Dhal (baunasúpa) með graskeri og kókosmjólk
Haldið þið ekki að gasið á eldavélinni hafið klárast akkúrat þegar ég var að búa til þennan rétt. Það voru um 20 mínútur eftir af eldunartímanum. Ég endaði á því að þurfa að setja súpuna í eldfast mót og hita hana svoleiðis. Sem var ekki auðvelt því ég gerði helling af súpu og ofninn var því fullur af eldföstum mótum með baunasúpu í. Það kom reyndar ekki að sök því súpan varð alveg ferlega góð. Súpan er með mildu, sætu kryddbragði eins og margir indverskir réttir og er létt en um leið saðsöm því í henni er kókosmjólk. Grasker innihalda C vítamín og fleira gott fyrir okkur svona yfir vetrartímann. Linsubaunir eru trefja, járn- og próteinríkar, innihalda fólinsýrur og magnesíum og eiga að stuðla að heilbrigðu hjarta. Grasker eru komin á kreik í nóvember svo það er upplagt að gera þessa súpu þegar grasker eru í búðinni og slydda á rúðunni (rímaði næstum því.....). Súpan er glúteinlaus, mjólkurlaus og hentar þeim sem eru jurtaætur (enska: vegan).
Athugið að þið sjóðið í raun tvær súpur og blandið þeim svo saman svo þið þurfið tvo potta. Athugið einnig að best er að nota töfrasprota, matvinnsluvél eða blandara til að mauka súpuna.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Dhal (baunasúpa) með graskeri og kókosmjólk
Innihald
- 1 hvítlauksrif
- 10 g ferskt engifer
- 1 rauður chili pipar
- 1 heil kanilstöng
- 2 heilir negulnaglar (e. cloves)
- 2 laukar
- 2 sellerístilkar
- 1 msk kókosolía og vatn til viðbótar ef þarf meiri vökva
- 1 msk tómatmauk (puree)
- 200 g brúnar linsubaunir (e. lentils)
- 1 lítri vatn
- 1 gerlaus grænmetisteningur
- 500 g butternut grasker. Þyngdin miðast við graskerið áður en það er verkað.
- 400 ml kókosmjólk
- 0,5 tsk múskat
- 2 dropar stevia án bragðefna (eða 0,5 tsk agavesíróp)
Aðferð
- Afhýðið lauk, engifer og hvítlauk. Saxið mjög smátt.
- Skerið chili piparinn langsum og hreinsið fræin úr. Saxið mjög smátt.
- Sneiðið selleríið fremur gróft.
- Hitið kókosolíuna í stórum potti. Hitið laukinn í 5 mínútur eða þangað til hann er orðinn mjúkur. Bætið vatni við ef þarf meiri vökva.
- Bætið kanilstönginni, negulnöglunum, hvítlauknum, engiferinu, chilli piparnum og selleríinu út í. Hitið í nokkrar mínútur. Bætið tómatmaukinu út í ásamt linsubaununum.
- Setjið vatnið og grænmetisteninginn út í pottinn og látið suðuna koma upp. Látið bullsjóða í 10 mínútur og fjarlægið froðu ef hún myndast. Lækkið hitann og látið súpuna malla við vægan hita í um klukkutíma eða þangað til baunirnar verða mjúkar. Maukið súpuna með töfrasprota í 2-3 sekúndur.
- Á meðan skuluð þið afhýða graskerið, fræhreinsa það og saxa í grófa bita. Setjið graskerið í meðalstóran pott ásamt múskati og stevia dropum. Hellið kókosmjólkinni út á og látið malla við vægan hita í um 30-40 mínútur eða þangað til graskerið er orðið mjög mjúkt. Maukið graskerið með töfrasprota (eða með matvinnsluvél eða blandara).
- Fjarlægið negulnaglana og kanilstöngina úr baunasúpunni. Hellið henni í skálar (fyllið helming skálanna). Hellið graskersmaukinu varlega, í mjórri bunu ofan á baunasúpuna. Dragið skapt á gaffli til að draga í gegnum súpuna og gera mynstur.
Gott að hafa í huga
- Berið fram með chapati eða snittubrauði.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum. Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
- Ef afgangur er af kókosmjólkinni má frysta hana í ísmolabox og nota síðar, t.d. í svona súpur.