Carobbitakökur

Ef þið eruð bara fyrir dísætar smákökur þá eru þessar ekki fyrir ykkur. Hins vegar ef þið viljið hollar smákökur, og ekki hroðalega sætar þá er þessi uppskrift upplögð!!! Ef þið eigið til dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði með hrásykri getið þið notað það í staðinn fyrir carob. Carob hentar hins vegar vel fyrir þá sem mega ekki borða súkkulaði en vilja samt geta notið þess að borða „súkkulaðibitakökur”. Carob hentar einnig fyrir börn því það inniheldur ekki örvandi efni, ólíkt súkkulaði. Athugið að carob/súkkulaði getur innihaldið mjólk svo skoðið innihaldið ef þið hafið mjólkurofnæmi. Carob (sem lítur út eins og súkkulaðistykki) fæst í heilsubúðum og í heilsuhillum stærri matvöruverslana.


Hollar og góðar carobbitakökur

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur

Carobbitakökur

Gerir um það bil 36 kökur

Innihald

  • 100 g döðlur, saxaðar gróft
  • 175 ml hreinn appelsínusafi eða eplasafi 
  • 185 g spelti
  • 1 tsk vínsteinslyftiduft
  • 60 g carob, saxað smátt
  • 50 g hnetur, saxaðar (t.d. valhnetur, heslihnetur, Brasilíuhnetur)
  • 60 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
  • 4 msk kókosolía
  • 1 egg
  • 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)

Aðferð

  1. Sjóðið döðlur í safanum þangað til blandan er orðin mjúk og þykk (í um 30 mínútur). Látið kólna.
  2. Saxið carob og hnetur frekar smátt.
  3. Sigtið saman spelti og vínsteinslyftiduft í stóra skál.
  4. Bætið carobinu og hnetunum út í skálina og hrærið vel.
  5. Í aðra skál skuluð þið setja egg, rapadura hrásykur, vanilludropa og kókosolíu. Hrærið létt. Bætið döðlaumaukinu saman við og hrærið mjög vel.
  6. Hellið nú döðlaumauksblöndunni út í stóru skálina og hnoðið deigið létt saman. Deigið ætti að vera frekar þurrt en án þess þó að það molni í sundur.
  7. Mótið litlar kúlur úr deiginu.
  8. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og raðið kúlunum á plötuna. Ýtið létt ofan á kúlurnar með gaffli (gott að dýfa honum í vatn á milli).
  9. Bakið við 180°C í 15-20 mínútur þangað til kökurnar eru orðnar gullbrúnar, passið að baka þær ekki of lengi.

Gott að hafa í huga

  • Kökurnar eru mjúkar þegar þær koma út úr ofninum en þær harðna aðeins við að kólna.
  • Athugið að smákökurnar eru bestar nýbakaðar. Frystið þær smákökur sem þið borðið ekki samdægurs og hitið svo upp síðar. Þær verða eins og nýbakaðar.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði með hrásykri, í staðinn fyrir carob. Athugið að carob/dökkt súkkulaði getur innihaldið mjólk, svo skoðið vel innihaldslýsingu ef þið hafið ofnæmi/óþol. Ég nota mjólkurlaust carob í þessa uppskrift.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.