Döðlu- og valhnetubrauð

Þetta er samsetning úr mörgum döðlubrauðsuppskriftum. Þetta er voða fínt kökubrauð með sunnudagskaffinu og passar sérlega vel í nestisboxið fyrir stóra sem smáa. Brauðið má frysta og gott að hita varlega upp, eða skella í brauðristina.

Athugið að þið þurfið um 1 kílóa brauðform til að baka kökubrauðið í. Athugið einnig að ef þið hafið ofnæmi fyrir hnetum má alveg sleppa þeim.

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án hneta

Döðlu- og valhnetubrauð

Gerir 1 brauð

Innihald

 • 220 g döðlur, saxaðar gróft
 • 50 g valhnetur, saxaðar gróft (má sleppa)
 • 300 ml vatn (fyrir döðlurnar)
 • 350 g spelti
 • 20 g hveitiklíð (eða meira spelti)
 • 2 tsk vínsteinslyftiduft
 • 1 tsk kakó eða carob (má sleppa)
 • 75 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
 • 2 egg
 • 2 msk hreint hlynsíróp (e. maple syrup)
 • 2 msk kókosolía
 • 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)

Aðferð

 1. Saxið döðlurnar gróft, setjið í skál og hellið um 300 ml af sjóðandi heitu vatni yfir. Látið standa í 20 mínútur.
 2. Saxið valhneturnar gróft.
 3. Sigtið saman í stóra skál spelti, lyftiduft og kakó. Hrærið vel og bætið hveitiklíðinu saman við.
 4. Í annari skál skuluð þið hræra saman eggjum, vanilludropum, rapadura hrásykri, hlynsírópi og kókosolíu. Hellið út í stóru skálina og veltið deiginu til (ekki hræra of mikið).
 5. Hellið vatninu af döðlunum og geymið. Bætið döðlunum út í stóru skálina ásamt valhnetunum. Notið eins mikið af vatninu og þarf út í deigið. Athugið að deigið á að leka af sleif í stórum klessum en á ekki að leka af í dropatali. Það ætti heldur ekki að vera nægilega þurrt til að hægt væri að hnoða deigið.
 6. Klæðið brauðform að innan með bökunarpappír. Hellið deiginu út í og gætið þess að það fari í hornin líka.
 7. Bakið við 180°C í 40-45 mínútur.
 8. Berið fram með lífrænt framleiddum sultum án viðbætts sykurs, smurosti, ólífusmjöri o.fl.

Gott að hafa í huga

 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
 • Gott er að bæta svolitlu af söxuðum valhnetum eða pecanhnetum í deigið.
 • Kanill fer vel með þessu kökubrauði, sérstaklega ef þið bakið það fyrir jólin.
 • Þegar kökubrauðið hefur kólnað er best að skera það í sneiðar og frysta hverja sneið fyrir sig. Þannig er auðvelt að kippa einni og einni sneið út og setja t.d. í brauðrist eða bakaraofn.

Ummæli um uppskriftina

gestur
23. feb. 2011

mjög gott brauð hjá þér, takk fyrir þetta :)

sigrun
24. feb. 2011

Gaman að heyra að þér líkaði brauðið. Þú ættir að prófa kryddbrauðið líka, það er mjög gott :)

Hrefna Sif Jónsdóttir
29. júl. 2012

Ég var að prófa þetta döðlubrauð! Það er algjör snilld, rosalega gott. Ætlum að nota það sem nesti í vinnuna á morgun :) Takk fyrir uppskriftina.

sigrun
29. júl. 2012

Meiriháttar! Svo er mjög sniðugt að frysta það og taka með sér í nesti :)