Döðlu- og hnetubiti
17. ágúst, 2006
Þessir hnetubitar eru frábærir í skólann, ræktina, vinnuna, gönguna, hestaferðina og útileguna. Þeir eiga við hvar sem er, hvenær sem er. Hnetubitarnir eru stútfullir af orku, flóknum kolvetnum, trefjum, hollri fitu og próteinum. Sannkallaðir ofur-orkubitar.
Athugið að matvinnsluvél þarf til að útbúa þessa uppskrift.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Vegan
Döðlu- og hnetubiti
Gerir um 10-15 stykki
Innihald
- 100 g cashewhnetur
- 20 g möndlur
- 45 g sprengd hrísgrjón (e. puffed rice) eða hrískökur
- 20 g próteinduft (lífrænt framleitt)
- 2 tsk kúfullar sesammauk (e. tahini)
- 2 tsk kúfullar hnetusmjör (hreint)
- 2 msk hreint hlynsíróp
- 2 msk hrísgrjónasíróp (enska: brown rice syrup)
- 115 g döðlur (mjúkar og steinlausar)
- 2 msk hreinn appelsínusafi
Aðferð
- Setjið cashewhnetur, möndlur og sprengd hrísgrjón í matvinnsluvél og blandið í um 1 mínútu eða þangað til fínmalað. Athugið að hrísgrjónin malast ekki endilega svo vel og það er allt í lagi. Bætið próteinduftinu út í og blandið áfram í nokkrar sekúndur. Setjið í stóra skál.
- Setjið sesammauk, hnetusmjör, hlynsíróp og hrísgrjónasíróp út í matvinnsluvélina ásamt döðlum og appelsínusafa og maukið í um 1 mínútu eða þangað til vel blandað saman. Skafið hliðar matvinnsluvélarskálarinnar og maukið áfram ef þarf þangað til nokkuð maukað. Setjið út í stóru skálina.
- Blandið þurrefnum og blautefnum saman í eina skál og hnoðið vel saman. Mótið litlar kúlur (aðeins minni en golfkúlu) og fletjið út í eins konar buff. Geymið í kæliskáp.
Gott að hafa í huga
- Börn ættu ekki að neyta próteindufts nema í samráði við næringarfræðinga eða lækna.
- Puffed rice eru sprengd hrísgrjón og fást í heilsubúðum. Einnig má nota puffed spelt (inniheldur glútein) eða hrískökur. Einnig er afar gott að nota sprengt quinoakorn.
- Nota má byggmaltsíróp (e. barley malt syrup) í staðinn fyrir hrísgrjónasíróp en það er ekki glúteinlaust. Hvoru tveggja fæst í flestum heilsubúðum.
- Sleppa má próteindufti en er auðvitað gott að nota fyrir þá sem eru að byggja upp vöðva. Ég er hrifin af Solgar vörunum en einnig má nota bara venjulegt undanrennuduft (ef þið hafið ekki mjólkuróþol eða eruð ekki vegan).. Ef þið hafið mjólkuróþol skuluð þið lesa utan á innihaldslýsingu en það próteinduft sem ég hef notað, hentar þeim sem eru vegan.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2025