Einfalt hrísgrjónasalat
1. mars, 2003
Mig vantaði einhvern tímann meðlæti með einhverju sem ég var að elda og ég átti bara þetta hráefni í ísskápnum. Voða einfalt og auðvelt að búa til. Möndlurnar innihalda prótein, kalk og holla fitu sem gera þetta salat sérlega hollt.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Vegan
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án hneta
Einfalt hrísgrjónasalat
Meðlæti fyrir 3-4
Innihald
- 2 bollar hýðishrísgrjón eða bygg. Þeir sem hafa glúteinóþol ættu ekki að borða bygg en mega borða hýðishrísgrjón
- Sólþurrkaðir tómatar (ekki í olíu) saxaðir mjög smátt
- 2 sveppir saxaðar,, mjög smátt
- 2 msk möndluflögur, þurristaðar og svo muldar
- 0,5 tsk turmeric duft
- 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt) og smá klípa svartur pipar
- 2 msk vatn
Aðferð
- Sjóðið grjónin samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Kælið grjónin aðeins.
- Þurrristið möndlurnar á heitri pönnu (án olíu). Kælið svo og myljið gróft.
- Saxið sólþurrkuðu tómatana og sveppina og steikið upp úr vatni, salti og turmerici.
- Blandið öllu saman við grjónin og berið fram.
Gott að hafa í huga
- Nota má alls kyns hráefni í þetta salat. Það er t.d. gott að nota saxaðar, steiktar paprikur, furuhnetur, sesamfræ, rifinn ost (setja út í heit grjónin og hræra) o.fl.
- Þessi réttur er frábær í nestisboxið og má borða hann kaldan.
- Ef þið finnið aðeins sólþurrkaða tómata í olíu má annað hvort þerra olíuna með eldhúsþurrku en einnig hef ég notað þessa aðferð: Setjið sólþurrkuðu tómatana í sigti og hellið sjóðandi heitu vatni yfir þá (um 500 ml eða svo).
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024