Chili con elote (chili pottréttur með maískorni)

Reglulega góður pottréttur hér og auðveldur (þó hann virki flókinn). Gott er að búa hann til deginum áður en á að borða hann því hann verður bara betri svoleiðis. Það hentar líka vel að frysta hann og geyma til síðari tíma. Rétturinn er frábær fyrir alla fjölskylduna og hentar einkar vel í matarboð þar sem hann inniheldur ekki margt sem fólk hefur ofnæmi eða óþol fyrir. Í grunninn er rétturinn einnig vegan.


Ljúffengur, ódýr og auðveldur pottréttur fyrir alla fjölskylduna

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Chili con elote (chili pottréttur með maískorni)

Fyrir 5-6

Innihald

  • 1 rauðlaukur
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 msk kókosolía
  • 1 græn paprika
  • 1 kúrbítur 
  • Fjórðungur spergilkálshaus 
  • 1,5 gerlaus grænmetisteningur
  • 500 ml vatn
  • 4 msk tómatmauk (e. puree)
  • 3 steviadropar án bragðefna (eða 1 msk agavesíróp)
  • 300 g maískorn (ferskt, frosið eða úr dós, án sykurs)
  • 1,5 dós nýrnabaunir
  • 0,5 tsk chili pipar
  • 0,5 tsk cumin (ekki kúmen)
  • 1 tsk oregano
  • Salt (Himalaya- eða sjávarsalt) eftir smekk

Aðferð

  1. Afhýðið lauk og hvítlauk og saxið smátt.
  2. Skerið paprikuna í helminga, fræhreinsið og skerið hana í strimla.
  3. Skerið spergilkálið í litla sprota. 
  4. Skerið kúrbítinn í sneiðar. 
  5. Hitið kókosolíuna og léttsteikið lauk og hvítlauk í 7-10 mínútur. Bætið paprikunni, spergilkálinu og kúrbítnum út í og látið krauma í 5 mínútur.
  6. Síið vökvann frá maískorninu og nýrnabaununum (vökvinn er ekki notaður).
  7. Setjið vatnið, grænmetisteninginn, tómatmaukið, steviadropana og maískornið út í pottinn ásamt kryddinu (chili pipar, salt, cumin og oregano). Bætið einnig helmingnum af nýrnabaununum saman við.
  8. Stappið afganginn af nýrnabaununum og bætið þeim út í. Hrærið þar til allt er orðið vel heitt og farið að malla.
  9. Gott er að láta pottréttinn malla við lágan hita í um klukkustund en hann þarf að minnsta kosti 30 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Berið fram með snittubrauði og hreinu jógúrti (ef þið eruð vegan eða með mjólkuróþol má nota vegan og mjólkurlausan sýrðan rjóma). Einnig er gott að saxa vel þroskað avocado og bera fram með réttinum.
  • Nota má rauða papriku í stað grænnar.
  • Bæta má öðru grænmeti út í t.d. selleríi, blómkáli o.fl.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
  • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
  • Frábært er að frysta pottréttinn og hita upp síðar. Hann er einnig afbragðsgóður með tortillaflögum úr heilsubúð eða vefjum.