Döðlusulta
14. desember, 2005
Þetta er heimsins einfaldasta sulta og passar rosa vel með t.d. vöfflum, í haframjölstertur (milli laga) ofan á kex með osti, ofan á hummus og margt fleira.
Upplagt er að frysta sultuna í litlum skömmtum. Best er að nota matvinnsluvél en hægt er að nota töfrasprota eða blandara en þá þarf stundum meiri vökva. Sultuna má líka nota sem sætugjafa í kökur.
Athugið að matvinnsluvél þarf til að útbúa þessa uppskrift.
Holl sulta upplögð á vöfflurnar
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Döðlusulta
Fyrir 5-6 sem meðlæti (t.d. á vöfflur)
Innihald
- 100 g döðlur, saxaðar gróft
- 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
- Smá klípa kanill, múskat eða negull (má sleppa)
- 250 ml hreinn eplasafi eða appelsínusafi
Aðferð
- Saxið döðlurnar gróft og setjið þær í pott ásamt safanum og kryddinu.
- Látið suðuna koma upp og leyfið döðlunum að malla í um 20 mínútur.
- Kælið döðlurnar aðeins og setjið í matvinnsluvél. Maukið döðlurnar í um 1 mínútu eða þangað til áferðin er silkimjúk. Ef illa gengur að mauka döðlurnar má bæta nokkrum matskeiðum af safa til viðbótar.
- Geymið í ísskáp í um viku eða frystið.
Gott að hafa í huga
- Mikilvægt er að geyma sultuna í ísskáp og geymist hún í rúmlega viku í lokuðu íláti.
- Einnig má frysta sultuna í litlum skömmtum og geyma þannig, upplagt að grípa úr frysti t.d. ef maður bakar vöfflur.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024