Döðlu- og appelsínubitar
Valhnetur eru algjörar galdrahnetur, stútfullar af omega 3 fitusýrum sem eru svo góðar til að sporna gegn hjartasjúkdómum og of háum blóðþrýstingi. Þar sem líkaminn framleiðir ekki þessar mikilvægu fitusýrur er nauðsynlegt fyrir okkur að hjálpa honum aðeins með því að borða t.d. lúku af valhnetum öðru hvoru. Valhnetur hafa einnig þótt hjálpa einstaklingum með exem og önnur húðvandamál sem og fólki með asthma. Valhnetur innihalda einnig ellagic acid sem hjálpa til við að sporna gegn krabbameini en einnig styðja þær við ónæmiskerfið. Þær eru líka dæmalaust góðar bakaðar. Döðlur innihalda svo sykur sem leysist hægt upp í blóðinu, svo þessir bitar eru upplagðir seinni partinn í vinnunni eða skólanum (þegar mann langar í eitthvað sætt) en einnig eru bitarnir fínir í gönguna og útileguna. Haframjölið sér svo til þess að við verðum ekki of svöng allt of fljótt því það inniheldur jú prótein og flókin kolvetni. Bitarnir eru fullkomin blanda af hollri fitu, flóknum kolvetnum, sætleika og próteinum. Uppskriftin kemur örlítið breytt úr gamalli bók sem ég á sem heitir Gómsætt og gott (ég notaði kókosolíu í stað smjörs, spelti í stað hveitis og agavesíróp í stað hunangs. Ég notaði einnig appelsínusafa á móti kókosolíunni). Það er upplagt að frysta það sem ekki klárast strax og hita upp síðar.
Athugið að þið þurfið ferkantað 18 sm bökunarform fyrir þessa uppskrift.
Hollir og góðir bitar, tilvaldir í nestið
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
- Án eggja
- Vegan
Döðlu- og appelsínubitar
Innihald
- 175 g döðlur, saxaðar smátt
- Hýðið af 2 appelsínum, rifið á rifjárni
- 1 appelsína, afhýdd, steinar fjarlægðir og appelsínan söxuð smátt
- 3 msk kókosolía
- 75 g spelti
- 100 g haframjöl
- 4 msk agavesíróp (eða acacia hunang)
- 25 g saxaðar valhnetur (eða pecanhnetur)
- 1 msk sesamfræ (má sleppa)
- 3 msk appelsínusafi (ef þarf)
Aðferð
- Saxið döðlur og valhnetur mjög smátt.
- Rífið appelsínuhýðið á rifjárni. Gætið þess að rífa aðeins hýðið (ekki þetta hvíta undir því það er svo beiskt á bragðið).
- Skrælið appelsínuna, fjarlægið alla steina og saxið eins smátt og hægt er. Fjarlægið eins mikið af þessu hvíta utan af appelsínunni og hægt er.
- Blandið döðlunum, appelsínuberkinum og söxuðu appelsínunni saman í eina stóra skál.
- Hrærið saman í annari skál kókosolíu, haframjöli, spelti, agavesírópi, hnetum og sesamfræjum.
- Bætið appelsínusafanum hér ef ykkur þykir þurfa. Það er ágætt að blandan sé svolítið blaut (án þess samt að hún leki af sleif).
- Setjið bökunarpappír í form sem er 18 sm x 18 sm að stærð.
- Setjið helminginn af haframjölsblöndunni ofan í formið og þrýstið mjög fast ofan á. Gætið þess að hvergi sé gat og að allt tolli vel saman. Ef blandan molnar má setja 1-2 matskeiðar af appelsínusafa út í og hræra vel.
- Setjið döðlu- og appelsínublönduna ofan á haframjölsbotninn og þrýstið vel ofan á.
- Setjið afganginn af haframjölsblöndunni ofan á. Ef hún er þurr, bætið þá 1-2 msk af appelsínusafa við. Blandan þarf að dreifast ágætlega og því er gott að hafa hana svolítið blauta (þannig að dropi af sleif í stórum kekkjum en leki ekki í dropatali).
- Þrýstið vel ofan á haframjölsblönduna.
- Bakið við 190°C í um 30-35 mínútur.
- Kælið og skerið í bita.
Gott að hafa í huga
- Nota má valhnetur í staðinn fyrir pecanhnetur.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
Ummæli um uppskriftina
03. ágú. 2011
Mér datt í hug að prófa þessar þar sem bæði útlit og innihald minna mig á bitana frá Himneskri Hollustu sem ég laumast stundum til að kaupa mér. Þeir eru hins vegar dýrir og innihalda þar að auki aðeins of mikið af smjöri! Þessir bitar eru hins vegar æði og svalar sko alveg súkkulaðiþörf heimilisfólksins. Ég hef prófað mig aðeins áfram með þá, notað grunninn og svo bara sett það sem er til, t.d sólblómafræ, X-tra mikið af semsam og svo apríkósur ef ég á ekki appelsínur og þær bregðast aldrei:). Bananamúffurnar og kókoskúlurnar eru svo einnig orðnar ómissandi á þessu heimili.
Alltaf gaman að skoða síðuna þína, bara verst að maður verður dálítið svangur:)
kv Sigrún
04. ágú. 2011
Takk Sigrún mín, gleður mig að heyra :)