Eggja- og grænmetisréttur í ofni
2. mars, 2003
Þessi réttur er bara svona hversdagsmatur, ekkert neitt spari en engu að síður bragðgóður, próteinríkur, magur, hollur og verulega þægilegur réttur.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án hneta
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án mjólkur
Eggja- og grænmetisréttur í ofni
Fyrir 2
Innihald
- 250 g blómkál eða spergilkál (brokkolí), brotið í sprota
- 1 laukur, afhýddur og skorinn í sneiðar
- 2 litlir tómatar, skornir í sneiðar
- 50 g reykt tofu (úr heilsubúð), skorið í bita (má sleppa)
- 10 svartar ólífur, sneiddar
- Hálf rauð paprika, fræhreinsið skorin í strimla
- 80 g magur ostur, rifinn
- 2 egg
- 2 eggjahvítur
- 200 ml sojamjólk eða undanrenna
- 1 msk maísmjöl eða spelti
- 1 tsk karrí
- 0,5 tsk paprika
- 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- Smá klípa svartur pipar
Aðferð
- Brjótið blómkálið í sprota og sjóðið í 8-10 mínútur.
- Afhýðið laukinn og skerið í sneiðar.
- Skerið tómatana og ólífurnar í sneiðar.
- Rífið ostinn á rifjárni.
- Skerið paprikuna langsum, fræhreinsið og skerið í strimla eða þunnar sneiðar.
- Skerið tofuið í frekar litla bita.
- Setjið blómkálið í frekar stórt, eldfast mót (óþarfi er að smyrja mótið).
- Raðið lauknum yfir og því næst papriku, ólífum og tofui.
- Hrærið saman eggjum, mjólk, maísmjöli, papriku, karríi, helmingnum af ostinum (40 gr), salti og pipar. Hellið yfir réttinn.
- Bakið við 180°C í 20 mínútur.
- Takið út úr ofninum, dreifið ostinum yfir og bakið í 10 mínútur eða þangað til osturinn er bráðinn.
Gott að hafa í huga
- Til að gera meiri mat úr þessum rétti má hafa soðin hýðishrísgrjón eða bygg og eitthvað gott salat með.
- Berið fram með tamarisósu.
- Nota má alls kyns grænmeti í réttinn t.d. kúrbít, gulrætur, kartöflur o.fl.
- Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
- Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
- Ef þið hafið mjólkuróþol má sleppa ostinum eða nota sojaost í staðinn.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024