Bygg- og cashewhnetuborgarar

Þetta eru góðir grænmetis- og hnetuborgarar sem henta vel sem hvers dags matur og gott að eiga þá í frystinum. Það er lang best að gera nokkuð mikið magn í einu þegar maður hefur nógan tíma og frysta (nema maður hafi nógan tíma í miðri viku… sem fáir hafa). Ég var að hugsa þegar ég útbjó þessa uppskrift að hún er eiginlega vonlaus fyrir þá sem hafa einhvers óþol eða ofnæmi því í uppskriftinni er glútein, hnetur, fræ, laukur og egg. Ég var að hugsa um að bæta smá mjólk út í hana líka til að hafa hana 100% “ó-þolandi” (lélegur brandari). En engar áhyggjur…, ef þið hafið ofnæmi/óþol má finna aðra borgara hér á vefnum sem henta betur. Fyrir þá sem hafa ekkert ofnæmi/óþol eru borgararnir dæmalaust góðir. Ég hef oft tekið þessa borgara með mér í nesti hvort sem er í vinnuna eða í útileguna því auðvelt er að hita þá upp. Uppskriftin hentar líka vel í hnetusteik.

Nauðsynlegt er að nota matvinnsluvél fyrir þessa uppskrift.

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án glúteins

Bygg- og cashewhnetuborgarar

Gerir 16 borgara

Innihald

 • 480 g kjúklingabaunir (vatnið sigtað frá)
 • 200 g bygg, ósoðið
 • 1 laukur, afhýddur og saxaður smátt
 • 1 tsk kókosolía
 • 125 g cashewhnetur, þurrristaðar
 • 1 egg
 • 60 g tahini (sesammauk)
 • 1 tsk cumin
 • 1 tsk turmeric
 • 0,5 tsk karrí
 • 2 msk tamarísósa
 • 1 msk sítrónusafi
 • 1 gerlaus grænmetisteningur, skorinn í litla bita
 • 1 lítil gulrót, skræld og rifin
 • 40 g speltbrauðrasp (ég nota líka stundum spelt hrökkbrauð)
 • Nokkrar msk vatn (ef þarf)

Aðferð

 1. Sjóðið byggið samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Setjið til hliðar.
 2. Hitið pönnu (án olíu) og þurrristið cashewhneturnar í 3-5 mínútur eða þangað til þær taka lit. Takið hneturnar af pönnunni og kælið aðeins.
 3. Afhýðið laukinn og saxið smátt.
 4. Skrælið gulrótina og rífið á rifjárni.
 5. Hellið vatninu af kjúklingabaununum.
 6. Skerið grænmetisteninginn í mjög litla bita.
 7. Hitið kókosolíu á pönnunni. Steikið laukinn í 7-10 mínútur. Notið vatn ef þið þurfið að bæta við vökva.
 8. Setjið cashewhneturnar í matvinnsluvél og malið þangað til þær eru næstum því orðnar að mauki (eða mjög fínmalaðar).
 9. Setjið grænmetisteninginn út í og maukið í nokkrar sekúndur.
 10. Bætið brauðsneiðinni eða hrökkbrauðinu saman og malið í nokkrar sekúndur. Setjið í stóra skál.
 11. Setjið kjúklingabaunir, egg, tahini, cumin, turmeric, karrí, tamarísósu og sítrónusafa út í matvinnsluvélina.
 12. Maukið vel (mér finnst gott að hafa áferðina frekar mjúkaen þið ráðið hvort hún sé grófari). Setjið nokkrar matskeiðar af vatni út í ef þarf.
 13. Setjið blönduna út í stóru skálina og bætið byggi, gulrótum, lauk og brauðraspi út í.
 14. Kælið í 30 mínútur í ísskáp.
 15. Mótið borgara með höndunum.
 16. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og setjið borgarana á plötuna.
 17. Bakið við 180°C í 30-40 mínútur og snúið borgurunum við einu sinni.

Gott að hafa í huga

 • Berið fram með sinnepssósu og salati og jafnvel meira af soðnu byggi.
 • Nota má hýðishrísgrjón í staðinn fyrir bygg.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
 • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
 • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
 • Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósan inniheldur hveiti.
 • Nota má heslihnetur (afhýddar og þurrristaðar) í staðinn fyrir cashewhnetur.