Döðlu- og hnetubúðingur
5. mars, 2003
Þetta er bragðgóður og sérlega hollur búðingur og hentar einstaklega vel fyrir þá sem hafa mjólkuróþol. Ég geri hann oft á föstudegi til að eiga yfir helgi því hann geymist vel. Einnig má frysta hann. Ég ber búðinginn gjarnan fram í ísskálum eða litlum skálum með svolitlu af cashewhneturjóma (eða þeyttum sojarjóma fyrir þá sem vilja).  Stundum set ég saxaðar hnetur yfir búðinginn, stundum ávexti eða ber og stundum kókosflögur, allt eftir því hvað ég á til í það skiptið.
Athugið að nota þarf matvinnsluvél til að útbúa þessa uppskrift. Gott er að flýta fyrir sér með því að nota heslihnetur sem búið er að rista og afhýða.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Vegan
Döðlu- og hnetubúðingur
Fyrir 2
Innihald
- 125 gr, döðlur, saxaðar gróft
- 125 ml lífrænt framleiddur barnamatur án sykurs; epla-, peru-, eða aprikósumauk
- 100 g heslihnetur, þurrristaðar, afhýddar og malaðar
- 100 g möndlur, þurristaðar og malaðar
- 1 vel þroskaður banani, stappaður
- 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
- 1 msk kókosolía
- 1 tsk kanill
- 0,25 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- 1 msk kakó eða carob (má sleppa)
- 45 g kókosmjöl
Aðferð
- Saxið döðlurnar gróft og leggið í bleyti í 20 mínútur.
- Ef þið notið heilar heslihnetur með hýði, þurristið þá hneturnar á heitri pönnu. Til að þurrrista á pönnu er best að hita hana á fullum hita og rista hneturnar í nokkrar mínútur eða þangað til hýðið fer að losna. Kælið og nuddið hýðinu af.
- Þurrristið cashewhneturnar í nokkrar mínútur eða þangað til þær fara að ilma.
- Setjið heslihnetur, möndlur og cashewhnetur í matvinnsluvél og blandið í um 1 mínútu eða þangað til hneturnar og möndlurnar eru fínmalaðar. Skafið hliðar matvinnsluvélarinnar og bætið barnamatnum út í. Blandið í 1 mínútu eða þangað til hneturnar og möndlurnar eru vel maukaðar. Þeim mun betur maukaðar þeim mun fínni áferð verður á músinni. Setjið í stóra skál.
- Hellið vatninu af döðlunum og setjið þær í matvinnsluvélina. Blandið í um eina mínútur eða þangað til vel maukaðar.
- Bætið vanilludropum, banana, kókosolíu salti, kakói, kókosmjöli og kanil út í matvinnsluvélina og maukið í um 30 sekúndur. Hellið út í stóru skálina og hrærið vel saman. Einnig má blanda öllu saman í matvinnsluvél eða hrærivél.
- Kælið í klukkutíma í ísskápnum.
Gott að hafa í huga
- Berið fram í desertskálum með ferskum ávöxtum og ef til vill smá slettu af cashewhneturjóma (venjulegum rjóma eða sojarjóma ef þið hafið mjólkuróþol).
- Nota má carob í staðinn fyrir kakó.
- Í staðinn fyrir barnamat má nota eplamauk (enska: Apple sauce) úr heilsubúð eða heilsudeildum matvöruverslana.
- Ef afgangur er af barnamatnum má frysta hann í ísmolabox og nota í drykk síðar (smoothie).
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2025