Coronation kjúklingasalat

Ég hef séð coronation chicken samlokur hérna í UK og þær eru ekki mjög geðslegar, vaðandi í smurolíumajonesi og glúkósasírópi. Ég var því frekar treg til að prófa að útbúa þennan rétt en sem betur fer lét ég fordóma lönd og leið því hann er mjög góður (fyrir þá sem borða kjúkling). Ég notaði jógúrt og svolítinn sýrðan rjóma í staðinn fyrir majones en þeir sem vilja geta auðvitað notað heimatilbúið majones. Þessi réttur er borinn fram kaldur og er tilvalinn til að borða úti á heitum sumardegi. Vínberin og karríið passa mjög vel saman. Upplagt í samlokuna eða vefjuna daginn eftir!

Best er að leyfa réttinum að taka í sig bragðið í kæliskáp í nokkrar klukkustundir áður en hann er borinn fram svo gerið ráð fyrir því í undirbúningi.


Mildur og góður kjúklingaréttur fyrir alla fjölskylduna

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án eggja
 • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án mjólkur

Coronation kjúklingasalat

Fyrir 2-3

Innihald

 • 2 kjúklingabringur, grillaðar
 • 50 g vínber, steinalaus
 • Lítil lófafylli fersk steinselja
 • 1 hvítlauksrif
 • Hálfur, lítill blaðlaukur (dökkgræni endinn)
 • 150 ml hrein jógúrt/sojajógúrt
 • 2 msk 10% sýrður rjómi án gelatíns
 • 2 dropar steviadropar án bragðefna (eða 1 tsk agavesíróp)
 • 1 msk milt karrí
 • Svartur pipar eftir smekk

Aðferð

 1. Grillið kjúklingabringur í eldföstu móti við 180°C í um 35 mínútur eða þangað til eldaðar í gegn. Kælið aðeins, fjarlægið skinnið og skerið kjötið í munnbitastóra bita. 
 2. Skerið vínberin langsum í 4 sneiðar hvert.
 3. Afhýðið hvítlaukinn og pressið eða saxið smátt. Skerið blaðlaukinn í sneiðar. Setjið í skál ásamt kjúklingabitum, vínberjum, saxaðri steinselju, jógúrti, sýrðum rjóma, steviadropum, karríi og pipar. Látið standa í kæli í um klukkutíma. 
 4. Takið salatið úr ísskápnum um 20 mínútur áður en á að borða það.

Gott að hafa í huga

 • Gott er að bjóða upp á soðin hýðishrísgrjón eða bygg með salatinu.
 • Einnig er gott að hafa nýbakað, gróft snittubrauð með þessum rétti.
 • Nota má sojajógúrt eða AB mjólk í staðinn fyrir venjulega jógúrt.
 • Ég nota sýrðan rjóma frá Mjólku, hann er án gelatíns. 
 • Notið velferðarkjúkling (free range) ef þið mögulega getið.
 • Ef ekki fást steinlaus vínber skal hreinsa steinana úr. Steinar úr vínberjum ættu ALDREI að vera í neinum mat, miður skemmtilegt að þurfa að plokka þá úr munninum.
 • Nota má þunnar gúrkusneiðar í staðinn fyrir blaðlaukinn ef þið borðið ekki lauk. 

Ummæli um uppskriftina

Sesselia
06. júl. 2012

Tessi rèttur er taer snilld med snittubraudinu baedi alveg sjúklega gott
takk fyrir fràbaera sídu :)

sigrun
06. júl. 2012

Gaman að heyra og takk fyrir að deila með okkur hrósinu, alltaf gaman að fá klapp á bakið :)