Carobbúðingur
Ekki alveg Royal búðingurinn!!! Þessi hentar vel fyrir þá sem vilja gera vel við sig en vilja ekki óhollustuna sem fylgir venjulegum búðingum. Ég veit að mörg ykkar lyfta augabrúnum yfir avocadoi en ekki aðeins gefur það holla fitu heldur er það frábær uppfylling í búðinga. Mér finnst þetta svakalega góður búðingur þar sem engin aukaefni, litarefni, bragðefni, hleypiefni gelatín eða annað furðulegt innihald er að finna í honum. Hann er mjög fínn fyrir börn líka þar sem engin örvandi efni eru í honum (ólíkt súkkulaðibúðingum). Athugið að á myndinni er búðingurinn dökkur en carob sem fæst hér á Íslandi er aðeins ljósara en það sem fæst í London. Það skiptir ekki máli upp á bragðið að gera, er bara útlitslegt atriði. Ég skreytti búðinginn með kókosmjöli en það má skreyta með hverju sem er t.d. söxuðum heslihnetum, jarðarberjum eða smá slettu af rjóma.
Athugið að nauðsynlegt er að nota matvinnsluvél til að útbúa þessa uppskrift.
Dökkur búðingur, fullur af hollustu
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
- Hráfæði
Carobbúðingur
Innihald
- 90 g döðlur, saxaðar gróft
- 250 ml hreinn eplasafi
- 1 lítið, vel þroskað avacado
- 1 lítill, vel þroskaður banani
- 2 msk agavesíróp
- 2-3 msk carobduft
Aðferð
- Saxið döðlurnar gróft og látið þær liggja í eplasafanum í meira en klukkustund.
- Afhýðið bananann og brjótið í nokkra bita.
- Afhýðið avocadoið, fjarlægið steininn og skerið gróft.
- Setjið döðlurnar, safann, agavesírópið, avocadoið og bananann í matvinnsluvél. Látið vélina vinna í 30 sekúndur. Skafið hliðar matvinnsluvélarinnar og blandið áfram í 30 sekúndur eða þangað til allt er vel maukað og engir bitar eftir.
- Bætið carobduftinu út í matvinnsluvélina og maukið í 30 sekúndur eða þangað til allt er orðið flauelsmjúkt.
- Kælið í a.m.k. 2 klukkustundir.
- Skreytið með kókosmjöli, kókosflögum, bananasneiðum, söxuðum hnetum, rjóma o.s.frv.
Gott að hafa í huga
- Carobduft (lítur út svipað og kakó) fæst í heilsubúðum.
- Carobbúðinginn má einnig frysta og borða sem ís.
- Nota má kakó í staðinn fyrir carob.
Ummæli um uppskriftina
25. nóv. 2012
Þessi búðingur var eftir réttur hjá mér í gærkvöld. Hann er mjög góður og verður gaman að sjá hvernig hann bragðast sem ís.
25. nóv. 2012
Já frystirðu hann? Hann ætti að bragðast prýðilega sem ís, góð hugmynd.