriháttar uppskrift

auðvelt að matreiða í ofni, ég var alltaf að steikja á pönnu!

Aftur. TAKK

sigrun
16. apr. 2015

Gaman að heyra Ellen og takk fyrir að deila með okkur ;)

Kristín Bárðardóttir
10. júl. 2015

Sæl Sigrùn
Èg er að fara að halda mini ættarmòt og mig
langaði að bjóða uppá litlar bollur bæði fiski og hakk
var búin að hugsa að hafa kalda sósu með hvernig helduru að
þessar bollur væru kaldar

Kveðja Kristín

sigrun
11. júl. 2015

Sæl Kristín

Þær eru mjög bragðgóðar kaldar dagsgamlar en eru mjúkar ólíkt þeim sem eru steiktar (sem fá harða fituskorpu utan um sig). Í bókinni minni sem kemur út í haust verða kjúklingabollur sem ég get leyft þér að prófa líka, þær eru að mér skilst prýðlegur pinnamatur. Sendu mér tölvupóst ef þú vilt prufa: sigrun@cafesigrun.com

Kristín Bárðardóttir
13. júl. 2015

Sæl Sigrún
Ég væri þakklát fyrir að fá að prufa kjúklingabollurnar´þínar
áttu kanski uppskrift af fiskibollum sem eru harðar að utan
sem ég gæti notað

Kveðja Kristín

sigrun
13. júl. 2015

Sæl Kristín

Hvorki kjúklingabollurnar né fiskibollurnar verða harðar að utan. Til þess þarftu meiri fitu (það þarf þá að steikja bollurnar upp úr olíu). Sendu mér tölvupóst ef þú vilt kjúklingabolluuppskriftina!

Kveðja

Sigrún

Elísabet HH
17. feb. 2017

Sæl Sigrún og takk fyrir frábæran vef og fjölda ljúffengra uppskrifta.
Ég hef gert þetta nokkrum sinnum. Uppskriftin verður stundum svolítið blaut hjá mér þannig að bollurnar haldast illa saman. Má sleppa mjólkinni, eða hefur hún einhverja bindingu með hveitnu? Eða er ég að gera eð vitlaust, mauka of lengi t.d. ? kveðja

sigrun
17. feb. 2017

Sæl Elísabet :)

Það er spurning hvort að þú þurfir nokkuð mjólkina. Ef þú ert með fisk sem er búinn að þiðna gæti verið að hann sé bara hreinlega of blautur, svo eru flökin líka misblaut. Það er líklega best fyrir þig að sleppa mjólkinni og bæta þá í ef þér finnst þurfa? Svo er líka gott að mauka ekki of lengi því annars endar maður með fiskibollusúpu ;)

Vona að þetta hafi hjálpað

Kv.

Sigrún