Cashewmauks- og bananamjólk

Þessi drykkur er unaðslegur, hann er hreinlega eins og flauel upp í manni (ég hef ekki smakkað fljótandi flauel en er viss um að það bragðast svona). Drykkurinn er upplagður eftir ræktina eða sem léttur morgunmatur því hann inniheldur bæði holla fitu, prótein og kolvetni. Um 75% fituinnihalds í cashewhnetum eru einómettaðar fitusýrur (oleic acid) og sýnt hefur verið fram á að þessar sýrur hjálpi til við að sporna gegn hjartasjúkdómum og sagt er að cashewhnetur séu sérlega góðar fyrir þá sem hafa sykursýki. Cashewhnetur innihalda einnig mikið af kopar og kalki. Kalkið er auðvitað gott fyrir beinin okkar en koparinn skiptir máli líka, sérstaklega fyrir járnbúskapinn en einnig hefur kopar andoxunareiginleika. Kopar er einnig mikilvægur fyrir æðar, bein og liði. Það er samt ekki sniðugt að fara í Byko og kaupa koparrör til að bryðja…....líklega eru cashewhnetur betri kostur!


Unaðslega mjólkurlausa mjólkin

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan

Cashewmauks- og bananamjólk

Fyrir 2

Innihald

  • 4 ísmolar
  • 250 ml sojamjólk (eða önnur mjólk)
  • 2 msk cashewmauk (enska: cashew butter)
  • 1 vel þroskaður banani
  • 1 tsk hlynsíróp eða nokkrir steviadropar

Aðferð

  1. Setjið ísmolana í blandara ásamt 50 ml af sojamjólkinni og blandið í nokkrar sekúndur.
  2. Bætið 100 ml af sojamjólkinni út í til viðbótar ásamt banana, cashewmauki og hlynsírópi eða steviadropum.
  3. Blandið í allt að 30 sekúndur eða þangað til drykkurinn er silkimjúkur.
  4. Bætið afgangnum af sojamjólkinni saman við og blandið á hæsta styrk í nokkrar sekúndur.
  5. Hellið í glös og berið fram strax.

Gott að hafa í huga

  • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
  • Cashewhnetumauk fást í heilsubúðum eða í heilsuhillum stærri matvöruverslana. Ef þið finnið ekki slíkt, má útbúa sitt eigið með því að mauka hneturnar í matvinnsluvél ásamt svolítilli kókosolíu þangað til afar vel maukað og silkimjúkt (því mýkra því betra).
     

Ummæli um uppskriftina

Elsa Pelsa
28. okt. 2011

þessi er yndisleg alveg :)

sigrun
28. okt. 2011

Gaman að heyra Elsa :)