Einföld og fljótleg kaka með carob

Ég er mjög hrifin af kökunum á Grænum kosti (þessi uppskrift er þaðan) því ég borða ekki þessar venjulegu kökur sem eru hlaðnar óhollostu eins og smjöri, hvítum sykri, hvítu hveiti, rjóma osfrv. Oj. Ég hætti að borða kökur þegar ég var 12 ára og ég hafði ekki smakkað neina köku (nema þær sem ég bakaði sjálf) fyrr en ég smakkaði svo á Grænum kosti fyrir mörgum árum og nammi namm hvað hún var góð. Svo fékk ég aðra köku frá Grænum kosti í jólaboði hjá Allý, fyrrverandi vinnuveitanda mínum sem var svo sæt að kaupa köku í jólaglögginu svo ég gæti fengið líka. Kakan var svo góð að ég lofaði mér því að fara að prófa að búa til „hollar" kökur. Nú sem sagt mörgum árum seinna, er ég búin að prófa að búa til margar kökur, misgóðar auðvitað en allar eiga þær það sameiginlegt að vera ekki með hvítum sykri, rjóma, flórsykri, smjöri eða annarri svoleiðis óhollustu. Þær eru kannski hitaeiningaríkar, en í staðinn fullar af vítamínum úr hnetum og ávöxtum. Uppskriftin er birt með góðfúslegu leyfi Sollu.

Athugið að ef þið hafið mjólkuróþol getið þið notað mjólkurlaust carob/súkkulaði en athugið ávallt innihaldslýsingu til að vera viss.

Athugið að þið þurfið matvinnsluvél til að útbúa þessa uppskrift.


Einföld og fljótleg kaka, upplögð í afmæli og fleira

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án eggja

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur
  • Vegan (fyrir jurtaætur)

Einföld og fljótleg kaka með carob

Ein kaka

Innihald

  • 200 g ljóst carob eða súkkulaði (lífrænt framleitt, með hrásykri)
  • 250 g blandaðar hnetur, t.d. cashewhnetur, heslihnetur, möndlur
  • 100 g kókosmjöl
  • 3 hrískökur 
  • 1 banani, vel þroskaður
  • 0,5 tsk kanill

Aðferð

  1. Þurristið hneturnar á heitri pönnu (án olíu) og setjið þær í matvinnsluvél í nokkrar sekúndur eða þangað til frekar gróft malaðar. Setjið í stóra skál.
  2. Þurristið kókosmjölið í nokkrar sekúndur og setjið í skálina
  3. Myljið hrískökurnar í höndunum eða malið í 2-3 sekúndur í matvinnsluvélinni.
  4. Bræðið carobið/súkkulaðið yfir vatnsbaði: Hitið vatn í potti (bara botnfylli) á vægum hita. Setjið skál ofan í sem situr á brúnum pottsins og brjótið carobið/súkkulaðið ofan í. Fylgist með því og hrærið öðru hvoru þangað til nánast bráðnað, takið þá af hitanum. Gætið þess að carobið/súkkulaðið ofhitni ekki og að ekki fari vatnsdropi ofan í carob/súkkulaðiskálina.
  5. Hellið carobinu/súkkulaðinu út í stóru skálina og hrærið vel.
  6. Setjið deigið á disk (þann disk sem kakan á að standa á).
  7. Mótið deigið með sleikju eða höndunum. Deigið á að vera frekar þétt.
  8. Kælið í a.m.k. eina klukkustund.
  9. Skerið bananann í sneiðar.
  10. Skreytið með sneiddum bönunum ásamt öðrum ferskum ávöxtum. Einnig má skreyta með kókosflögum, kókosmjöli eða hnetum.
  11. Dreifið kanil yfir.

Gott að hafa í huga

  • Carob er upplagt fyrir þá sem þola illa súkkulaði/kakó og hentar börnum vel enda eru engin örvandi efni í því. Það fæst í heilsubúðum og heilsuhillum matvöruverslana.
  • Athugið að dökkt súkkulaði/carob inniheldur yfirleitt mjólk, lesið ávallt innihaldslýsingu ef þið eruð með óþol/ofnæmi. Hægt er að nota mjólkurlaust súkkulaði/carob í staðinn.
  • Nota má vel þroskað mangó eða perur í staðinn fyrir banana.

Ummæli um uppskriftina

Lovísa vattnes
20. jún. 2014

Sæl Sigrún .
Mig langaði svo að vita hvað get ég notað í staðinn fyrir rjómaböku með kökum, eftirréttum og ís. Sem verður þykkt og líkist rjómaböku?
Fyrirfram þakkir
Lovísa15

sigrun
20. jún. 2014

Sæl Lovísa. Ég verð að viðurkenna að ég veit hreinlega ekki hvað rjómabaka er? Ég hef aldrei smakkað svoleiðis sjálf?