Epla- og valhnetubaka

Þessi baka er alveg svakalega holl því hún inniheldur holla fitu (omega 3 fitusýrur) úr valhnetunum sem og prótein, trefjar, flókin kolvetni og annað gott fyrir okkur. Talið er neysla á valhnetum minnki líkur á hjartasjúkdómum sem og fleiri sjúkdómum svo við ættum eiginlega öll að borða svona eins og lúku á hverjum degi (nema ekki þeir sem eru með hnetuofnæmi...það væri ekki svo sniðugt). Bökuna má bera fram kalda en einnig má hita hana í ofni áður en hún er borin fram. Uppskriftin er glúteinlaus og hentar þeim sem eru jurtaætur (þ.e. ef notað er hlynsíróp í stað hunangs).

Athugið að þið þurfið matvinnsluvél og 20 sm kringlótt form fyrir þessa uppskrift.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Vegan

Epla- og valhnetubaka

Gerir eina köku

Innihald

 • 250 g valhnetur 
 • 180 g döðlur, saxaðar gróft
 • 3 sæt epli (græn eða bleik), skræld og sneidd þunnt
 • Safi af 1 sítrónu
 • 500 ml vatn
 • 0,5 tsk kanill
 • 0,25 tsk negull
 • 2 msk hreint hlynsíróp eða hunang (acacia)
 • 125 ml hreinn eplasafi
 • 40 g rúsínur (einnig má nota döðlur)

Aðferð

 1. Setjið valhnetur og döðlum í matvinnsluvél. Blandið í um 40 sekúndur eða þangað til allt er orðið grófhakkað án þess að verða að mauki.
 2. Klæðið 20 sm kringlótt form með bökunarpappír og þrýstið blöndunni ofan í, bæði í botn og upp á hliðar.
 3. Kælið í ísskáp í um klukkutíma.
 4. Kjarnhreinsið eplin og sneiðið frekar þunnt. Setjið í skál.
 5. Blandið vatninu og sítrónusafanum saman og hellið yfir eplin. Látið standa í 10 mínútur.
 6. Sigtið sítrónuvatnið vel frá eplunum.
 7. Setjið eplasneiðarnar á stóra pönnu ásamt kanil, negul, rúsínum, hlynsírópi og eplasafa.
 8. Hitið í um 15-20 mínútur eða þangað til eplin verða frekar mjúk.
 9. Takið eplasneiðarnar og rúsínurnar af pönnunni með götóttum spaða þannig að vökvinn leki af.
 10. Látið vökvann malla á pönnunni í um 5 mínútur við frekar háan hita.
 11. Hellið vökvanum í flösku eða í skál og kælið.
 12. Dreifið eplasneiðunum jafnt yfir botninn á kökunni. Hellið eða penslið vökvanum af pönnunni yfir eplin.
 13. Dreifið aðeins meiri kanil yfir ef þið viljið.
 14. Það má stinga bökunni í ofninn og hita við 100°C í um 20 mínútur.

Gott að hafa í huga

 • Það er gott að bera fram bökuna með hollum vanilluís, cashewhneturjóma eða þeyttum rjóma fyrir þá sem borða slíkt.
 • Nota má pecanhnetur í staðinn fyrir valhnetur.

Ummæli um uppskriftina

Lísa Hjalt
12. des. 2010

mmmmm, man þegar ég gerði þessa fyrst ... er með soft spot fyrir valhnetum, eins og þú veist ;-)

sigrun
12. des. 2010

Þú þarft að fara að endurnýja kynnin við valhneturnar :)