Eplakaka

Þetta er hollari útgáfa af hefðbundnum sykurleðju-hveiti-smjör eplakökum en stendur engu að síður vel fyrir sínu. Það má nota alls konar epli í kökuna en mikilvægt er að flysja þau. Athugið að ég myl valhnetur (og stundum pecanhnetur) yfir kökuna en þeim má sleppa ef þið hafið ofnæmi. Kakan er glúteinlaus (ef þið notið kartöflumjölið) og inniheldur ekki neinar mjólkurvörur.

Athugið að þið þurfið 23 sm kringlótt, eldfast mót fyrir kökuna.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án hneta

Eplakaka

Gerir eina köku

Innihald

 • 4 sæt, græn eða rauð epli, flysjuð og skorin í litla bita (minni en sykurmola)
 • 1,5 tsk kanill
 • 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
 • 2 egg
 • 2 eggjahvítur
 • 2 msk kókosolía
 • 70 g Rapadura hrásykur (eða kókossykur)
 • 90 g kókosmjöl
 • 1 tsk vínsteinslyftiduft
 • 4 msk kartöflumjöl eða spelti
 • 50 g valhnetur eða pecanhnetur, saxaðar gróft

 

Aðferð

 1. Kjarnhreinsið eplin, flysjið þau og skerið í litla bita.
 2. Saxið hneturnar gróft.
 3. Setjið eplin í eldfast mót (kringlótt um 23 cm). Óþarfi er að smyrja mótið.
 4. Stráið kanil yfir eplin og látið standa í um 15 mínútur.
 5. Blandið saman í skál; eggjum, eggjahvítum, vanilludropum, kókosolíu, kókosmjöli og hrásykri/kókossykri.
 6. Hrærið saman kartöflumjöli og vínsteinslyftidufti og blandið varlega saman við eggjablönduna.
 7. Hellið deiginu varlega og jafnt yfir eplin. Ef deigið er of stíft, blandið þá svolitlu af appelsínu- eða eplasafa (eða sojamjólk) saman við. Ef það er of þunnt bætið þá svolitlu af kartöflumjöli út í. Það ætti að leka í stórum slettum (ekki í bunu) af sleif. Það mun ekki þekja yfirborðið á eplunum 100% en það er allt í lagi, það dreifir úr sér við bakstur.
 8. Dreifið hnetunum yfir.
 9. Bakið við 175°C í 40-45 mínútur.

Gott að hafa í huga

 • Berið kökuna fram heita með vanilluís. Einnig má bera kökuna fram með smá slettu af cashewhneturjóma eða þeyttum rjóma.
 • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
 • Einnig má setja hneturnar í deigið (frekar en að setja þær ofan á).

Ummæli um uppskriftina

Tinna K
04. feb. 2011

átti ekki sykur svo ég setti 50 g agave sýróp í staðinn fyrir sykurinn og jók kartöflumjölið í 8 msk. Soldið gúmmíkennt en alveg ætt, held ég bíði samt með að gera hana aftur þar til ég kaupi sykur;) mæli ekki með agave ef enginn er til sykurinn;)

sigrun
05. feb. 2011

Nei ég myndi ekki mæla með agavesírópi í staðinn fyrir hrásykurinn, agavesírópið verður bara að karamellu í rauninni en hrásykurinn gefur 'krönsjí' áferð sem er það sem við viljum :) Agavesíróp getur komið í staðinn fyrir sykur í mörgum uppskriftum en ekki í þeim sem eiga að vera 'stökkar'.

asdishjalms
21. jan. 2012

Þú tekur ekki fram hvað þú gerir við hneturnar, seturðu þær ofaná eða blandarðu þeim við deigið?

sigrun
21. jan. 2012

Sæl, góður punktur, búin að leiðrétta aðferðarlýsinguna. Þú getur sett hneturnar í deigið eða dreift þeim ofan á.

Kristbjörg
28. feb. 2013

Eplakaka

Hekla
12. mar. 2016

Væri mögulegt að blanda til dæmis bláberjum líka við eplin? Eða semsagt nota þessa uppskrift í einskonar hjónabandssælu og skipta þá út eplum og setja ber. Ég prófaði þessa um daginn og hún var algjör snilld en langar að breyta til. Er hrædd um að hún verði að of miklu mauki kannski.

sigrun
12. mar. 2016

Gaman að heyra :) Já þú gætir alveg notað ber á móti. Það er enginn umframvökvi í uppskriftinni svo hún verður ekki mjög blaut þótt þú notir ber á móti. Í bókinni minni er ég með uppskrift að jarðarberja- og kirsuberjaböku sem er svipuð eplabökunni hér. Að vera eingöngu með ber gerir bökuna aðeins blautari en ef maður leyfir henni að standa aðeins eftir bakstur gufar vökvinn að einhverju leyti upp. Það er sem sagt ekki gott að bera bökurnar fram alveg um leið og þær koma út úr ofninum. Svo ef þig langar í hjónabandssælu þá er uppskrift að hjónabandssælu á vefnum.